28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6977 í B-deild Alþingistíðinda. (4926)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum nú heyrt málflutning þeirra sem standa að þessari ríkisstjórn og ég held að það hafi komið greinilega fram samstaðan sem þar er. Einn hv. þm. kallaði þetta „helstefnu“, þ.e. stefnu ríkisstjórnarinnar. Það vorum ekki við sem stöndum að þessari vantrauststillögu sem sögðum þessa setningu.

Við höfum heyrt að það sé í raun og veru allt í lagi í þjóðfélaginu. Hæstv. forsrh. fór í Dali og heyrði hljóðið þar. Það hafa fleiri heyrt hvernig er í þeirri byggð. Og jafnvel þó það hafi eitthvað verið gert þar á undanförnum árum er ekki bjart yfir Dalamönnum þessa dagana. Það vona ég að hæstv. forsrh. hafi heyrt.

Ég sá hann í sjónvarpinu í kvöld þar sem hann var að tala við flokksmenn sína á Akranesi. Þar var ekki alveg ánægjan að mér heyrðist með ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.

Þó að þessar umræður, sem hér fara fram, verði ekki til annars en að þjóðin fái að sjá og heyra hvernig stjórnarflokkarnir eru ósammála um flest atriði nær það sínum tilgangi, enda hefur það verið sannleikurinn að það eina sem stjórnarflokkarnir hafa verið sammála um á undanförnum vikum er að vera ósammála. Það hefur komið upp hvert málið á eftir öðru sem þjóðin hefur horft á og heyrt í fjölmiðlum.

Ég er einn af þeim sem standa að þessari vantrauststillögu og það er sjálfsagt að ræða um það hvernig stendur á því að ég er þar með. Það hefur komið fram í fjölmiðlum hvernig ástatt er hjá fólkinu í landinu. Hvernig er það hjá landsbyggðinni? Hvernig er það á Vestfjörðum með fiskvinnsluna? Þeir eru að tala um að loka fyrirtækjunum. Þeir geta ekki haldið áfram. Framkvæmdastjóri Norðurtangans á Ísafirði, sem ég hélt að væri eitt af sterkustu fyrirtækjum landsins, ber sig nú ekki vel þessa dagana. Hvernig er með verslunina úti á landi, hvernig er með kaupfélögin? Ég sé ekki betur en landsbyggðinni sé blátt áfram að blæða út.

En hvernig skyldi nú standa á þessu? Ætli það sé ekki fyrst og fremst vaxtastefnan í landinu? Ætli það megi ekki segja að það séu fyrst og fremst störf ríkisstjórnar, sem nú situr, sem er búin að leika þjóðfélagið eins og allir hljóta að finna og sjá?

Í nóvembermánuði 1986 var öll vaxtaákvörðun gefin frjáls. Í febrúarmánuði 1987 var bindiskyldan lækkuð hjá bönkum og sparisjóðum úr 18% í 13%, en þá var líka bönkunum og öðrum stofnunum, nema náttúrlega gráa markaðnum, gert að skyldu að kaupa ríkisvíxla. En hverjir voru vextirnir þá? Vextirnir á þessum ríkisvíxlum voru þá 20%. Síðan gerðist það í ágúst að vextir á ríkisvíxlum voru komnir upp í 28,2% miðað við ársávöxtun og þannig væri hægt að halda áfram. Í septembermánuði voru þeir komnir upp í 38% og þá var almenningi gefinn kostur á að kaupa þessa víxla. 1. des. voru þeir komnir upp í 41,3%. Þannig voru bankar og sparisjóðir settir í nokkurs konar spennitreyju. Þeir urðu að hækka vextina, ekki síst vegna þess að það var búið að setja á skyldu þeirra með aukabindingu sem var um 10% miðað við heildarinnlán og ef þeir ekki stóðu við það urðu þeir að borga dráttarvexti af þeim sem þarna varð. Halda menn að þetta hafi ekki haft áhrif á hvernig komið er fyrir fólkinu í landinu, fyrir fiskvinnslustöðvunum, fyrir versluninni, sérstaklega úti á landi og meira að segja hér? Og halda menn að þetta hafi ekki haft áhrif á verðlagið í landinu? Halda menn að verslanirnar hafi tekið þá vaxtahækkun sem varð á sig?

