29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7009 í B-deild Alþingistíðinda. (4953)

466. mál, ferðamál

Frsm. samgn. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 79 2. júlí 1985.

Meginefni frv. er að ríkisstjórninni sé heimilt að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er taki við núverandi rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins. Þetta fyrirtæki skal heita, ef úr þessu verður, Ferðaskrifstofa Íslands hf. Heimildin nær til þess að selja 2/3 af hlutafé ríkisins í Ferðaskrifstofu ríkisins. Nefndin leggur áherslu á að hér er verið að gefa heimild til að selja starfsfólki Ferðaskrifstofu ríkisins meirihlutaaðild í hinu nýja fyrirtæki.

Í nál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin hefur rætt málið og fengið á sinn fund Birgi Þorgilsson ferðamálastjóra, Kjartan Lárusson, forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins, Önnu Haraldsdóttur, trúnaðarmann starfsfólks Ferðaskrifstofu ríkisins, Guðríði Halldórsdóttur, eftirlitsmann með rekstri Edduhótela, Reyni Adolfsson frá Ferðamálasamtökum landshlutanna, Hákon Torfason, deildarstjóra í menntmrn., Hrein Loftsson, aðstoðarmann samgrh., og Ragnhildi Hjaltadóttur, deildarstjóra í samgrn.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt, en leggur áherslu á eftirfarandi skilning á ákvæðum 1. gr. þess:

1. Nefndin lítur svo á að frv. miði að því að eignarráð meiri hluta í hinu nýja hlutafélagi, Ferðaskrifstofu Íslands hf., flytjist til starfsmanna. Heimildarákvæði frv. verði því aðeins beitt að samkomulag náist við starfsmenn um kaup á hlutafénu.

2. Með orðalagi 3. mgr. 1. gr. frv. um „forkaupsrétt starfsmanna“ er að áliti nefndarinnar átt við alla starfsmenn, jafnt fastráðna sem lausráðna, svo sem sumarráðna starfsmenn Edduhótela.

Egill Jónsson var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.“

Undir nál. skrifa allir aðrir nefndarmenn, Stefán Guðmundsson, Valgerður Sverrisdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson, Skúli Alexandersson og Júlíus Sólnes.

Ég held að engum blandist hugur um að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur unnið mikið og gott starf að ferðamálum og landkynningu sem margar aðrar ferðaskrifstofur sem síðar hafa komið til hafa notið í ríkum mæli. Mikil gróska virðist vera í þessari atvinnugrein sem sést m.a. af því að fimm ný leyfi voru gefin út á sl. ári til reksturs ferðaskrifstofa. Hafa nú 34 slík leyfi verið gefin út frá því að það var tekið upp árið 1964.

Í þessari atvinnugrein er að mörgu að hyggja. Margt hefur hér verið vel gert, annað er hálfgert og svo er auðvitað fjölmargt sem enn er algerlega óunnið í þessum málum. Eitt er þó víst: Ef skynsamlega er að staðið eru góðir möguleikar á að gera Ísland að eftirsóttu ferðamannalandi.

Ég leyfi mér að draga það mjög í efa að við almennt gerum okkur nægilega góða grein fyrir því hvaða möguleika Ísland hefur upp á að bjóða sem ferðamannaland og hvaða tekjur við gætum haft af þessari mjög svo ungu atvinnugrein. Það er með ólíkindum það skilningsleysi sem hér ríkir til þessa málaflokks. Það er svo óralangt frá því að staðið sé við þær skuldbindingar sem kveðið er á um að eigi að fara til ferðamála í þessu landi. Ég stenst það ekki að nefna nokkrar staðreyndir ef það mætti verða til þess að opna augu sem flestra fyrir þeim möguleikum sem hér eru.

Á árinu 1987 heimsóttu 129 315 erlendir ferðamenn Ísland og nemur aukningin á milli ára 14%. Frá árinu 1984 hefur erlendum ferðamönnum, sem til Íslands hafa komið, fjölgað um rúmlega 44 þús. eða um rúmlega 51,6%.

Ef við skyggnumst til framtíðar með ákveðna vissu um fortíð munu um 196 þús. erlendir ferðamenn sækja okkur heim árið 1990 og að fimm árum liðnum eða árið 1993 munu tæplega 300 þús. ferðamenn koma til Íslands á móti þeim 129 þús. sem komu á sl. ári eins og ég gat um áðan.

Gjaldeyristekjur okkar af þjónustu við ferðamenn á sl. ári voru hvorki meiri né minni en um 6 milljarðar kr. Tekjur íslensku flugfélaganna af fargjöldum erlendra ferðamanna milli Íslands og umheimsins munu lauslega áætlað hafa verið rúmlega 2 milljarðar þannig að heildarveltan í ferðamannaiðnaðinum hér á landi mun trúlega hafa verið hvorki meira né minna en um 10 milljarðar. Við getum svo velt því fyrir okkur hvað ferðamannaiðnaðurinn gæfi af sér til okkar Íslendinga eftir fimm ár ef spár manna rætast, þeirra bjartsýnustu, um að 300 þús. ferðamenn kæmu til Íslands á því herrans ári á móti rösklega 129 þús. á sl. ári.

En hvernig erum við þá í stakk búin til að taka á móti þessum gestum og sinna þeim, ekki bara í mat og drykk þó vitaskuld muni þessi hundruð þúsunda ferðamanna létta á birgðum landbúnaðarafurða? Við þurfum einnig og ekki síður að búa landið okkar undir það að þessir gestir geti fengið að sjá það og njóta þess í sem bestu ástandi.

Ég sé ástæðu til þess að hvetja hæstv. samgrh. til að taka hér til hendi og koma þeim sem litla meðvitund hafa um það sem hér þarf að gera til meðvitundar um það sem hér er ógert og þá um leið að benda þeim á þá stórkostlegu möguleika sem hér eru í svo sannarlega mjög ungri atvinnugrein.