14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6428 í B-deild Alþingistíðinda. (4429)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hefur farið fram athyglisverð umræða um þessa tillögu okkar alþýðubandalagsmanna um úttekt á hugmyndum um nýja álbræðslu. Sérstaklega þótti mér með endemum, liggur mér við að segja, málflutningur hv. 10. þm. Reykv. Guðmundar G. Þórarinssonar. Það er alltaf nokkur sérkennilegt þegar menn nota svo til allan ræðutíma sinn í það að tala um allt annað en það sem maður á yfirleitt von á þegar þm. stíga í pontu og taka til máls, þ.e. að þeir lýsi í einhverju afstöðu sinni eða síns flokks.

Hv. þm. tók þann kost að taka svo til allan ræðutíma sinn í að ræða um eða fyrir Alþb. og er það svo sem ágætt. Ég hef þá tilfinningu að það sé til mikilla bóta að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, 10. þm. Reykv., láti sem mest á sér bera í sambandi við stóriðju- og orkumál og muni ævinlega eftir því, ef hann vildi vera svo vænn, að taka það fram að hann sé í Framsfl. Ég vil gjarnan að við njótum þess, aðrir flokkar í stjórnmálaheiminum, að þessi hv. þm. spreyti sig og þá gjarnan með jafnglæsilegum árangri og hann gerði fyrir hönd síns flokks þegar hann hljóp fyrir borð á sínum tíma þegar verið var að knýja fram hækkun á raforkuverði til Landsvirkjunar frá Ísal. Sú sneypulega frammistaða er að fróðra manna sögn talin hafa kostað Framsfl. þúsundir atkvæða og bakað flokknum ómælda sneypu og skömm sem hann býr jafnvel enn að og er hugsanlegt að rifjist upp fyrir mönnum ef þessi hv. þm. er jafnötull við að láta á sér bera í þessum málum.

Það er eitt atriði sem ég teldi eðlilegt að spyrja hv. þm. Framsfl. hér að og ég átti reyndar von á því að hv. 10. þm. Reykv, mundi víkja að því einu eða tveimur orðum. Það er þetta — og hér er nú mættur hv. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson sem er í Framsfl. og hefur kannski einhverja skoðun á þessu máli: Er Framsfl. spenntur fyrir hugmyndum um nýtt risaálver í Straumsvík í ljósi þeirrar stöðu sem byggðamálin eru í í landinu, í ljósi fólksflóttans af landsbyggðinni, erfiðleika atvinnulífsins úti á landi? Telur Framsfl. það vænlega og heppilega fjárfestingu í íslenska þjóðfélaginu að um 40 milljörðum kr. verði bætt við erlendar skuldir Íslendinga - því að þannig er það fært - til að reisa eitt risastóriðjuver, risaatvinnufyrirtæki á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem mun skapa 400–500 manns atvinnu að staðaldri og jafnvel þúsundum á byggingartíma? M.ö.o., herra forseti, 1–2 meðalkaupstaðir utan af landi gætu flust á einu bretti á Reykjavíkursvæðið til þess eins að starfa við þetta nýja risaálver, 3–4 kauptún mætti flytja á einu bretti og skaffa öllu því fólki vinnu við þetta nýja álver. Svo ekki sé minnst á efnahagslegu áhrifin og þau áhrif sem þetta hlyti að hafa á vinnumarkaðinn og þensluna að öðru leyti.

Ég hefði talið fróðlegt að fá að heyra í svo sem eins og einum landsbyggðarþm. Framsfl. eða jafnvel annarra stjórnarflokka - ef þeir hafa á þeim málum einhverja skoðun - um það hvort mikil stemming sé fyrir þessu innan ríkisstjórnarflokkanna í heild og þá með sérstöku tilliti til byggðamálanna og þróunarinnar þar.

Ef hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er hér nærri ætla ég að segja honum það að ástæðan fyrir því að okkur varð á að brosa, nokkrum hv. þm., þegar hann nefndi bréf forsrh. til Byggðastofnunar er sú að Byggðastofnun heitir einu sinni Byggðastofnun vegna þess að hún á að sinna byggðamálunum. Og það á ekki að þurfa að skrifa þeirri ágætu stofnun neitt sérstakt bréf til að hún sinni sínu verkefni og fari yfir það og fylgist með því hvernig byggðaþróunin stendur á hverjum tíma.

Það er einhver mesti brandari sem þessi annars lítt gamansami hæstv. forsrh. hefur hitt á á sennilega allri samanlagðri ævi sinni þegar hann tók sér það fyrir hendur sem forsrh. og yfirmaður Byggðastofnunar að skrifa henni bréf, þessari stofnun, Byggðastofnun, til að biðja hana að athuga byggðamál. Hvað heldur annars hæstv. forsrh. að Byggðastofnun sé að gera og eigi að vera að gera yfirleitt? Það mætti halda að hæstv. forsrh. skilji ekki íslensku úr því að meira að segja nafnið á stofnuninni segir honum ekki nóg til að átta sig á þessu.

Stefna Alþb. í þessum efnum hefur verið alveg skýr, skorið Alþb. frá öðrum flokkum. Það sem við höfum lagt megináherslu á í þessum efnum er tvennt: Það er óskert, óskorað íslenskt forræði yfir öllu íslensku atvinnulífi. Það á við hér eins og annars staðar. Og í öðru lagi hvað orkumálin og orkusölu til atvinnulífsins, stóriðju sem annarra aðila, snertir, að eðlilegt verð sé greitt fyrir raforkuna.

Það sem hefur skilið algerlega á milli Alþb. og t.d. hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og annarra slíkra er að við höfum alfarið neitað því að framleiða orku og gefa hana útlendingum, erlendum auðhringum eða öðrum. Við höfnum þeirri stefnu sem var innleidd með tilkomu álversins í Straumsvík á sínum tíma að taka íslenskar auðlindir og verja nýtingu þeirra í þágu erlendra auðhringa í formi undirverðs á raforkunni sem síðan er borin uppi með niðurgreiðslum innlendra notenda. Um þetta snýst málið í raun og veru, hæstv. iðnrh., hversu ákaft sem höfuð þitt hristist. Við munum aldrei standa að slíkri gjörð og nóg er komið af slíku, að ráðist sé í þessar miklu fjárfestingar, að hagkvæmustu virkjunarkostir landsmanna sem gengið er á fyrst séu teknir til að framleiða raforku sem seld er undir kostnaðarverði til erlendra auðhringa og munurinn borinn uppi af innlendum notendum.

Hvað Blönduvirkjun varðar má upplýsa það fyrir hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, sem greinilega á ýmislegt ólært í þessum efnum þrátt fyrir öll störf sín í stóriðjunefndum og hvað það nú heitir, að núgildandi áform Landsvirkjunar gera ráð fyrir því að greiða upp allar skuldir af Blönduvirkjun fyrir árið 2000. Það þarf því enga erlenda stóriðju til.

Herra forseti. Aðalerindi mitt hingað upp var að láta á það reyna hvort hægt væri að fá nokkrar upplýsingar um það úr herbúðum Framsfl. hvernig stemmningin væri í Framsfl. um þessi áform um risaálver á Stór-Reykjavíkursvæðinu.