04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

1. mál, fjárlög 1988

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Fjárlagafrv. sem hér er lagt fram hefur verið til umræðu úti í þjóðfélaginu um allnokkurn tíma. Réttara væri reyndar að segja að fjárlagafrumvörp þessarar ríkisstjórnar hafi verið til umræðu því að eins og menn muna er þetta ekki eina fjárlagafrv. sem þessi starfssama ríkisstjórn hefur samið. Það þekkja allir gang þeirra mála og ég ætla ekki að fjölyrða um það.

Hitt er svo annað mál, og það hefur réttilega verið á það bent, að það er alls ekki ljóst hvort kalla eigi þetta frv. stjfrv. eða þmfrv. Ég hallast að því síðarnefnda eftir að hafa orðið þeirrar ánægju aðnjótandi síðustu dagana hér á þingi að sjá og heyra að við í stjórnarandstöðuflokkunum eigum heilan flokk af haukum í horni þar sem eru óbreyttir sem æðri þm. í liði stjórnarflokkanna. Ætti að nægja að minna á andstöðu hæstv. landbrh. við gjaldahlið frv. sem hann telur sig ekki geta fallist á.

Minna má einnig á afstöðu hæstv. utanrrh. um skert framlög til íþróttamála. Samstaða er reyndar lítil eða jafnvel engin um stóra þætti eins og aðgerðir í efnahags- og húsnæðismálum, en það þykir vissum hv. sem hæstv. þm. stjórnarliðsins alveg sjálfsagt og eðlilegt. Og af hverju finnst þeim það? Jú, það er vegna þess að þeir hafa svo mikinn meiri hluta að það gefur olnbogarými fyrir óstýriláta þm. og er það vel að þeir fái aðeins að gjósa núna og að því látið liggja að slíkt mundi ekki líðast nema í skjóli mikils meiri hluta. Við aðrar aðstæður mundu þeir verða að haga sér skikkanlega eða eins og fyrir þá væri lagt, enda hefur það verið meginverkefni hæstv. forsrh. okkar að sætta hin ólíkustu sjónarmið innan stjórnarflokkanna og hefur hann verið svo upptekinn af því að eftir honum hefur ekki verið tekið á öðrum vettvangi. Væri óskandi að sú staða breyttist sem fyrst þannig að ekki aðeins forsrh. heldur einnig aðrir ráðherrar fái starfsfrið fyrir eigin flokksbræðrum og bandamönnum.

Hv. þm. og flokksbróðir Óli Þ. Guðbjartsson hefur gert frv. að nokkru skil og gert það vel eins og hans var von og vísa. Mun ég því fjalla um afmarkað svið innan frv.. þ.e. málefni íþrótta, árásina á íþróttahreyfinguna í landinu. Ég ætla ekki að eyða orðum í mikilvægi íþrótta fyrir þjóðfélagið, enda tel ég mig þegar hafa gert því skil.

Með leyfi forseta vitna ég í ummæli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar við umræður um fjárlög fyrir árið 1987. Hann sagði:

„Ég styð eindregið þær tillögur sem komið hafa fram um varnir gegn fíkniefnum, en ég held að ein besta vörnin sé aukið æskulýðs- og íþróttastarf og þess vegna eigi hið opinbera, ríkið, að veita auknu fé í æskulýðs- og íþróttastörf, en það hefur verið hörmulega lítið eins og kunnugt er. Það er ein af kröfum tímans til þjóðfélagsins, til okkar þm., krafa sem við þurfum að fá svigrúm til að veita lið.“

Herra forseti. Ég vil einnig fá að lesa upp úr merkilegu plaggi, þ.e. ályktun flokksþings Alþfl. dags. 19. nóv. 1982. Það hljóðar svo:

„1. Alþfl. vill stuðla að eflingu íþróttastarfs í landinu. Innan íþróttahreyfingarinnar eru um 80 þús. félagar eða þriðjungur þjóðarinnar. Þeir iðka íþróttir sér til hressingar og heilsubótar. Svo er stór hópur ungmenna sem stefnir að afrekum, bæði á innlendum vettvangi og alþjóðamótum. Þess vegna er nauðsynlegt að efnilegt afreksfólk sé styrkt af almannafé til að geta stundað íþrótt sína eins og krafist er hjá öðrum þjóðum nú á dögum.

2. Alþfl. telur brýna nauðsyn bera til að öllum sé gert kleift að iðka íþróttir. Á tímum vaxandi tækniþróunar og kyrrsetu er hér um fyrirbyggjandi heilsugæsluatriði að ræða. Auka þarf áróður á þessu sviði.

3. Alþfl. leggur áherslu á að skipulega verði unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í landinu undir forustu sveitarfélaga. Margt hefur verið vel gert en betur má ef duga skal. Íþróttasjóður ríkisins verði efldur verulega svo að hann geti sinnt hlutverki sínu betur en verið hefur.

