18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6506 í B-deild Alþingistíðinda. (4506)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Pálmi Jónsson:

Virðulegi forseti. Till. sú sem hér er á dagskrá um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árin 1987–1990 kemur til fjvn. og mun ég taka þátt í umfjöllun um hana þar. Ég mun því ekki ræða mál þetta ítarlega við fyrri umræðu, enda ekki ástæða til.

Ég vil aðeins út af orðum hv. 4. þm. Vesturl. segja að það er hárrétt, sem hann segir, að tillaga þessi er nokkuð sérstæð. Hún er sérstæð að því leyti fyrst og fremst að hún er flutt á ári sem ekki á lögum samkvæmt að endurskoða vegáætlun. Og hvers vegna er hún flutt á því ári á milli reglulegrar endurskoðunar vegáætlunar? Það er vegna þess að það kemur aukið fé. Hún er sérstæð fyrst og fremst fyrir þetta atriði. Sú till. sem hér kemur fram gerir ráð fyrir að ráðstafa 6% meira fé til vegamála en gildandi vegáætlun gerir ráð fyrir og fyrir þá sök er tillagan flutt.

Það hefur komið fyrir áður að á milli reglulegrar endurskoðunar vegáætlunar hafi orðið breytingar á samþykktri vegáætlun jafnvel án þess að það væri lagt fyrir Alþingi með því að skerða fé til vegamála. Hér er hins vegar öfugt að farið. Hér er verið að auka fé til vegamála og það er fyrst og fremst fyrir þá sök sem þessi tillaga er sérstæð. Vissulega hefðum við allir kosið að þetta fé væri meira.

Hv. þm. sagði hins vegar að tillagan væri enn sérstæðari fyrir það að það væru skert áform langtímaáætlunar í vegamálum sem hann jafnframt sagði réttilega að hefðu byggt á því að verja eigi minna en 2,4% af þjóðarframleiðslu til vegamála á áætlunartímabilinu eða þeim árum sem nú standa eftir af áætlunartímabilinu. Þetta er út af fyrir sig rétt. En hann hefði vitaskuld átt að geta þess að þrátt fyrir að við höfum ekki staðið við að leggja svo mikið fjármagn til vegamála hefur um það bil tekist að halda langtímaáætlun áfram með þeim hraða sem gert var ráð fyrir, þ.e. verkin hafa verið unnin fyrir minna fé en upphaflega var gert ráð fyrir, unnin fyrir lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu en gert var ráð fyrir þegar Alþingi afgreiddi langtímaáætlun. Ég vænti þess að hv. þm., sem er maður sanngjarn og raunsær, geti orðið mér sammála um að hér á hinu háa Alþingi eigum við að fagna því ef tekst að vinna verk, nauðsynjaverk, framkvæmdir eins og í vegamálum, fyrir lægra hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu en í upphafi var gert ráð fyrir. Því miður höfum við stundum dæmi um hið gagnstæða. Þetta vil ég þess vegna taka alveg sérstaklega fram og leggja áherslu á og ég vænti þess að hv. þm. Skúli Alexandersson verði mér alveg sammála um þessi efni.

Það er svo aftur annað mál að á þessu ári er ekki gert ráð fyrir að verja til vegamála umframtekjum frá síðasta ári, þ.e. 160 millj. kr., vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur gert um það sérstaka samþykkt að geyma þetta fé um eitt ár og verja því til vegamála á árinu 1989. Þetta kemur vitaskuld til kasta Alþingis við afgreiðslu þessa máls og ætla ég ekkert að fjalla um það frekar hér. En það eru ýmsir sem tala um það í þjóðfélaginu að það þurfi fremur að draga saman útgjöld en hið gagnstæða.

Ég vildi láta þessi atriði koma hér fram. Ég tek vitaskuld skýrt fram að það stendur í mínum huga alveg óhagganlegt að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar eiga að renna til vegamála svo sem lögin gera ráð fyrir og á því á ekki að vera neinn bilbugur. Þó það sé vitaskuld hægt að haga því svo að einhver hluti af þessu fé geti í einn tíma færst á milli ára, eins og hér er gert ráð fyrir, verður að ganga svo frá þessu máli við lokaafgreiðslu þess að það sé tryggilega um hnúta búið að á því verði ekki brigð.

Herra forseti. Ég skal ekki við fyrri umr. málsins fara út í það í frekari atriðum og vildi aðeins láta þetta koma fram.