19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6553 í B-deild Alþingistíðinda. (4560)

385. mál, söluskattur

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 729 flytjum við þingmenn stjórnarandstöðunnar í Ed. frv. til l. um breytingu á lögum um söluskatt sem gerir ráð fyrir að fjmrh. verði heimilað að fella niður söluskatt af innfluttum strætisvögnum og öðrum bifreiðum sem notaðar eru til almannasamgangna. Frv. er stutt og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við A-lið 6. gr. laganna, sbr. lög nr. 1/1988, bætist nýr töluliður sem orðist svo:

23. Bifreiðar sem notaðar eru til almenningssamgangna eftir ákvörðun fjármálaráðherra og með skilyrðum sem hann setur.“

Jón G. Tómasson skrifaði fyrir hönd borgarstjóra Reykjavíkur þingmönnum Reykvíkinga svofellt bréf 10. febr. sl.:

„Á fundi borgarstjórnar 4. þ.m. [þ.e. 4. febr. 1988] var samþykkt að fara þess á leit við Alþingi að það felli niður söluskatt og aðflutningsgjöld af innflutningi nýrra strætisvagna til Strætisvagna Reykjavíkur.“

Í greinargerð með tillögunni segir svo, með leyfi forseta:

„Þjóðhagsleg hagkvæmni almenningssamgangna [og ég tek fram að þetta er greinargerð borgarstjórnar Reykjavíkur og samhljóða samþykkt allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur] hér á höfuðborgarsvæðinu er óumdeilanleg. Fjölgun einkabíla hefur á undanförnum árum orðið mun hraðari en spár sögðu til um og nú er svo komið að bílaeign er búin að ná því marki sem álitið var að yrði um næstu aldamót. Nýjar athuganir Hollustuverndar ríkisins hafa sýnt fram á að mengun er hér orðin meiri af völdum umferðar en í mörgum borgum Evrópu.

Með samþykkt þessarar tillögu taka Alþingi og ríkisstjórn þátt í sérstöku átaki til að sporna við þessum geigvænlegu áhrifum mengunar og slysa sem fylgir gífurlegri aukningu einkabílaumferðar.

Skorar borgarstjórn á þingmenn Reykvíkinga að fylgja þessu máli fast eftir.“

Frumvarpið er flutt í samræmi við þessa samþykkt borgarstjórnar og lagt til að söluskattur falli niður af bílum til almenningssamgangna.

Frumvarpið miðast ekki aðeins við Reykjavík og er því fjmrh. ætlað að setja almennar reglur um þessa undanþágu.“

Flm. þessa frv. eru þrír þingmenn Reykv. og fjórir þingmenn annarra kjördæma utan Reykjavíkur og við erum öll þeirrar skoðunar að hér væri um að ræða mikilvægan lið í því að bæta umferðarmenningu í þessu landi. Satt best að segja er þessi samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur og greinargerð mjög athyglisverð vegna þess að þar er ótrúlega vel haldið til haga í stuttu máli aðalröksemdum þessa máls.

Í fyrsta lagi er bent á það, sem fyrir liggur og viðurkennt er af öllum, að þjóðhagsleg hagkvæmni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er óumdeilanleg. M.a. á grundvelli þess fengum við samþykkt nokkrir þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness á síðasta kjörtímabili till. til þál. um almenningssamgöngur hér á svæðinu og það hefur verið unnið að málum í samræmi við þá tillögu í samgrn. á undanförnum árum.

Í grg. er einnig bent á að fjölgun einkabíla hefur orðið mikið meiri en gert var ráð fyrir samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur og er nú svo komið að bílaeign á íbúa er að ná því marki sem álitið var samkvæmt gamla aðalskipulaginu að yrði um næstu aldamót eða eftir tólf ár eða svo.

Við þetta bætist svo það að nýjar athuganir, sem hafa birst m.a. í blöðum frá Hollustuvernd ríkisins, sýna að mengun í Reykjavík er orðin meiri af völdum umferðar en í mörgum borgum Evrópu. Þetta er áreiðanlega mjög sérkennileg staðreynd í huga okkar margra, sem höfðum talið að við ættum hreinni höfuðborg en aðrar þjóðir, og víst er að Ísland er yfirleitt hreinna og mengunarlausara en önnur lönd, en þeir sem ganga um höfuðstað landsins, t.d. Kvosina, á lognkyrrum dögum verða varir við að mengun frá útblæstri bifreiða er hrikaleg orðin hér þannig að það er t.d. talið varasamt að láta lítil börn ganga hér um götur vegna mengunarinnar og það eru mörg dæmi þess að ofnæmissjúkdómar hafa birst á þessum börnum út af þessari alvarlegu mengun.

