20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6666 í B-deild Alþingistíðinda. (4604)

293. mál, áfengislög

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Ég mun ekki draga þessa umræðu á langinn. Ég átti von á því að hér yrðu mjög litlar umræður um þetta mál. Þetta mál hefur fengið mjög mikla umfjöllun í Nd. þar sem málið hefur meira einkennst af tali en því að sagt hafi verið mikið. Ég vona að við föllum ekki í sömu gryfju og ýmsir menn í þeirri deild gerðu.

Það sem hvatti mig hér upp voru orð hv. 4. þm. Vesturl. þegar hann talaði á móti bjórnum og sagði að þjóðfélagið mundi ekki verða betra með bjór. Ég er alveg sammála honum í því. En það er líka spurningin hvort það verði eitthvað verra með því að við leyfum bjórinn. Ég er ekki á þeirri skoðun. Mín skoðun er sú að við eigum að leyfa hitt og þetta, þar á meðal bjór, nema veigamiklar ástæður séu til að banna. Við eigum ekki að að lifa hér í þjóðfélagi boða og banna, heldur að leyfa ýmsar athafnir ef þær skerða ekki rétt ýmissa til ýmissa athafna. Við eigum að byggja þjóðfélag þar sem fólk geti lifað ekki lakara lifi en erlendis.

Það má tala um það þegar bjór er ræddur hvort eigi ekki að banna rauðvín og hvítvín. Þetta eru drykkir sem eru hafðir með mat og lítið drukknir að öðru leyti. Með sömu rökum og beitt er til að banna bjórinn mætti afnema þetta áfengi. Ég vil ekki tefja þessa umræðu en taldi rétt að segja hér örfá orð og vara við því að umræður verði langar og kannski um hluti sem margoft er búið að tala um. Ég legg til að við höldum uppi þeirri reisn hér í Ed. að vera málefnaleg og reynum að taka á málum eins og þau liggja fyrir en ekki að fara út fyrir málið og byggja málflutning á öðru en því sem málið gefur tilefni til.