4. Alþfl. telur þörf á auknum framlögum ríkisins til íþróttahreyfingarinnar þannig að hún geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu betur í framtíðinni.“

Hvað veldur þeim sinnaskiptum sem orðið hafa hjá alþýðuflokksmönnum gagnvart íþróttum? Stefna þeirra nú er í engu samræmi við stefnu þeirra fyrir aðeins einu ári, hvað þá fyrir 4–5 árum. Í fyrra sögðu kratar: Beinum auknu fé til æskulýðs- og íþróttamála, það sé hörmulega lítið, kröfur tímans til þjóðfélagsins og okkar þm. o.s.frv. Kratar í dag segja: 26 millj. í fyrra verða að 14 millj. í dag. Þetta, ágætu kratar, er í engu samræmi við orð ykkar. Og í guðs bænum hættið að slá ykkur til riddara á kostnað lottósins. Þið eigið engan hlut þar að máli annan en þann að taka þátt í að veita því lögvernd. Það var fyrir atbeina forseta ÍSÍ að lottóið varð að staðreynd eftir margra ára baráttu fyrir því og það er alvarlegt mál fyrir íþróttahreyfinguna ef letja á hana til frjálsrar fjáröflunar vegna hættu á að ríkið hegni henni fyrir eins og nú er gert.

Þá leiðir maður hugann að því hvar séu skilin milli þess að ríkið þjóðnýti fjáröflunarleiðir íþróttahreyfingarinnar og hvar ekki. Að sjálfsögðu eiga þessir aðilar að fá að njóta árangurs af þeim fjáröflunarleiðum er þeir finna upp án þess að það bitni á opinberum styrkjum á meðan fjárþörfin er eins mikil og raun ber vitni. Ég skora því á hæstv. fjmrh. að endurskoða hug sinn til þessa máls og veita íþróttahreyfingunni þær 31,5 millj. er hún fer fram á sem fjárstuðning fyrir árið 1988.

Þá vara ég við því að leggja Íþróttasjóð niður og tel reyndar að við eigum að stórefla hann. Ég hræðist það og efast um að það sé rétt að færa íþróttastarfsemina í landinu yfir á sveitarfélögin. Miklu frekar á að efla sjóðinn og vinna að heildarskipulagi íþróttamála í landinu. Að færa þennan lið yfir á sveitarfélögin á eftir að verða þess valdandi að smærri byggðarlög verða undir í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Byggð verða minni eða engin íþróttahús og má með rökum benda á að þetta mun valda enn frekari byggðaröskun vegna þess að hæfileikaríkir og metnaðarfullir einstaklingar á sviði íþrótta munu að sjálfsögðu leita þangað sem best aðstaða er fyrir hendi og það verður hún í stærri byggðarlögunum.

Þá má einnig spyrja hvernig ríkið ætli sér að taka á landssamböndum eins og t.d. Handknattleikssambandi Íslands eða Knattspyrnusambandi Íslands svo að einhver séu nefnd. Er ætlunin að Reykjavíkurborg greiði fyrir allar framkvæmdir er þau fara út í á höfuðborgarsvæðinu, framkvæmdir sem ekki eru einungis til afnota fyrir Reykvíkinga heldur allt landið?

Að miklu leyti má nota sömu rök til varnar fyrir tónlistarkennslu í landinu, en hana á einnig að færa yfir á sveitarfélögin. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr bréfi sem mér barst frá Samtökum tónlistarskólastjóra, enda tel ég að í því bréfi komi fram fullgild rök fyrir því að þessi þáttur menningarlífs okkar eigi að vera undir ríkisforsjá, en í bréfinu segir:

„Eftir ítarlegar umræður og athuganir á stöðu skólanna álítum við að afleiðingar lagasetningar verði á þessa leið verði þau samþykkt óbreytt:

1. Í litlum bæjarfélögum og þar sem nokkur smá og fjárvana hreppsfélög sameinast um rekstur eins tónlistarskóla er fyrirsjáanlegt að starfsemi skólans leggst niður.

2. Áreiðanlegar upplýsingar liggja fyrir um að jafnvel stærri og efnameiri bæjarfélög muni ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa að rekstri tónlistarskóla af þeim myndarskap sem nú tíðkast.

3. Til að mæta aukinni hlutdeild sveitarfélaga og þar af leiðandi auknum kostnaði þeirra verður óhjákvæmilegt að stórhækka námsgjöld. Afleiðing verður sú að færri foreldrar hafa efni á að senda börn sín í tónlistarnám, þ.e. jafnrétti til náms verður stórskert.

