20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6683 í B-deild Alþingistíðinda. (4653)

126. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. landbn. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til þess að taka að mér hlutverk hæstv. landbrh. og svara fyrir stefnu landbrn. í þessum málaflokki. Hins vegar hygg ég að það sé ljóst að viðkvæmasti þáttur þessa máls sé raunverulega sá að menn geti komið sér saman um það hvort Alþingi eða landbrn. eigi að móta stefnuna í sláturhúsamálum.

Það er auðvitað þannig að landbrn. hefur, samkvæmt þeirri vitneskju sem ég hef, kannski mótað þá stefnu að það skuli stefnt að því að eftir fimm ár eða þar um bil geti öll þau hús sem þá verða starfrækt hlotið löggildingu miðað við þær lágmarkskröfur sem gerðar hafa verið af heilbrigðisyfirvalda hálfu um hollustuvernd og heilbrigðismál og hugmyndin er sú að þessu markmiði verði náð í áföngum. Það sem hv. landbn. gerir núna er í eðli sínu nauðvörn í óþolandi ástandi, ég verð að segja það eins og er. Það er verið að veita landbrh. heimild til þess að leyfa slátrun í húsum sem sum hver kannski eru á mörkum þess að geta flokkast undir þau lög og reglur sem heilbrigðisyfirvöld gera ráð fyrir. Hins vegar er ágreiningur um það hversu langt á að ganga í því að bæta sláturhús landsins svo að þau uppfylli allar kröfur. Kenningar hafa komið fram um það að kröfur Efnahagsbandalagsins snúist um það eitt að stöðva innflutning á kjöti frá Íslandi til Efnahagsbandalagslandanna og þess vegna séu gerðar það strangar kröfur til sláturhúsa og heilbrigðisástands í þeim að Íslendingar geti ekki á nokkurn veg ráðið við það af fjárhagslegum ástæðum. Og það er nú auðvitað dæmigert að þegar verið er að ræða þennan mikilvæga málaflokk sem snertir hinar dreifðu byggðir landsins alveg stórlega eru í þingsal sex eða sjö þm.

Ég vil geta þess að þetta er ekkert smámál í krónum talið ef á að fara t.d. eftir þeirri skýrslu sem núna liggur fyrir. Þar kemur fram að þegar skýrslan er gefin út sem er að mig minnir í júní 1987 er áætlaður kostnaður vegna nýsláturhúsa á Austurlandi 125 millj. og endurbætur á löggiltum húsum 113 millj. Síðan endurbætur á ólöggiltum húsum 368 millj. Hér er um rösklega 600 millj. kr. dæmi að ræða sem síðan þarf að framreikna og færa til verðlags dagsins í dag.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ég tuði mikið meira um þetta mál. Þetta þarf að taka til umræðu. Þetta snertir geysilega mikið hinar dreifðu byggðir, eins og ég sagði áðan, og þm. verða að gjöra svo vel að fara að komast að einhverri niðurstöðu í framhaldi þessa máls. Það auðvitað dugar ekki að framlengja þessa undanþáguheimild til ráðherra ár eftir ár á þeim forsendum að engar ákvarðanir eru teknar í tengslum við framtíð sláturhúsa í þessu landi.