27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6885 í B-deild Alþingistíðinda. (4832)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek hér til máls til að kynna skriflega brtt. sem ég mun flytja við frv. nú við 3. umr. og varðar það að við frv. bætist svofelld ákvæði til bráðabirgða:

1. Við þá heildarendurskoðun sem fyrir dyrum stendur á húsnæðislöggjöfinni skal sérstaklega athugað: 1. Hvort ekki er nauðsynlegt að hafa í lagaákvæðum um kaupleiguíbúðir heimild til hækkunar á lánshlutfalli til framkvæmdaaðila þegar í hlut eiga illa stæð sveitarfélög. 2. Að upp verði tekið í kaflanum um félagslegar kaupleiguíbúðir ákvæði sem heimila leigu samfara kaupum á tilteknum eignarhlut. 3. Samræmingu lánskjara mismunandi útlánaflokka.

2. Meðan væntanleg endurskoðun laga um Húsnæðisstofnun ríkisins stendur yfir er húsnæðismálastjórn heimilt, ef sérstakar ástæður mæla með, að veita illa stöddum sveitarfélögum viðbótarlán til að gera þeim kleift að koma af stað byggingu félagslegra kaupleiguíbúða. Skal húsnæðismálastjórn heimilt að verja jafngildi allt að 50 millj. kr. árlega á næstu þremur árum eða svo lengi sem endurskoðun laganna stendur yfir.

Ég vil reyna til þrautar, herra forseti, hvort ekki er hægt að fá hv. þm. til að fallast á þau sjónarmið að skynsamlegt sé að hafa slíka möguleika fyrir hendi í lögunum. Ég undirstrika að hér er einungis um heimildarákvæði að ræða. Í hinn stað trúi ég ekki öðru en að hv. þm. séu a.m.k. tilbúnir til að samþykkja ákvæði til bráðabirgða sem skilyrði það að við endurskoðun laga um Húsnæðisstofnun ríkisins verði sérstaklega athuguð þau atriði sem ég kynnti áðan.

Ég geri þetta m.a. til að fá úr því skorið, herra forseti, hvort túlka beri niðurstöðu atkvgr. hér áðan við 2. umr. um þetta frv. til laga um kaupleiguíbúðir á þann veg að hv. Nd. sé beinlínis andvíg þeim sjónarmiðum sem þar voru til umfjöllunar í nefndri brtt. sem ég flutti.

Ég vil miklu heldur líta svo á að einhverra hluta vegna hafi hv. þm. ekki treyst sér til að setja ákvæðin inn í lög en á a.m.k. erfitt með að trúa því að óreyndu að menn geti beinlínis verið andvígir því að tekið verði tillit til þessara sjónarmiða við endurskoðun laganna. Mér þykja a.m.k. mikil tíðindi ef hv. þm. Nd. upp til hópa eru andvígir því að í lögum sé fyrir hendi heimildarákvæði til að koma til móts við verst stöddu sveitarfélögin í landinu í þessum efnum. Það eru mikil býsn, herra forseti, ef svo er.

Mér er kunnugt um það — og ég ætla að leyfa mér að upplýsa það hér fyrir hv. deild því að það er e.t.v. ekki öllum kunnugt — að í þeirri frægu bókun sem formenn stjórnarflokkanna gerðu um kaupleiguíbúðir eru ákvæði um sérstakt fjármagn sem varið verði til að aðstoða sveitarfélögin til að komast áfram með byggingu kaupleiguíbúða.

Hv. framsögumaður félmn. vitnaði í þetta í ræðu sinni í gær. Og þó trúnaðarplagg sé hef ég fengið að sjá gripinn og veit að þessi ákvæði eru fyrir hendi í þessari bókun. Tek ég þá á mig þá ábyrgð að rjúfa þann trúnað. En ærið oft hefur verið vitnað í plaggið af hinum og þessum. Ég held því að annað eins hljóti að leyfast.

Ég vil því meina, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. stjórnarliðsins væru komnir í ærið sérkennilega mótsögn við sjálfa sig ef það yrði fellt að hafa heimildarákvæði af því tagi í lögunum sem bráðabirgðaákvæði II í þeim brtt. sem ég er hér að kynna gera ráð fyrir.