4. Hætti ríkið fjárhagslegum stuðningi við tónlistarskólana slitna þeir úr tengslum við almenna menntakerfið. Í því sambandi má minna á að á undanförnum árum hefur samvinna tónlistarskólanna og framhaldsskólanna aukist með því að tónlistarskólarnir hafa tekið að sér tónlistarkennslu nemenda á tónlistarbraut. Jafnframt meta þeir árangur annarra sem kjósa sér tónlist sem valgrein.

5. Við gildistöku nýrra laga falla úr gildi lög nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þá verður að fara 25 ár aftur í tímann eða til tímabilsins fyrir 1963 til að finna sambærilegt ástand í tónlistaruppeldi þjóðarinnar, þ.e. enga löggjöf um tónlistarskóla né fjárhagslegan stuðning við þá.

Hugmyndir um að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga komi í stað fjárhagslegs stuðnings ríkisins eru óljósar og ómótaðar. Hversu góðar sem slíkar hugmyndir og áætlanir eru geta þær aldrei veitt tónlistarskólum þá réttarstöðu sem lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla gera nú.

Fyrstu lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla 1963 fólu í sér stefnumörkun af hálfu ríkisins í þá átt að gera almenningi kleift að stunda tónlistarnám óháð efnahag og búsetu. Þessi menningarstefna var enn skýrara mörkuð árið 1965 þegar hlutur hins opinbera var aukinn. Árangur þessarar löggjafar og þróunarinnar sem fylgdi í kjölfar hennar varð upphaf framfaraskeiðs í tónlist og sér þess víða merki í þjóðfélaginu. Lög þessi hafa vakið athygli og orðið fyrirmynd annarra þjóða sem líkt og við Íslendingar eru sífellt að bæta aðstöðu til menntunar. Þrátt fyrir framangreinda þróun erum við Íslendingar enn á bernskuskeiði í tónlistaruppeldi. Aðeins tólf ár eru liðin frá því að umrædd lög voru endurbætt og af reynslu annarra þjóða lærum við að gróðursetning og ræktun menningarverðmæta skilar sér aðeins á mun lengri tíma. Varast ber að líta á tónlistarnám sem of einangrað fyrirbrigði. Fæstir þeir sem hefja tónlistarnám leggja tónlist fyrir sig sem atvinnu, en athuganir sýna að áhrif þau sem einstaklingar verða fyrir í tónlistarnámi nýtast þeim við margs konar önnur viðfangsefni. Tónlist eykur alhliða þroska og hæfni þeirra sem hana stunda.“ Svo mörg voru þau orð.

Þá vil ég einnig grípa niður í bréf sem mér hefur borist frá tónlistarskólakennurum, með leyfi forseta, en þar segir m.a.:

„Félag tónlistarskólakennara óttast að í kjölfar slíkrar lagasetningar leggist starfsemi minni tónlistarskóla niður og draga yrði úr starfsemi stærri skólanna. Til að mæta kostnaði við skólahald yrði óhjákvæmilega að hækka námsgjöld og jafnrétti til náms yrði stórskert. Menntmrn. hefur nú faglega yfirumsjón tónlistarskóla. Tónlistarskólar víða um land starfa í nánum tengslum við grunnskóla og framhaldsskóla og tónlistarkennarar sjá að langmestu leyti um tónlistarkennslu, ekki síst á landsbyggðinni. Einnig meta tónlistarkennarar árangur þeirra nemenda framhaldsskólanna sem kjósa sér tónlist sem valgrein. Fyrirséð er að hin farsælu tengsl grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla rofni ef ríkið hættir fjárhagslegum stuðningi sínum.“

Frekari rökstuðningur er óþarfur og skora ég því á hæstv. fjmrh. að gera ekki þessa vitleysu.

Þrátt fyrir stórauknar skattbyrðar á herðar almennings hefur ríkisstjórnin einsett sér það að launahækkanir megi ekki verða meiri en 7% á næsta ári. Þrátt fyrir það er fullyrt að kaupmætti launa verði haldið. Hver trúir slíku? Á sama tíma er gert ráð fyrir því í frv. að afnotagjöld Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins hækki um 13% og afnotagjöld Pósts og síma um a.m.k. 10%. Trúa mennirnir því að auknar skattheimtur og hækkun ýmissa afnotagjalda á móti aðeins 7% launahækkunum á einu ári viðhaldi kaupmætti launa dagsins í dag? Ja, fyrr má nú vera auðtrúa.

Við skulum rétt sem snöggvast líta á hækkun launagjalda hjá hinum ýmsu ráðuneytum og höfum þá í huga þá 7% launahækkun sem ætluð er almenningi. Launaliður menntmrn. hækkar aðeins um 57%, landbrn. um 56%, iðnrn. um 44%, Hagstofu Íslands um 66%, ríkisstjórnar um 92%. Ætli þeir haldi kaupmættinum, þessir?

