28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6915 í B-deild Alþingistíðinda. (4870)

425. mál, samvinnufélög

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. viðskrh. að frv. hans varðandi hlutafélög er í afgreiðslu hjá fjh.og viðskn. Ed. og það er rétt að það hefur tekið tíma, það hefur legið þar nú í vetur, m.a. fyrir þá sök að ýmislegt er að gerast í sambandi við hlutafélögin og hlutabréfamarkað og ýmislegt sem þar tengist. Þar að auki get ég sagt að það er skoðun mín að nauðsynlegt sé að þingið hafi þessi frumvörp bæði til meðhöndlunar samtímis, frv. um hlutafélög og frv. sem felur í sér endurskoðun á lögum um samvinnufélög.

Ef við lítum á þingsöguna kemur í ljós að Alþingi hefur gjarnan tekið afstöðu til þessara félagaforma með svipuðum hætti og hefur litið sömu augum t.d. á afstöðu hins einstaka félagsmanns til samvinnuhreyfingarinnar eins og Alþingi hefur litið á sambandið milli hlutafélags og einstaklings. Ef við rifjum t.d. upp löggjöfina um stóreignaskattinn á sínum tíma frá 1949 og 1950 kemur í ljós að það voru einstaklingarnir í kaupfélögunum sem voru látnir greiða stóreignaskattinn. Hann var lagður á einstaklinga en ekki á samvinnuhreyfinguna, hvorki Samband ísl. samvinnufélaga né kaupfélögin, og með sama hætti var það svo að hluthafarnir voru látnir greiða stóreignaskattinn fyrir hlutafélögin. Þannig er öldungis ljóst að það er í samræmi við reynsluna að Alþingi fjalli um þessi félagaform samtímis og undir engum kringumstæðum get ég unað þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að á meðan við í fjh.- og viðskn. Ed. kjósum að athuga betur frv. um hlutafélögin verði látið undir höfuð leggjast að hefja endurskoðun á lögum um samvinnufélög. Undir engum kringumstæðum get ég á það fallist, en ég vil aðeins skýra frá því að sú málsmeðferð sem í nefndinni hefur verið á frv. til breytingar á lögum um hlutafélög er án athugasemda nokkurs nefndarmanns og við höfum talið að við höfum farið það gætilega og rólega og höfum síður en svo sest á málið af vilja, en höfum hins vegar viljað athuga hvert efnisatriði gaumgæfilega.

Ég vil, herra forseti, aðeins segja að ég fagna því að ég heyri að vilji hæstv. ráðherra stendur til þess, þrátt fyrir allt, að samvinnulögin verði endurskoðuð og ég efast ekki um að hann með sínum mikla dugnaði muni koma því í framkvæmd.