10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

64. mál, Þjóðhagsstofnun

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 54 frá 1974 um Þjóðhagsstofnun en með mér er flm. að þessu frv. hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon.

Efni tillögunnar kemur fram í 1. gr. þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Á eftir 3. tölul. 2. gr. laganna komi nýr liður sem orðist þannig:

Að safna þjóðhagslegum upplýsingum eftir kjördæmum og birta þær opinberlega einu sinni á ári í aðgengilegu formi, m.a. um tekjur og útgjöld ríkissjóðs, hlutdeild kjördæma í landsframleiðslu og gjaldeyrisöflun og um innlán og útlán innlánsstofnana.“

Þetta er efni 1. gr. Mér þætti vænt um, virðulegur forseti, ef hæstv. forsrh., sem er húsbóndi þessarar stofnunar, væri gert viðvart um að málið sé komið á dagskrá.

Ég vil rifja upp að lög um Þjóðhagsstofnun sem sett voru 1974, skilgreina í 2. gr. verkefni Þjóðhagsstofnunar og þar segir, til að ég komi þessu í samhengi við gildandi lög, í 2. gr.:

„Meðal verkefna Þjóðhagsstofnunarinnar eru þessi:

1. Að færa þjóðhagsreikninga.

2. Að semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Að semja og birta opinberlega tvisvar á ári, vor og haust, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, þar á meðal um framleiðslu, neyslu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald, atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuvega og fjármál hins opinbera. Auk þess skal stofnunin koma niðurstöðum athugana sinna á einstökum þáttum efnahagsmála fyrir almenningssjónir eftir því sem kostur er.“

Það er á eftir þessum málslið, 3. málslið 2. gr., sem lagt er til að sá texti komi sem fram kemur í 1. gr. frv. I framhaldi er 4. liður svohljóðandi í gildandi lögum:

„4. Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórnina og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála, eftir því sem ríkisstjórnin ákveður, og fyrir Seðlabanka Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins, eftir því sem um semst.

5. Að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál.

6. Að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir eftir því sem um semst.“

Þetta er gildandi 2. gr. laga um Þjóðhagsstofnun um verkefni hennar. Þá sjá menn samhengið sem þessari breytingu á lögunum er ætlað að falla inn í.

Það vakti athygli okkar flm. þessa máls á síðasta þingi, þegar fram voru bornar fsp. til þriggja ráðherra um ákveðnar þjóðhagsstærðir, að ekki komu nema mjög ófullkomnar upplýsingar frá þeim og var því borið við að upplýsingar vantaði, upplýsingagrunnur væri ekki til staðar þannig að hægt væri að ganga frá viðunandi svörum við því sem um var spurt, en tvær þessara fsp. eru birtar ásamt svörum sem fylgiskjöl með frv. Þriðja fsp. sem kom fram á síðasta þingi frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er birt sem fskj. III, en skriflegt svar við henni barst ekki fyrir þinglok.

Mig langar að rökstyðja þetta mál svolítið með því að vitna til nokkurra þátta í þessum fsp. og geta um viðbrögð ráðuneytanna, benda hv. þm. á hvernig þau birtust okkur sem um þetta spurðum og alþm. væntanlega öllum sem fengu þessi svör.

Það var í fsp. til forsrh. spurt um skiptingu aflaverðmætis, útflutningsverðmætis sjávarafurða, gjaldeyrisöflun og landsframleiðslu eftir kjördæmum. Í svari ráðherrans komu að vísu fram upplýsingar um aflaverðmæti og löndun afla og hlutfallslega skiptingu aflaverðmætis en þó ekki eftir kjördæmaskipan í landinu, heldur eftir þeirri greiningu sem Fiskifélag Íslands hefur á sinni gagnaöflun en Fiskifélagið skiptir landinu talsvert öðruvísi en kjördæmaskiptingin er, eins og tekið er fram í svari.

Enn ófullkomnara varð málið þegar kom að svörum við 3. og 4. lið í þessari fsp. þar sem spurt var um framlag hvers kjördæmis í gjaldeyrisöflun landsmanna á ákveðnu tímabili og beðið var um heildargjaldeyristekjur af útflutningi og hreinar gjaldeyristekjur eftir því sem upplýsingar leyfðu. Varðandi þennan þátt fsp. var svarið á þessa leið, með leyfi forseta, það er að finna á bls. 3, neðst, í fskj. með frv.:

„Upplýsingar um þetta atriði eru hvergi fyrirliggjandi og miðað við tiltæk gögn er heldur ekki hægt að afla þeirra. Gildir þetta um hvort tveggja heildargjaldeyristekjur og hreinar gjaldeyristekjur.“

Og síðan er því bætt við að út af fyrir sig sé gjaldeyrisöflunin ekki einhlítur mælikvarði því að framleiðsla sem er gjaldeyrissparandi komi inn í svipað samhengi og undir það er út af fyrir sig hægt að taka og auðvitað æskilegt að greina á milli þessara þátta.

