14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6431 í B-deild Alþingistíðinda. (4430)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni þykir mér rétt að koma aðeins inn á þessi mál, ekki út frá því að ég telji þáltill. út af fyrir sig tímamót í þessu máli nema síður sé. En ég vildi láta það koma hér fram í sambandi við þessar umræður um stóriðju eða nýtt álver að það er mín skoðun og ég geri ráð fyrir að það eigi við flesta í mínum flokki að það sé varla forsvaranlegt að ný stóriðja, eins og t.d. álverið sem hér er um rætt, sé byggð upp með því að ekki sé fyrir næg afgangsorka í landinu fyrir almenna notkun á viðráðanlegu verði. Ég tel að nýjar virkjanir vegna stóriðju einar sérstaklega megi alls ekki verða til þess að hækka orkuverðið til almennra nota í landinu. Þvert á móti þarf að tryggja að slík áform séu grundvöllur til lækkunar orkuverðs. Ef þessa er ekki gætt verður örugglega erfiðara að bæta lífskjörin í landinu sem allir eru sammála um að þurfi að gera.

Þess vegna er alveg ljóst að hér þarf að vanda vel til verka, skoða þjóðhagslegt mat o.s.frv. Það er því ofur eðlilegt að þm. og raunar þjóðin öll vilji fá að fylgjast vel með áformum og möguleikum í þessum málum. Þess vegna tel ég að opin umræða um stóriðju og allt sem henni fylgir sé nauðsynleg og ég get alveg fullvissað hv. síðasta ræðumann um það. Framsfl. leggst ekki gegn því að úttekt sé gerð á þessum málum og það sé lagt á borðið hvað sé hagkvæmt varðandi nýja stóriðju og hver áhrif hennar verði á íslenskt þjóðlíf. Ég held að við værum ákaflega illa sett, þjóðin í heild og allir stjórnmálaflokkar, ef ekki yrði reynt að skoða og leita leiða til að ná fram mestum möguleikum fyrir framtíð þessa þjóðfélags á hvaða sviði sem er. Auðvitað munum við byggja fylgi við áform á þessu sviði á þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur um þjóðhagslegt gildi þessa máls.

Þetta er í mínum huga það sem eðlilegt er að láta í ljós um þessi mál á þessu stigi. Við höfum ekki fest okkur í einu eða neinu um þessi mál annað en að við viljum láta skoða þetta og við viljum leggja því lið að það komi fram hvað er þjóðhagslega hagstætt fyrir Ísland á þessu sviði. En það er alveg ljóst að við verðum að miða aðgerðir á þessu sviði við það að sú orka sem allir eru sammála um að er eitt af þýðingarmestu atriðum í okkar þjóðfélagi verði á viðunandi verði fyrir almenning og almennan rekstur í landinu. Ef við hins vegar ætlum að fara að gera einhverjar ráðstafanir í stóriðju sem virka þveröfugt, þá er þar komið mat sem þarf að taka tillit til og ég segi fyrir mig að ég legg áherslu á að einmitt þetta fari saman.

Hvað byggðamál og annað snertir þarf ekki að blanda því í þessa umræðu. Við skiljum sjálfsagt flestir þm., í hvaða flokki sem við erum, nauðsyn þess að snúa við þeirri þróun sem nú blasir við í byggðamálum og við munum standa að því með öllum ráðum. En ég taldi nauðsynlegt að koma aðeins inn á þetta, herra forseti.