Í þriðja lagi segir borgarstjórn Reykjavíkur í þessari greinargerð að með samþykkt þessarar tillögu taki Alþingi og ríkisstjórn þátt í sérstöku átaki til að sporna við þessum geigvænlegu áhrifum mengunar og slysa sem fylgir gífurlegri aukningu einkabílaumferðar. Fyrir nokkrum dögum ræddum við á þingi þá staðreynd að tryggingafélögin hafa hækkað iðgjöld bifreiðatrygginga um nærri 100% milli áranna 1987 og 1988 og þá komu fram upplýsingar m.a. í þingræðum um að slysatíðni á Íslandi er þriðjungi meiri en hún er t.d. í grannlöndum okkar eins og Noregi. Þess vegna er nauðsynlegt að gera allt sem hægt er til að draga úr tíðni umferðarslysa og það að efla almenningssamgöngur í þéttbýlinu er örugglega liður í þeirri baráttu.

Hér hef ég hreyft þremur almennum röksemdum: þjóðhagsleg hagkvæmni, mengunarvarnir, slysavarnir. Ég ætla að nefna eina röksemd enn sem er þessi: Ríkissjóður mundi ekki tapa einni einustu krónu á því þó svo að þessi söluskattur yrði felldur niður vegna þess ósköp einfaldlega að borgin heldur að sér höndum við að kaupa inn nýja vagna meðan söluskattur er lagður á, en mundi hins vegar, ef söluskattur yrði felldur niður, kaupa fleiri vagna sem mundi þá skila ríkinu auknum tekjum í aðflutningsgjöldum.

Hér er aðeins lagt til að söluskattur verði felldur niður en aðflutningsgjöldin haldi sér. Auðvitað mætti hugsa sér að verða við tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur um að fella niður bæði söluskatt og aðflutningsgjöld. Hér er hins vegar aðeins verið að tala um söluskattinn. Þess vegna held ég að frá sjónarmiði fjmrn. hljóti það að vera þannig að hér eru menn ekki að tapa einni einustu krónu jafnvel þó að þetta frv. verði samþykkt. Við það bætist svo sú staðreynd að það er einn af þingmönnum Reykvíkinga sem situr í fjmrn. og þess vegna er full ástæða til að ætla að hann taki vel þessari málaleitun fulltrúa allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur, þar með talinn borgarfulltrúi Alþfl. þar á bæ, þannig að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en þetta frv. fái góðar undirtektir. Í trausti þess flytjum við, þingmenn stjórnarandstöðunnar í þessari virðulegu deild, þetta frv. og væntum þess að það fái góða og jákvæða afgreiðslu á því þingi sem nú stendur yfir. Þetta er einfalt mál, tekur ekki langan tíma að fara yfir það og ætti að vera hægt að ljúka því og gera að lögum á því þingi sem nú stendur yfir.

Ég leyfi mér svo, virðulegur forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. og segi að allra síðustu að ég er þess fullviss að um leið og þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja þetta frv. er nauðsynlegt að muna eftir því að hér í deildinni eru þingmenn Reykvíkinga úr stjórnarflokkunum, þingmenn Reykjaneskjördæmis úr stjórnarflokkunum sem hljóta líka að líta á þetta mál, m.a. þingmenn sem hafa látið sig umferðarmál mjög miklu skipta eins og hv. 6. þm. Reykn. Ég hef því enga trú á öðru en að þetta mál fái góðar undirtektir hjá þessum þingmönnum öllum.

Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að lokum að ég kannaði hvort þingmenn úr stjórnarflokkunum væru tilbúnir að standa að frv. Þeir treystu sér ekki til að flytja frv. af eðlilegum ástæðum miðað við þær vinnureglur sem tíðkast milli stjórnarflokka. Í sjálfu sér dettur mér ekki í hug að gagnrýna það og er ekki að draga það fram til þess að sýna þeirra óvilja að neinu leyti heldur aðeins til að skýra af hverju þarna er eingöngu um að ræða stjórnarandstæðinga sem flytja frv.