Það er margt fróðlegt að finna hjá blessuðum krötunum við fjárlagaumræður á síðasta þingi. Þá sagði hv. þm. Karvel Pálmason, með leyfi forseta:

„Eitt ljótasta dæmi í þessu er líklega embætti ríkislögmanns. Um það er getið í fjárlagafrv., með leyfi forseta: „Nýlegt embætti ríkislögmanns, sem áætlað er að kosti tæpar 5 millj. kr. á árinu 1987, er dæmi um hvernig embætti hafa tilhneigingu til að blómstra. Embættið var stofnað með lögum nr. 51 1985. Í fjárlagafrv. 1985 voru því áætlaðar 1 millj; 129 kr., þar af 907 þús. kr. í launakostnað. Í fjárlagafrv. þessa árs, þ.e. ársins 1986, var kostnaðurinn áætlaður 2 millj. 584 þús. kr., þar af laun 1 millj. 746 þús. kr. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1987 nær tvöfaldaðist kostnaðurinn enn í 4 millj. 755 þús. kr. og þar af 4 millj. 208 þús. kr. í launakostnað. Þetta sýnir hvernig kerfið sjálft hleður upp á sig án nokkurrar stjórnunar.“ Vel mælt, hv. þm. Karvel.

Jæja, kratar. Nú hafið þið stjórnina. Og hvað gerið þið þá eftir öll stóru orðin? Jú, þið eruð sjálfum ykkur samkvæmir og hækkið þennan lið úr 4 millj. 881 þús. kr. í litlar 9 millj. 107 þús. kr. Svona hleður kerfið utan á sig án nokkurrar stjórnunar. (KP: Það er rétt.) Nú eruð þið með völdin. Af hverju gerið þið ekkert? Er ekkert að marka orðin frá því í fyrra? Það hefur víðar komið fram.

Hæstv. sjútvrh. hefur kynnt drög að fiskveiðistefnu. Í þeim drögum er gert ráð fyrir að bátar undir 10 brúttólestum fái aðeins 70 tonna kvóta sem þýðir að rekstrargrundvellinum er kippt undan fjölda smábátaeigenda. Allmargir þeirra hafa fjárfest í bátum sínum nýlega eða á tveim síðustu árum með algerlega löglegum hætti, engar reglur brotnar, boð eða bönn, í góðri trú á kerfið eða stefnuna eins og hún var sett af yfirvöldum. Það er engan veginn hægt og engan veginn réttlætanlegt að stjórnvöld geti með því einu að veifa hendi sett menn svona fyrirvaralaust á vonarvöl. Það er algert lágmark að gefa mönnum aðlögunartíma þegar svo stórtækar breytingar á að gera.

Ég ætla ekki að fjalla um stefnuna sem slíka á þessu stigi, enda gefst tækifæri til þess þegar frv. verður lagt fram, en ég get þó sagt það að meðferð sú og stefna í málefnum smábátaeigenda er með öllu óviðunandi og mun Borgarafl. berjast fyrir réttlátari stefnu til handa smábátaeigendum.

Hæstv. forseti. Fjárlagafrv. þetta á vafalaust eftir að taka allverulegum breytingum, enda virðist mér að það sé, eins og svo gjarnan er sagt um einn ákveðinn stjórnmálaflokk, opið í báða enda. Það er greinilegt að niðurstöðutölur bæði tekna- og gjaldamegin eru í meira lagi vafasamar og ber að skoða í því ljósi. Benda má á að allt er enn í lausu lofti varðandi staðgreiðslukerfi skatta, hvert prósentustigið verður og hverju því er ætlað að skila í ríkissjóð. Það getur varla verið þekkt staðreynd þegar meginforsenduna vantar inn í reikningsdæmið.

Mjög vafasamt er að þjóðarsátt náist um 7% launahækkun á næsta ári. Hvað verður þá um gjaldahlið frv.? Það má tína til fjölmörg dæmi þess að þetta gengur einfaldlega ekki upp. Fjmrh. státar sig af því að leggja nú fram hallalaus fjárlög. Mér segir svo hugur að þau verði það ekki þegar fram í desember kemur.

Borgarafl. mun á seinni stigum koma með sínar hugmyndir og brtt. sem munu verða bæði raunhæfar og ábyrgar og taka til bæði tekju- og gjaldahliðar frv.

Herra forseti. Ég geri að lokaorðum mínum hér mjög athyglisverðar tvær setningar sem koma fram í frv. til l. um stjórn fiskveiða sem lagt var hér fram í dag, en ég tel að þau lýsi ágætlega fjárlagafrv. Þar segir: „Þessi munur er sem fyrr segir tölfræðilega marktækur, enda þótt hin tölfræðilegu próf sanni að vísu ekkert.“ — Þetta tel ég lýsa fjárlagafrv. mjög vel.