29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7056 í B-deild Alþingistíðinda. (5043)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er vissulega fagnaðarefni að það mæta skáld sem kvað undir skáldanafninu Örn Arnarson, Magnús Stefánsson, fæddur í Kverkártungu á Langanesströnd, skuli nú hafinn hér til vegs og virðingar, sem honum ber auðvitað, í hverri ræðunni á fætur annarri, hvern daginn á fætur öðrum á hv. Alþingi. Hins vegar eru kannski misjafnlega heppilegar sumar tilvitnanirnar eins og komið hefur í ljós. A.m.k. þykist ég viss um það að af slíkum skilningi sem hið ágæta skáld kvað um kjör alþýðu manná, þá hefði hann ekki lofsungið lánskjaravísitölu ef hann hefði verið uppi á meðal vor og líklega frekar tekið undir með þeim sem vildu sjá hana feiga.

Erindi mitt hingað, herra forseti, en ég stend að áliti fjh.- og viðskn. um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar, er fyrst og fremst að þakka hv. flm. kjarkinn. Mér finnst lofsvert að hv. flm. skuli rísa upp gegn frjálshyggjunni og ofstækinu í sínum eigin flokki og öðrum og flytja frv. um aðra tilhögun varðandi lánskjör og ávöxtun sparifjár og þora að segja það, sem auðvitað liggur í hlutarins eðli, að hann getur engan veginn sætt sig við þá stefnu sem núv. ríkisstjórn framfylgir, ella þyrfti væntanlega stjórnarþingmaður ekki að grípa til þess ráðs að flytja sjálfstætt frv. um breytingar á þessum málum.

Ég tek jafnframt undir með formanni og frsm. fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Norðurl. v., um það að þær hugmyndir sem í frv. eru eiga ekkert síður erindi inn í endurskoðun nefndarinnar góðu, sem mun vera undir forustu alþýðubankastjórans Björns Björnssonar, hvar skoða skuli tilhögun um verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Ég tek það að vísu fram að ég tel sumt betra en annað og sumt lakara í þessu frv. Ég er ekki viss um að það gangi allt upp eins og ég sagði reyndar við 1. umr. málsins. En að einu leyti er ég flm. algerlega sammála og það er að við þær aðstæður sem ríkja á lánsfjármarkaðnum á Íslandi er barnaskapur að halda að ekki þurfi til afskipti eða a.m.k. markvissa stefnu og markvissa viðleitni opinberra aðila til að hafa áhrif á vaxtastigið. Það er forheimskun að ímynda sér að íslenski fjármagnsmarkaðurinn sé eitthvað nærri því að geta komist í það jafnvægi sem er forsenda þess að framboð og eftirspurn geti stýrt vöxtunum þannig að þeir séu með hóflegu móti.

Þó að hinn bókmenntalega sinnaði hæstv. viðskrh. hristi nú höfuðið ætla ég að endurtaka það sem mína skoðun og ég get rökstutt það fyrir hæstv. ráðherra að ójafnvægið á íslenska fjármagnsmarkaðnum er slíkt að það er langt í land og fjarri lagi að, mér liggur við að segja það, hæstv. ráðherra muni lifa það þó hann verði gamall maður eins og nú horfir að það jafnvægi komist hér á við ríkjandi aðstæður, þ.e. að íslenski fjármagnsmarkaðurinn sé svo lokaður með þeim hætti sem hann er í dag, að framboð og eftirspurn geti skilað okkur hóflegum vöxtum. Ég sé engin merki um það og ég hygg að enginn sjái nein merki um það að það 2–3 ára tímabil sem menn hafa prufukeyrt þetta á sé að skila neinum minnsta árangri í því að lækka vextina. En auðvitað hlýtur það að vera keppikeflið, enda hafa allir, jafnvel hörðustu markaðshyggjumennirnir og frjálshyggjupostularnir, margtuggið það, bæði úr þessum ræðustól og víða annars staðar úti í þjóðfélaginu, að vextirnir séu of háir. Venjan er sú að talsmenn frelsisins koma í ræðustólinn, herra forseti, og segja: Þetta verður að hafa sinn gang. Við hvikum hvergi frá stefnunni. En að vísu skal viðurkennt að raunvextir eru of háir. Þar með hafa menn þvegið hendur sínar og allt er í lagi. Það er nóg, hv. flm. og aðrir góðir hv. þingdeildarmenn, það virðist vera þessum mönnum nóg að gerast svo hreinskilnir að viðurkenna að raunvextir séu allt of háir og þar með séu þeir lausir allra mála. En ef raunvextirnir eru allt of háir og hafa verið það um nokkurra ára bil, hvað ætla menn þá að gera í málinu?

