29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7076 í B-deild Alþingistíðinda. (5068)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að sett verði bann á innflutning frá og útflutning til Suður-Afríku og Namibíu. Efni frv. fjallar um það, en hins vegar beinist aðgerðin að sjálfsögðu gegn þeirri stefnu sem ríkisstjórnin í Suður-Afríku framfylgir í aðskilnaðarmálum kynþáttanna og þeim brotum á mannréttindum sem hún hefur gert sig seka um.

Íslendingar, eins og aðrar Norðurlandaþjóðir og flestar vestrænar þjóðir, styðja vitaskuld frjáls viðskipti, en það ætti að vera ljóst að varðandi Suður-Afríku og við þessar aðstæður geta ekki gilt hinar almennu reglur. Norðurlandaþjóðirnar hafa gert endurteknar tilraunir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, m.a. í Öryggisráðinu, til þess að hafa áhrif á þetta mál, en það hefur ekki borið tilætlaðan árangur. Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda að dregið yrði úr viðskiptum við Suður-Afríku, innflutningur og útflutningur hefur verið tiltölulega lítill, en hins vegar verður ekki sagt að viðleitni íslenskra stjórnvalda í þessum efnum hafi borið þann árangur sem menn væntu því að heldur munu hafa aukist viðskiptin en hitt.

Með samþykkt þeirra laga sem hér er gert frv. um skipar Ísland sér í hóp þeirra þjóða sem með formlegum hætti lýsa yfir viðskiptabanni á Suður-Afríku í þeim tilgangi að þrýsta á ríkisstjórn landsins að láta af stefnu sinni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á fyrstu mánuðum þessa þings var borin fram þáltill. um að viðskiptabann yrði sett á Suður-Afríku. Þessi till. hlaut ítarlega umfjöllun í utanrmn. og athugun hefur leitt í ljós að ekki er fært að koma á innflutningsbanni á vörur frá Suður-Afríku nema með lögum þótt útflutningsbann sé unnt að ákveða með reglugerð. Af þessum sökum liggur ljóst fyrir að þál. hrekkur ekki til til þess að setja almennt bann á viðskipti við Suður-Afríku eins og var tilgangur þeirrar þáltill. sem ég vitnaði til. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er reist á þeim grunni að þörf sé lagasetningar.

Eins og hv. deild er kunnugt fellur það ekki að verksviði utanrmn. að flytja lagafrv. því að þau eru flutt í deildum. Þess vegna hefur orðið að ráði að utanríkismálanefndarmenn úr þeim þingflokkum sem lýstu því yfir í nefndinni að þeir vildu fylgja þessu máli fram flytji það frv. til l. sem hér birtist og hefur um það verið haft samráð við aðra nefndarmenn þeirra flokka í utanrmn.

Þetta frv. er tiltölulega einfalt í sniðum, en það tekur mið af lögum annars staðar á Norðurlöndum varðandi þetta efni þótt tekið sé tillit til íslenskra aðstæðna og vitnast í þeim efnum til einstakra greina frv.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn.