05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

68. mál, almenn hegningarlög

Flm. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á núgildandi hegningarlögum nr. 19/1940. Í 1. gr. frv. er gerð tillaga um nýtt ákvæði er bætist við 202. gr. hegningarlaganna svohljóðandi:

„Sé brot sérstaklega stórfellt þá varðar það fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að sextán árum.“ Í 2. gr. frv. er gerð tillaga um breytingu á 1. mgr. 203. gr., en hún verði svohljóðandi:

„Kynferðismök við persónu af sama kyni, þegar atvik að öðru leyti svara til þess, er í 194.–198. gr., fyrri mgr. 200. gr. og seinni mgr. 202. gr. segir, skulu varða þeirri refsingu er í þeim ákvæðum segir.“

Í 3. gr. frv. er síðan lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um kynferðisbrot og þá ekki síst gagnvart börnum og ljóst er að allur almenningur lítur þessi mál mjög alvarlegum augum. Túlka má þessa umræðu sem nokkurs konar ákall til íslenska réttarkerfisins og löggjafans um að bregðast ekki hlutverki sínu þegar slík afbrot eru annars vegar. Þess eru jafnvel dæmi að menn hafi haft tækifæri til að fremja fjölda kynferðisafbrota á löngu tímabili og getur slíkt haft það í för með sér að almenn virðing fyrir lögum þverri. Sé lögum ekki framfylgt eru þau gagnslaus til að varna afbrotum af því tagi sem efni laganna tekur til. Á þessu verður að taka og margir eru reyndar þeirrar skoðunar að of vægt sé tekið á málum sem snerta kynferðis- og eða nauðgunarmál almennt.

Það er alkunna að margvíslegar hvatir geta legið að baki afbrotum sem þessum og í sumum tilvikum hafa afbrotamennirnir sjálfir átt við mikla erfiðleika að stríða, eru jafnvel haldnir svonefndum persónuleikatruflunum. Samt sem áður hafa þessir menn verið metnir sakhæfir, þ.e. þeir gera sér grein fyrir verknaðinum og hugsanlegum afleiðingum hans og geta því tekið út refsingu.

Nú er augljóst að taka þarf tillit til margra sjónarmiða áður en dómur er upp kveðinn. Það fer þó ekki hjá því að viðurlög þykja á tíðum næsta væg, oft að hluta til skilorðsbundin, þ.e. þá er framkvæmd refsingar frestað. Með það í huga langar mig til að minna hv. þm. á ummæli föður eins fórnarlambsins í hljóðvarpinu fyrir skömmu þar sem ungur sonur átti hlut að máli. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Maður hlýtur að velta því fyrir sér hverja dómstólum er ætlað að verja í máli sem þessu, fórnarlambið eða afbrotamanninn.

Það er velþekkt sjónarmið að einstaklingur ber ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum sínum sem skaða hagsmuni annarra. M.a. á þessu sjónarmiði byggja hegningarlögin tilveru sína. En er tilgangar þeirra einvörðungu sá að refsa mönnum fyrir brot á ákvæðum þeirra eða býr eitthvað meira að baki?

Með leyfi hæstv. forseta langar mig til að vitna í inngang að þýðingu á hinu margfræga riti Frelsinu eftir John Stuart Mill sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út 1970. Þar er m.a. fjallað um löggjafarhugmyndir Jeremys Bentham er John Stuart Mill síðar nefndi nytjastefnu. Megininntak hennar varðandi refsingar og réttlætingu þeirra var sú að refsilög beri ekki að setja til þess að menn fái réttláta refsingu afbrota sinna heldur til þess að koma í veg fyrir þá hegðun sem við köllum afbrot. „Og nytjasiðfræðin gerir þá almennu kröfu að sérhver mannleg athöfn, hvort heldur lagasetning eða hver önnur athöfn sem er, sé réttlætt eða réttlætanleg á grundvelli afleiðinga sinna fyrir almenningsheill.“

Hegningarlögum er því ekki einungis ætlað að refsa fyrir afbrot heldur er þeim ætlað að hafa varnaðaráhrif, þ.e. koma í veg fyrir að afbrot séu framin, og sérhver breyting á þeim á að vera til bóta fyrir almenningsheill. Það er ekki síst með þetta sjónarmið í hug sem ég tel réttarbóta þörf.

Viðurlög gegn kynferðisbrotum hafa verið í íslenskri löggjöf um langan tíma allt frá elstu lögbókum. Viðurlög hafa þó verið mismunandi ströng og hafa vafalaust mótast nokkuð af hinu siðræna viðhorfi almennings á hverjum tíma.

Réttarþróunin hefur orðið sú að börn og ungmenni njóta nú orðið betri verndar en áður var. Sem dæmi má nefna 174. gr. eldri hegningarlaga frá 1869 þar sem það varðaði hegningarvinnu allt að átta árum ef maður framdi saurlífi með stúlkubarni undir tólf ára aldri. Sambærilegt ákvæði er í 1. mgr. 200. gr. núgildandi hegningarlaga sem fjallar um samræði við barn undir fjórtán ára aldri og viðurlögin eru þyngri eða fangelsi allt að tólf árum. Er það fyllilega í samræmi við þau umhyggjusjónarmið sem búa að baki slíkri löggjöf. Frv. þetta byggir að sjálfsögðu einnig á þessum sjónarmiðum.

Lagaákvæði þessa frv. eru í XXII. kafla hegningarlaganna og vil ég af því tilefni vekja sérstaka athygli hv. þm. á því að bæði XXI. kafli og XXII. kafli hegningarlaga, um sifskaparbrot og skírlífisbrot, hafa staðið óbreyttir í 47 ár eða allt frá árinu 1940 og má það merkilegt teljast. Engu er líkara en þessi afbrot hafi sætt svipaðri meðferð og óhreinu börnin hennar Evu, enginn mátti sjá þau né um tala.

En nú hefur lokinu verið lyft af. Mér er kunnugt um að svokölluð nauðgunarnefnd hefur verið starfandi skv. þáltill. frá árinu 1984. Henni er ætlað að endurskoða þau ákvæði XXII. kafla hegningarlaga sem fjalla um brot gegn kynfrelsi kvenna, þ.e. greinar 194-199, en ekki þær greinar sem frv. þetta fjallar um.

Vafalaust og vonandi verða bæði XXI. og XXII. kafli hegningarlaga endurskoðaðir í heild í náinni framtíð, svo sem þegar hefur verið gert á hinum Norðurlöndunum. En að óbreyttum lögum tel ég mál þetta það brýnt að það þoli enga bið. Bæði er það að fjöldi þessara mála af alvarlegra taginu virðist fara vaxandi og eins hitt að borgarar þessa lands standa hér ekki jafnir fyrir lögum.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á 194. gr. hegningarlaga, um nauðgun, þar sem viðurlög eru fangelsi allt frá einu ári og upp í sextán ár eða jafnvel ævilangt. Það er þó einn galli á gjöf Njarðar. 194. gr. er kynbundin, sbr. upphaf hennar: „Ef kvenmanni er þröngvað til holdlegs samræðis. . . " o.s.frv.

Fræðimenn í refsirétti segja lögjöfnun frá þessu ákvæði útilokaða. Samkvæmt gagnályktun njóta því karlar ekki þessarar refsiverndar né heldur þeir er verða fyrir kynferðisbroti þar sem samkynja persóna á hlut að máli, þ.e. homosexual mök. Þetta gildir jafnvel þótt verknaðurinn sé framinn með því ofbeldi eða nauðung sem 194. gr. gerir ráð fyrir. Þess má reyndar geta að nauðgunarákvæðið er ekki kynbundið á hinum Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Frv. er ætlað að bæta úr þessu með því að sambærileg refsing verði lögfest, einnig í þeim tilfellum þegar um kynferðismök önnur en samræði er að ræða.

Í frv. segir í grg. um 202. gr. hegningarlaga, með leyfi hæstv. forseta, en hún er svohljóðandi:

„Hafi nokkur, þegar svo er ástatt, sem í 194.–201. gr. segir, gerst sekur um önnur kynferðismök en samræði, þá skal beita vægari hegningu að tiltölu.“

Þetta orðalag, „vægari hegningu“, er til refsilækkunar. Hins vegar er það ekkert skilgreint, hvorki í lögunum sjálfum né greinargerð, og enginn refsirammi tilgreindur. Það er því algerlega á valdi dómstóla að ákveða viðurlög við þessum afbrotum. Hins vegar má það teljast ljóst að kynferðismök önnur en samræði geta haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, sbr. m.a. rit prófessors Jónatans Þórmundssonar Um kynferðisbrot, inngangur, en þar segir á bls. 16, með leyfi hæstv. forseta:

„Hugtakið „holdlegt samræði“ er hvorki skilgreint í lögum né greinargerð. Samræði hefur í fræðiritum og framkvæmd verið takmarkað við hefðbundnar samfarir karls og konu. Með þessu eru útilokuð kynmök samkynja persóna og mök karls og konu með öðrum hætti en notkun kynfæranna einna. Það kann þó að vera jafnalvarlegt ef brotaþola er misboðið kynferðislega með öðrum hætti að slepptri þungunarhættunni. Má þar nefna kynferðisathafnir er beinast gegn öðrum hlutum líkamans eða framkvæmdar eru með verkfærum.“

Réttarþróun víða hefur hnigið í þá átt að endurmeta refsinæmi kynferðisbrota og þá ekki síður ýmsar kynferðisathafnir aðrar en samræði. Sem dæmi má nefna að hugtakið „sexual penetration“ í hegningarlögum Illinois-ríkis tekur til hvors tveggja. Þá var það lögfest 1984 í Svíþjóð að jafna ýmsum kynferðisathöfnum við samræði ef þær veita eða eru til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.

