09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

66. mál, dreifing sjónvarps og útvarps

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir við till. sem sýna okkur að hér er hreyft við tímabæru máli. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans orð og vil að það komi hér skýrt og rækilega fram, sem kom fram einnig í hans máli, að þær umbætur sem hér er lagt til að verði gerðar á dreifikerfinu verða vitaskuld til þess að bæta úr aðstöðuleysi íslenskra sjómanna hvað varðar afnot af þessum fjölmiðli. Ég tek mjög undir það og hér hefur það oftar en einu sinni verið til umræðu á Alþingi.

Ég kom fyrst og fremst hér upp til að þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið og ég vænti þess svo sannarlega að málið fái greiða leið í gegnum Alþingi.