Ég vek einnig athygli á því að væru þau atriði sem ég kynnti og eru í bráðabirgðaákvæði I sérstaklega tekin til skoðunar við endurskoðun húsnæðislaganna hygg ég að komið væri nokkuð til móts við gagnrýni þeirra aðila sem bundu og binda enn miklar vonir við þetta kaupleigukerfi, m.a. félagasamtökin átta sem tekið hafa upp samstarf til að reyna að leysa húsnæðismál sinna félagsmanna, Samtök aldraðra, Öryrkjabandalagið, samtök námsmanna og fleiri aðilar sem ég man ekki til að rekja alla, enda ekki ástæða til. Ég hygg að hv. þm. kannist við það samstarf sem ég er hér að vitna til.

Þessir aðilar hafa einkum nefnt tvennt sem þeir telja að þurfi að komast inn á ákvæðin um félagslegu kaupleiguíbúðirnar, þ.e. að heimilt verði að leigja þær samfara kaupum á tilteknum eignarhlut og í öðru lagi að lánakjör þar verði samræmd því sem gerist annars staðar í hinum félagslega hluta húsnæðislöggjafarinnar.

Herra forseti. Ég vona að starfsmenn Alþingis dreifi innan tíðar þessari skriflegu brtt. sem ég hef verið að kynna. (Forseti: Henni hefur þegar verið dreift.) Það er enn betra, herra forseti. Þá hafa þeir hv. þm. sem hér eru enn þá það plagg fyrir framan sig og geta litið til þess.

Ég vil sem sagt vona, herra forseti, að þessi brtt. mæti skilningi. Hún er af minni hálfu eins konar varatillaga að felldri þeirri brtt. sem afgreidd var áðan við 2. umr. Sú niðurstaða að þær breytingar voru ekki samþykktar var mörgum til mikilla vonbrigða. Ég tel að þegar menn fara að kynna sér þetta fyrirkomulag þætti þeim enn furðulegra ef menn ekki fengjust til að taka þessi atriði til meðferðar við endurskoðun laganna.

Ég hygg að það væri mjög fróðlegt ef hæstv. félmrh. vildi fyrir hv. þm. deildarinnar og þeim til upplýsingar kynna bókun þá sem forustumenn stjórnarflokkanna gerðu varðandi kaupleiguíbúðir. Ég lýsi eftir því að sú bókun verði kynnt hér fyrir þingdeildinni og lesin upp. Ég hef það sem rök fyrir þeirri ósk minni að í nál. meiri hl. félmn. er það fært fram sem höfuðröksemdin fyrir því að þetta frv. skuli ná fram að ganga að sú bókun sé til. Sjálf tilvist ríkisstjórnarinnar er í raun og veru undir í þessu efni ef marka má bæði nál. meiri hl. og framsöguræðu hv. formanns félmn. Mér finnst því ekki við hæfi að hv. þingdeildarmönnum sé ætlað að greiða hér atkvæði og samþykkja lagafrv. sem rökstutt er af hálfu meiri hl. félmn. eingöngu með því að ákveðið sé í tiltekinni bókun og í stjórnarsáttmála að þetta skuli verða að lögum hvað sem tautar og raular.

Ég ítreka því þessa ósk mína, herra forseti, og vona að hæstv. félmrh. verði við henni. Ef ekki þá beini ég sömu ósk til hv. formanns félmn. Ég sé ekki að honum sé vel stætt á því að verða ekki við henni, sérstaklega með tilliti til röksemdafærslu í nál. meiri hl. þar sem vitnað er sérstaklega í þetta samkomulag formanna stjórnarflokkanna. Þar hef ég alveg sérstakan áhuga á einu atriði, herra forseti, þ.e. því fjármagni sem mér skilst að í nefndri bókun hafi orðið samkomulag um að taka til hliðar og ráðstafa sérstaklega til þeirra sveitarfélaga sem illa væru stödd til að auðvelda þeim að koma af stað byggingu kaupleiguíbúða. Ég spyr: Hvað varð um þennan vilja formanna stjórnarflokkanna? Gufaði hann upp í haust og vetur? Hvað varð honum að aldurtila?