Samkvæmt 1. mgr. 195. gr. norsku hegningarlaganna varðar afbrot fangelsi allt að tíu árum fyrir „utugtig omgang“ við barn undir fjórtán ára aldri, en það varðar fangelsi ekki skemur en eitt ár ef afbrotið felur í sér samræði. Hugtakið „utugtig omgang“ virðist hér nokkuð víðtækt og felur því einnig í sér samræði. Í 2. mgr. þessarar sömu lagagreinar eru viðurlögin fangelsi allt að 21 ári ef afbrotið hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hér er tekið fram að kynsjúkdómar falli undir þetta ákvæði. 2. mgr. 202. gr. hegningarlaganna er því nýmæli og hljóðar svo:

„Sé brot sérstaklega stórfellt þá varðar það fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að sextán árum.“ „Sérstaklega stórfellt“ tekur til þess hversu gróft brotið í heildinni er og verður ekki tæmandi talið. Hér fellur þó undir sú aðferð sem notuð er, svo sem ofbeldi eða frelsissvipting og fjöldi tilvika. Skaðlegar afleiðingar brots fyrir sálarheill og líkamlegt heilbrigði brotaþola falla hér einnig undir, t.d. ef verknaður hefur kynsjúkdóm eins og eyðni í för með sér, að uppfylltum ásetningskröfum.

Í frv. segir enn fremur í grg. um 1. mgr. 203. gr. hegningarlaga, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta ákvæði fjallar um kynferðismök við persónu af sama kyni og hefur falið í sér miklu lakari vernd en ákvæði er snerta önnur kynferðisbrot þegar litið er til refsimarkanna. Refsihámarkið hefur verið bundið við sex ára fangelsi sem er miklu minni refsing en lögbundið er, t.d. í 194. gr., sextán ár, og 1. mgr. 200. gr. hegningarlaganna, tólf ár. Slíkt fær ekki samrýmst nútímaviðhorfum, hvorki efnislega né réttarfarslega. Hér er breytingar þörf og mótast sú þörf ekki síst af fjölda alvarlegra mála nú síðustu árin þar sem brotaþolar eru einatt ungir drengir og afbrotamaðurinn karlkyns.

Læknisfræðilegar líkur benda til þess að einmitt þessi tegund afbrota geti haft mjög skaðlegar afleiðingar fyrir brotaþola og er þá m.a. átt við kynsjúkdóm eins og eyðni. Því þykir full ástæða til þess, að lögum óbreyttum, að í lagaákvæði þessu sé einnig vísað til 2. mgr. 202. gr. svo sem getið er um í frv. Að öðru leyti vísast til framangreindrar grg. með 200. gr. hegningarlaganna.“

Til frekari stuðnings þessu frv. um breytingu á hegningarlögum má leiða að því rök að brotaþolar, sérstaklega börn, eiga oft erfiðara með að sýna fram á það að þau hafi verið beitt nauðung eða ofbeldi við afbrot af þessu tagi þannig að 194. gr. eigi við. Almennt eiga þau erfiðara með að bera hönd fyrir höfuð sér og því er það skylda okkar að vernda þau gegn misneytingu af þessu tagi.

Hæstv. forseti. Það er ekki refsigleði er ræður gjörðum flm. í máli þessu heldur brýn þörf á réttarbót. Þessi afbrot eru almennt litin mjög alvarlegum augum og þau hljóta að snerta alla þjóðfélagsþegna. Enn fremur gætir þess misræmis í þessum kafla hegningarlaga að ekki verður lengur við unað. E.t.v. má finna hér nokkra skýringu á þeim tiltölulega vægu viðurlögum er beitt hefur verið í dómum síðustu ára. Ef löggjafinn hefur frumkvæði að því að samræma og herða refsilöggjöf við kynferðisbrotum felur það í sér vísbendingu til dómstóla um breytt refsimat. Að sjálfsögðu er ekkert eitt sjónarmið sem ræður ákvörðun refsingar fremur en setningu refsilaga. Meta skal þyngd refsingar hverju sinni eftir öllum atvikum máls og persónulegum högum sökunautar að því leyti sem máli getur skipt. Ég verð þó að skýra frá því hér, hv. þm., að núna í morgun frétti ég að búið væri að kveða upp dóm í kynferðisbrotamáli þar sem afbrotamaðurinn var karlmaður en fórnarlambið níu ára gamall drengur. Dómurinn hljóðaði upp á átta mánaða fangelsi, þar af sex mánuðir skilorðsbundið, sem þýðir í raun að afbrotamaðurinn mun aðeins sitja tvo mánuði í fangelsi svo fremi sem hann brýtur ekki skilorðið. Það skýtur því óneitanlega skökku við, svo að dæmi sé tekið, að dómar í ölvunarakstursmálum eru oft óskilorðsbundnir og munu almenn varnaðaráhrif ráða þar talsverðu um, þ.e. vegna þeirrar hættu sem slíkt brot hafa í för með sér. Án þess að gera lítið úr alvöru þeirra afbrota hlýtur að mega gera kröfu til þess að svipaðra sjónarmiða sé gætt við kynferðisbrot og þá ekki síst þau sem beinast gegn börnum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.