26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6788 í B-deild Alþingistíðinda. (4704)

472. mál, grunnskóli

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og lýst stuðningi við þetta frv., ekki síst hv. 4. þm. Suðurl. sem er ekki meðflm. að frv. Ég verð að segja að þessi óvenjulegu vinnubrögð finnst mér vissulega ástæða til að þakka fyrir. Ég held að þetta hljóti að vera nokkuð óvenjulegt að þm. sýni máli, sem aðrir þm., jafnvel úr öðrum flokkum flytja, svona drengileg viðbrögð og góðan stuðning. Það kemur mér að sjálfsögðu ekkert á óvart því að hv. þm. hefur margsýnt það að hún er mjög málefnaleg í sínum störfum og sinni afstöðu, enda er þetta ekki flokkspólitískt mál sem slíkt. En ég vildi sérstaklega færa henni þakkir fyrir og taka undir það með henni að í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þetta mál fari á spretthlaupi hér í gegnum deildina ef áhugi er fyrir því á sama hátt og hér endurspeglaðist í hennar ræðu.