Í þessu ákvæði til bráðabirgða Il, sem ég flyt hér brtt. um, gefst mönnum aftur færi á að taka upp þetta ákvæði. Þó að ég hyggi reyndar að sú upphæð sem ég tiltek sé lægri en sú sem í upphaflegu plaggi ríkisstjórnarinnar var meiningin að hafa. Hins vegar tel ég að 50 millj. kr. sem ráðstafað væri sérstaklega í þessi verkefni — og þá eingöngu til þeirra sveitarfélaga sem allra verst væru á vegi stödd — til að lána þeim viðbótarlán upp á e.t.v. 5–10% ofan á þau 85% sem heimilt er skv. lögunum, næðu að gera býsna mikla bragarbót í þessu efni. Út af fyrir sig dygðu 50 millj. á móti býsna miklum framkvæmdum í kaupleiguíbúðum ef farið er út í hlutfallareikninginn.

Herra forseti. Ég get ekki neitað því að hugur minn til þessa kaupleigufrv. er ekki jafngóður og hann var fyrir og hefði orðið ef brtt. mínar hefðu náð fram að ganga. Ég veit ekki hvort ég hef skap til að greiða þessu frv. enn atkvæði mitt eftir 3. umr. ef ekki verður eitthvað komið til móts við þau sjónarmið sem ég hef hér sérstaklega talað fyrir og flyt nú aftur brtt. um, varatillögur. Það verður bara að koma í ljós.

Ég tel ekki ástæðu til að fara enn yfir þá fyrirvara sem ég hef haft á um þetta frv. og þá hættu sem ég hef margvarað við, að í þessum búningi verði það ekki sú hjálp og það bjargræði í húsnæðismálum sem mikið hefur verið talað um og heill stjórnmálaflokkur hefur háð tvær kosningabaráttur út á.

Herra forseti. Ef skilningur og vilji meiri hlutans hér á Alþingi er ekki fyrir hendi til að laga þetta frv. og bæta og reyna að stuðla að því að það nái tilgangi sínum kann svo að fara að það sparki til baka. Þá kann að fara svo að jafnágætlega og það gafst Alþfl. að veifa orðinu „kaupleiguíbúðir“ í bæjarstjórnarkosningum 1986 og aftur í Alþingiskosningum 1987 þá reynist það þeim jafnslæmt nær verður kosið næst að hafa verið sérstakir talsmenn þessa forms. Gæti orðið „búmerang“, herra ritari, þau eru nefnilega til. Ættbálkur einn í Ástralíu varð heimsfrægur af því að hafa fundið upp þetta merka tækniundur, „búmerang“, sem reyndar var ekki sjálft veiðivopnið, eins og mannfræðingar komust að eftir 50 ára misskilning, heldur æfingavopn veiðimanna. Það er auðvelt að skilja þegar maður hugleiðir málið því að sjálft drápsvopnið þarf ekki að koma til baka ef það hittir bráðina. Hins vegar er handhægt að hafa æfingavopn þannig að þau svífi til baka. Ef menn ekki hitta geta menn reynt að kasta aftur. En ég er ekki viss um að Alþfl. mundi lifa það af að fá þetta „búmerang“ í sig og gæti verið að hann yrði þá sjálfur bráðin sem vopnið mundi granda. (Gripið fram í.) Það er nefnilega þannig, herra forseti, að ágætar hugmyndir geta orðið að litlu ef ekki er reynt að standa sómasamlega að því að koma þeim í framkvæmd. Ég óttast pínulítið að hæstv. félmrh., af einhverjum ástæðum sem ég ætla ráðherrans vegna ekki að fara að vera með neinar getgátur um hér, hafi ekki náð að hafa þetta frv. í þeim búningi sem þyrfti til að það næði tilgangi sínum.

Ég hef hér lagt mig allan fram, eins og allir hv. þingdeildarmenn vita, að reyna að laga þetta til og aðstoða þannig hæstv. félmrh. og Alþfl. við það að gera þetta að brúklegu frv. en fæ nú ekki meira að gert og verð að taka því hvort skilningur og þroski hv. deildarmanna leyfi þeim að komast að gáfulegri niðurstöðu og samþykki þessar brtt. sem ég hef hér mælt fyrir.