28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6920 í B-deild Alþingistíðinda. (4877)

495. mál, förgun hættulegs efnaúrgangs

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur lagt fyrir mig fsp. um förgun hættulegs efnaúrgangs í fjórum liðum.

Í fyrsta lið er spurt hvaða reglur eru nú í gildi hér á landi um förgun hættulegs efnaúrgangs.

Gildandi lagaákvæði varðandi förgun hættulegs efnaúrgangs er að finna í lögum um eiturefni og hættuleg efni nr. 85/1968, með síðari breytingum, en þar segir í 19. gr.: „Tómum flöskum, öðrum ílátum, svo og umbúðum, sem hafa haft eiturefni eða hættuleg efni að geyma, skal farga eða hreinsa þannig að mönnum eða dýrum stafi ekki hætta af. Að öðrum kosti skal endursenda ílát og umbúðir luktar og merktar á viðunandi hátt. Eigi má farga meiri háttar birgðum af eiturefnum eða hættulegum efnum nema með samþykki viðkomandi embættislæknis eða eftirlitsmanns, sbr. 20. gr. Ef um er að ræða takmarkað magn nánar tiltekinna efna er heimilt að farga þeim án vitundar viðkomandi embættislæknis, enda skal þá fara eftir settum fyrirmælum þar að lútandi.“

Ljóst er að þessi ákvæði eru ófullnægjandi og taka fyrst og fremst til heilbrigðisþáttarins, þ.e. að koma í veg fyrir bein eituráhrif af völdum þeirra efna sem farga á. Slíkt er ekki nægjanlegt þegar um förgun eiturefna og hættulegra efna er að ræða, en hafa verður í huga að ákvæðin eru 20 ára gömul og frá þeim tíma þegar mengun var ekki sama áhyggjuefni og hún er í dag. Í dag er litið á förgun eiturefna og hættulegra efna ekki síður sem umhverfisvandamál.

Í lögum nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en Hollustuvernd ríkisins starfar samkvæmt þeim lögum, segir m.a. að setja skuli mengunarvarnareglugerð, sbr. nánar 3. gr. laganna þar sem nánar er til tekið um hvaða atriði eigi að fjalla í þeirri reglugerð. Hluti af reglugerðinni hefur þegar tekið gildi og annar hluti og sá stærsti er tilbúinn í drögum sem liggja fyrir stjórn Hollustuverndar ríkisins sem ætlar að afgreiða málið fyrir sumarið. Í þessari reglugerð, sem mun bera heitið mengunarvarnareglugerð, verður kveðið á um förgun eiturefna og hættulegra efna á ítarlegri hátt en gert hefur verið til þessa.

Rétt er enn fremur að benda á að í frv. að breyttum lögum um eiturefni og hættuleg efni, sem ég mælti fyrir í síðustu viku í hv. Ed., er kveðið á um að setja skuli reglugerð um förgun eiturefna og hættulegra efna að fengnum tillögum eiturefnanefndar, Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndarráðs og er þar um nýmæli að ræða.

2. liður fsp. var: Hver sér um kynningu á þeim reglum sem í gildi eru?

Viðkomandi lög og reglur eru birtar á stjórnskipulegan hátt í samræmi við lög þar að lútandi. Hvað snertir kynningar á gildandi reglum umfram lögskipaða birtingu er það að segja að engum sérstökum aðila er fengið það hlutverk samkvæmt gildandi lögum nr. 85/1968, um eiturefni og hættuleg efni, að öðru leyti en því að umsjón og tillögur um framkvæmd laganna er í höndum eiturefnanefndar og landlæknis. Hér er að vísu um 20 ára gömul ákvæði að ræða sem tóku mið af öðrum forsendum en gert er í dag að töluverðu leyti, sbr. það sem ég hef áður sagt. Þess vegna hefur Vinnueftirlit ríkisins hvað snertir vinnustaði og Hollustuvernd ríkisins hvað snertir mengunarvarnir komið inn í fræðsluhlutverkið, enda er þessum stofnunum hvorri á sínu sviði falið annaðhvort beint eftirlit eða yfirumsjón með eftirliti annarra. Eitt aðalhlutverk Hollustuverndar ríkisins er að annast fræðslu m.a. til heilbrigðiseftirlitsins í landinu og almennings. Því er hins vegar ekki að neita að Hollustuvernd ríkisins hefur búið við mikið fjársvelti og engum peningum hefur verið ráðstafað til fræðslustarfseminnar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi við gerð fj árlaga.

3. liður fsp. hljóðaði svo: Hvernig er háttað eftirliti með því að eftir reglum sé farið?

Í 26. gr. reglugerðar nr. 238/1986, um eftirlit með framkvæmd laga um eiturefni og hættuleg efni, kemur fram að héraðslæknar hafi eftirlit hver í sínu umdæmi með förgun eiturefna og hættulegra efna í samræmi við 19. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, að svo miklu leyti sem eftirlitið fellur ekki undir Hollustuvernd ríkisins eða Vinnueftirlit ríkisins.

Hvað snertir eftirlit Hollustuverndar ríkisins, þ.e. hið almenna eftirlit, skal það sagt að fyrirspurnum um förgunarleiðir eiturefna og hættulegra efna hefur farið mjög fjölgandi á undanförnum missirum. Sem stendur er hins vegar engin aðstaða eða leiðbeining fyrir hendi og er því ekki um annað að ræða en: Í fyrsta lagi að meta í hverju tilfelli hvort óhætt sé að farga efninu á sorphaug eða sorpbrennslu. Í öðru lagi að leggja til að efninu verði fargað erlendis, en slíkt hefur verulegan kostnað í för með sér. Og í þriðja lagi að leggja til að efnið verði geymt þar til förgunaraðstaða er fyrir hendi.

Má segja að allir þessir þrír þættir séu framkvæmdir í dag, allt eftir efnum og ástæðum á hverjum tíma og mati.

4. liður fsp. var svohljóðandi: Hvar eru helstu förgunarstaðir fyrir hættulegan efnaúrgang?

Sem svar við því verð ég að segja að hér á landi eru engir sérstakir förgunarstaðir fyrir hættulegan efnaúrgang, eins og fram kemur reyndar í svarinu við 3. lið fsp. hér á undan.

Af framansögðu má ljóst vera að förgun eiturefna og hættulegra efna hér á landi er ekki í þeim farvegi sem æskilegt væri. Er því nauðsynlegt að hraða setningu reglna á þessu sviði og er ætlunin að gera það með setningu mengunarvarnareglugerðarinnar sem gæti tekið gildi frá og með nk. áramótum. Hins vegar er ekki hægt að kveða á um slíka förgun nema hlutaðeigandi eftirlitsstofnunum sé gert kleift að annast eftirlitið. Veruleg hugarfarsbreyting þarf að koma til gagnvart Hollustuvernd ríkisins, ekki síst hjá fjárveitingavaldinu, sé betri tíðar að vænta á þessu sviði.