28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6904 í B-deild Alþingistíðinda. (4854)

410. mál, mengun í álverinu í Straumsvík

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lét að því liggja að það væri verið að hlunnfara íslensk stjórnvöld varðandi skattamál. Ég vísa til fyrri umræðna sem farið hafa fram í Sþ. um það mál þar sem kom fram að slíkt mundi ekki gerast. Það kom fram í svari mínu við einni af fjölmörgum fsp. hv. þm.

Ég vil aðeins út af því máli sem hér er á dagskrá segja að það er alveg ljóst að gölluð rafskaut hafa leitt til nokkurra vandræða. Ég hef skýrt það frá fjárhagslegu sjónarmiði fyrr.

Í öðru lagi er ljóst að mengunarvarnir hjá þessu fyrirtæki fara eftir íslenskum lögum sem heyra í þessu tilliti undir Hollustuverndina annars vegar og Vinnueftirlitið hins vegar eins og skýrt hefur komið fram hjá hæstv. heilbrmrh., en til viðbótar er 12. gr. aðalsamningsins við Alusuisse um flúornefnd sem ég veit að hv. þm. þekkir mjög vel frá sínu fyrra starfi þegar hann var iðnrh. Þær upplýsingar liggja fyrir fyrir árið 1986 og árin þar á undan. Eftir um það bil tvo mánuði kemur skýrsla fyrir sl. ár.

Síðustu upplýsingar, sem eru fyrir árið 1986, benda til þess að þá um haustið hafi minni mengun verið mæld í gróðri og vatni en um vorið. En með þessu er fylgst og það má segja að þegar litið er yfir öll þessi ár hefur mengun mæld í gróðri og í vatni við álverið farið minnkandi frá ári til árs og þá tek ég ekki tillit til þeirra vandræða sem nú er við að etja vegna gallaðra rafskauta.

Þetta vildi ég, forseti, að kæmi fram við þessar umræður.