28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6941 í B-deild Alþingistíðinda. (4908)

Fyrirspurn um viðskiptahalla

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Á bls. 18 í þingsköpum Alþingis segir, með leyfi forseta: „Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að hún var leyfð.“

Ég held að það sé rétt munað hjá mér að í síðustu viku var fsp., sem var hér á dagskrá frá einum stjórnarþingmanni, Guðmundi G. Þórarinssyni, tekin út af dagskrá og forsrh. af einhverjum ástæðum treysti sér ekki til að svara þeirri fsp. Þessi fsp. snertir þjóðlífið allt mjög mikið, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við spám Þjóðhagsstofnunar um viðskiptahalla við útlönd sem nemi um 10 milljörðum kr. á árinu 1988?"

Frá því að þessi fsp. var gerð og þangað til dagskrá var prentuð fyrir þann fund sem frestaði málinu í síðustu viku voru fréttir í fjölmiðfum um að viðskiptahallinn stefndi í 15–16 milljarða. Síðan hafa verið umræður á Alþingi og bæði ég og aðrir þingmenn hafa nefnt þá tölu án þess að hún hafi verið leiðrétt og stendur hún þá sem staðfest rétt tala, 15–16 milljarða viðskiptahalli, a.m.k. er hann orðinn miklu hærri en þeir 10 milljarðar sem hann datt niður í úr 13–14 samkvæmt upplýsingum ríkisstjórnarinnar við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fyrir nokkrum vikum.

Nú vil ég, með leyfi forseta, spyrja: Er það virkilegt að það hafi láðst að tilkynna veikindaforföll eða fjarvistarleyfi hæstv. forsrh. því að ég sé að fyrirspyrjandi er kominn hér? Af hverju er þessari mikilvægu fsp. ekki svarað? Nú er kominn hálfur mánuður síðan hún kom á dagskrá fyrst. Hvað kemur í veg fyrir að þjóðin fái að vita hvaða lausnir ríkisstjórnin hefur? Hvaða lausnir hefur forsrh. á þessum gríðarlega viðskiptahalla sem eykst þannig að maður hefur heyrt talað um að hann komist jafnvel upp í 20 milljarða innan mjög fárra vikna? Ég mótmæli því, hæstv. forseti, að enn þá einu sinni skuli fsp. af þessari stærðargráðu — ég kalla það stærðargráðu — vera tekin út af dagskrá.