Við vitum vel að þessir háu raunvextir eru að leiða gífurleg vandræði yfir ýmsa aðila bæði í atvinnulífinu og einstaklinga. Ég hygg að það sé veruleg hætta á því að það versta sé fram undan í þessum efnum. Vegna hvers? Vegna þess að saga verðtryggingar á fjárskuldbindingum er ekki löng á Íslandi og þar með þessi geysilegi raunkostnaður á fjármagni sem við höfum búið við undanfarin ár og einkum og sér í lagi sl. 2–3 ár. Saga þessara hluta er einfaldlega ekki svo löng á Íslandi. Vel stæð fyrirtæki, ég tala nú ekki um ef þau hafa haft einhvern rekstrarhagnað á móti undanfarin ár, geta hugsanlega borið þennan kostnað um nokkurt árabil, en það segir sig sjálft að hinn eiginlegi reynslutími í þessum efnum verður eftir nokkur ár, þ.e. eftir nokkur ár frá því að verðtrygging fjárskuldbindinga er tekin upp og hægt er að fara að tala um raunvexti í þeim skilningi vegna þess að tímabilið fyrir það er í raun og veru á engan hátt sambærilegt við þetta.

Svo bætist það við að nú eru versnandi skilyrði að ýmsu leyti í atvinnulífinu. Heilar greinar atvinnulífsins búa nú við verri rekstrarskilyrði en undanfarin ár. Þá segir það sig sjálft að ógæfuþróunin verður hraðari. 10% tap í frystingu. Það er allt annað að búa við það við vaxtastig eins og nú er en var kannski fyrir nokkrum árum þegar vextirnir voru að rokka í kringum núllpunktinn, þ.e. miðað við raunvaxtastig. Þetta segir sig sjálft og allt venjulegt fólk skilur þetta, en markaðstrúarmennirnir virðast hins vegar ekki gera það af þessum ástæðum og ýmsum öðrum, sem er kannski ekki ástæða til að draga inn í þessar umræður nú þar sem verið er að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstjórnar og væntanlega til nefndar þeirrar sem hún hefur sett á laggirnar til að skoða þessa hluti, öðruvísi en þá að ímynda sér að hv. nefnd kynni að gerast svo lítillát að verða sér úti um þær umræður sem fara fram á Alþingi um peningamál, um vaxtamál og fara yfir þær og hafa þær til hliðsjónar í sínum störfum. Það má e.t.v. gera sér vonir um það. Í því sambandi er þá ekki óeðlilegt að menn hafi á því nokkra skoðun hvað þurfi að skoða öðru fremur í þessum efnum.

Það sem ég held að þurfi fyrst og fremst að skoða og menn verði að fara að reyna að horfa fordómalaust á, hvort sem menn eru meiri eða minni markaðshyggjumenn eða frjálshyggjumenn í þessum efnum, er ósköp einfaldlega: Mun þetta fyrirkomulag nokkurn tíma koma hér á jafnvægisástandi? Er eitthvað sem bendir til þess á hinum þrönga og sérhæfða íslenska fjármagnsmarkaði nema menn gangi þá leiðina á enda og opni hér allar dyr fyrir erlendu fjármagni og hleypi inn erlendum bönkum og jafnvægisstilli málin þá með þeim hætti? Um það er hins vegar langt í land með að samstaða náist á hinu háa Alþingi. Það vil ég a.m.k. leyfa mér að vona.

Herra forseti. Það var ekki á hv. talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar að heyra, sem töluðu í umræðunum í gærkvöld, sumum hverjum a.m.k., að það stæði til að slá neitt af í þessum efnum frekar en öðrum. Harðlínumennirnir virðast hafa undirtökin þó að ýmsir hv. þm. Framsfl. hafi dagvaxandi, að því er virðist, efasemdir um þetta ágæta kerfi afskiptaleysis ríkisstjórnarinnar og blindrar trúar á að markaðurinn muni að lokum leysa þessi vandamál. Fleiri og fleiri, a.m.k. í Framsfl. og jafnvel víðar, gera sér nú grein fyrir því að þessi bókstafstrú virðist ekki ætla að skila okkur miklum árangri. Hv. flm. frv., sem. hér er lagt til að vísa til ríkisstjórnarinnar, er einn í þeim hópi, enda leggur hann til aðra tilhögun.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, spyrja hæstv. viðskrh. hvað líði störfum þeirrar nefndar sem hér hefur margoft verið vitnað til. Hvenær verður þess að vænta að nefndin skili störfum og þá að hæstv. ríkisstjórn birti þær niðurstöður og grípi, ef sú verður niðurstaðan, til einhverra ráðstafana í framhaldi af því? Ég hygg að um það eitt getum við þó orðið sammála, ég og hæstv. viðskrh., að mikil þörf sé á því að sú nefnd starfi hratt og skili sem allra fyrst niðurstöðum. Þar í þyrfti að vera eins greinargóð úttekt og hægt er að gera á stuttum tíma á stöðu þessara mála, þar með talið þróuninni úti á hinum gráa markaði. Fyrst og síðast þyrfti nefndin að reyna að svara þeirri spurningu sem ég hef nefnt a.m.k. tvívegis áður: Eru ekki einhverjar vísbendingar uppi um að einhvers konar jafnvægi sé að nást í þessum efnum í núgildandi kerfi?

Herra forseti. Ég þarf þá ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en ég endurtek að það er lofsvert framtak af flm. frv. og virðingarverður kjarkur sem hv. flm. sýnir að rísa þannig upp gegn öfgaöflunum í eigin flokki og annars staðar.