Skömmu eftir að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar settist að völdum kom í ljós hvernig grái markaðurinn hefur makað krókinn, þessi grái markaður sem ekki hefur verið komið böndum á og valsar í þjóðfélaginu alveg án nokkurrar bindiskyldu eða nokkurra annarra kvaða. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. sem mun taka til máls hér á eftir: Ætlar hann að láta þingið fara heim án þess að koma böndum á þennan fjármagnsmarkað?

Þegar þingflokkur Framsfl. vildi umræður við okkur samtakamenn um að vinna með sér að nefndakosningu og helst að ég gengi í flokkinn var fundur með formanni flokksins og formanni þingflokksins norður á Akureyri 1. okt. Þá lögðum við fram úttekt á stjórnarsáttmálanum á tólf vélrituðum síðum þar sem við sýndum fram á hvað fælist í þessum stjórnarsáttmála. Nú var miðstjórnarfundur Framsfl. nýverið. Hvað voru þeir að samþykkja þar? Þeir voru að samþykkja í flestöllum atriðum það sem við settum að skilyrði fyrir því að vinna með Framsfl. í flestum tilvikum og sögðu þar að þeir væru með þessu í flestöllum eða öllum atriðum, en stjórnarsamstarfið kæmi í veg fyrir að þeir gætu komið þessu fram á meðan þeir væru með þessum flokkum í samstarfi. En nú eru þeir orðnir smeykir við ástandið í þjóðfélaginu. Nú hafa þeir opnað eyrun og heyra hljóðið í landsmönnum og til hvers þessi stefna leiðir sem einn hv. þm. þeirra sagði áðan að væri helstefna.

Hvernig hefur landbúnaðurinn verið leikinn í þessu stjórnarsamstarfi og hvernig er staðan nú? Það stendur upp á ríkissjóð að borga 330 millj. kr. af útflutningsbótum. Af því eiga vinnslustöðvar landbúnaðar um 57 millj. Ætli mundi ekki skána staða þeirra ef þær fengju þá fjármuni í hendur sem þær eiga rétt á samkvæmt samningum og lögum? Og hvað gerði hæstv. fjmrh. í sambandi við uppsafnaðan söluskatt fyrir refabændur? Hann neitaði að borga á þessa búgrein eins og hann hefði gert á aðrar atvinnugreinar sem voru líkt staddar. Þannig er nú staðið á þeim sem eru úti á landsbyggðinni og eru í erfiðleikum. Það er ekki sama hver á í hlut. Menn eru ekki eins fyrir lögunum eða réttlætiskennd fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar.

Það hefur komið fram í ræðum, sérstaklega hæstv. menntmrh. hér áðan, að hún væri ekki beysin þessi stjórnarandstaða. Hvernig eru stjórnarflokkarnir? Hvernig hafa þeir efnt þau fyrirheit sem þeir gáfu fyrir kosningar? Það væri gaman að heyra hv. þm. sem hér eiga eftir að tala koma svolítið inn á þau málefni. Hvernig er ástandið, hæstv. sjútvrh., á Austurlandi? Er hann hættur að heyra hljóðið í mönnum þar?

Nei, það er ekki vanþörf á því að fá umræður um þessi mál á hv. Alþingi og hefur sannarlega komið í ljós að stjórnarliðið getur ekki náð saman nema um mjög fáa hluti og stendur nú frammi fyrir því að koma ekki málum fram og ætlar að senda þingið heim til þess að geta gefið út brbl. eftir að þingið er komið heim, ekki vegna stjórnarandstöðunnar einnar heldur vegna sinna eigin manna.

Ég mun fylgjast með hvernig verður tekið á þeim málum sem Framsfl. samþykkti á sínum miðstjórnarfundi. Er þetta ein sápukúlan enn? Er þetta ein samþykktin til að þagga niður í sínum mönnum og verður svo ekkert við þetta staðið? Ef marka mætti orð hæstv. fjmrh. er ekki líklegt að náist þar saman, jafnvel þótt fjmrh. hafi gefið sjútvrh. heldur betur vel fyrir síðasta laugardag í Alþýðublaðinu þar sem hann segir að hann hafi verið fyrst og fremst sín stoð og stytta í þeim kerfisbreytingum sem var komið á. Það er vitnisburður sem ég hefði ekki viljað fá.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.