Í 4. lið þessarar fsp. var spurt: Hvert má áætla að hafi verið framlag hvers kjördæmis til landsframleiðslunnar í heild og á vinnandi mann á sama tímabili, þ.e. á árunum 1981 til 1986. Og svarið, sem er að finna efst á bls. 4, í fskj., er svohljóðandi: „Þjóðhagsreikningagerð hér á landi er ekki enn komin á það stig að unnt sé að svara spurningum af þessu tagi. Til þessa hefur Þjóðhagsstofnun lagt áherslu á skýrslugerðina fyrir landið í heild og reynt að bæta hana og treysta eftir föngum. Við skiptingu landsframleiðslunnar eftir kjördæmum koma hins vegar upp ýmis ný álitamál, en fullyrða má að skýrslugerð af því tagi gæfi mun betri mynd af þætti hvers landshluta í þjóðarbúskapnum en gjaldeyristekjur eins og vikið er að í svari við þriðju spurningu.“

Þetta eru viðbrögð ráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar við þessu máli og eins og þarna kemur ljóslega fram vantar þessa gagnaöflun. Upplýsingaöflun hefur ekki verið miðuð við kjördæmaskipan í landinu eða einstaka landshluta að þessu leyti þótt viðurkennt sé að gagnlegt væri að fá slíkar upplýsingar að mati Þjóðhagsstofnunar. Þetta varðaði fsp. til hæstv. þáv. forsrh. og svar hans.

Borin var fram fsp. til hæstv. viðskrh. um innlán og útlán innlánsstofnana eftir kjördæmum og sú fsp. og svar er birt sem fskj. II. Þar komu fram gloppur af margháttuðu tagi varðandi það sem um var spurt en það var m.a. um stöðu og þróun innlána í innlánsstofnunum, flokkað eftir tegundum sparnaðarforma og kjördæmum á ákveðnu tímabili og það sama varðandi útlán svo og heildarútlán flokkuð eftir kjördæmum á sama tímabili frá innlánsstofnunum, lífeyrissjóðum og fjárfestingarlánasjóðum. Þarna var að vísu leitast við af hæstv. viðskrh. að leysa úr þessu máli á þeim tíma sem til umráða var og það komu fram í svörunum ýmsar gagnlegar upplýsingar, en með fyrirvörum um upplýsingagrunninn, þar eð ekki hefur verið haldið til haga upplýsingum um þessa þætti á grundvelli kjördæma.

Eins og ég gat um barst ekkert svar við þriðju fsp. til hæstv. þáverandi fjmrh. en fsp. var um tekjur og útgjöld ríkissjóðs eftir kjördæmum á fimm ára tímabili, sundurliðað í ákveðna þætti eins og menn geta séð á bls. 14 í fylgiskjali og spurt var um útgjöld ríkissjóðs einnig eftir kjördæmum sundurliðað á útgjaldaflokka, þar á meðal framlög til samneyslu og margt fleira sem þarna er til tínt, svo og fjármunatilfærslur milli kjördæma gegnum ríkisfyrirtæki eða sjóði í B-hluta fjárlaga.

Þetta vildi ég draga fram sem rökstuðning fyrir þessari tillögu um breyt. á lögum um Þjóðhagsstofnun. Við bendum á það í stuttri grg. með þessu frv. að um sé að ræða undirstöðuatriði til að unnt sé að átta sig á mikilvægum þáttum byggðamála og framlagi einstakra kjördæma til þjóðarbúsins en eins og hv. alþm. þekkja úr umræðum um byggðamál hefur mikið verið fjallað um málin út frá þessu sjónarhorni svo sem ofur eðlilegt er en því miður ekki með þann talnagrunn fyrir framan sig sem æskilegt er að hafa til að styðjast við varðandi slíka umræðu. Því er það von okkar flm. að úr þessu verði hið bráðasta bætt, eða eins og frekast er kostur, með því að Þjóðhagsstofnun verði falið að rækja þessa heimildasöfnun. Við gerum ráð fyrir að fyrirmæli frv. gildi frá og með árinu 1988 sem þýddi að upplýsingar um þetta bærust þá frá Þjóðhagsstofnun á árinu 1989.

Ég hef rætt þetta lítillega við núverandi framkvæmdastjóra eða forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Þórð Friðjónsson, og hann hefur tjáð mér að að hans mati væri um mjög gagnlegt verkefni að ræða og fróðlegar upplýsingar sem fengjust með þessu en hins vegar væri álitamál hvort núverandi starfslið Þjóðhagsstofnunar gæti rækt þetta verkefni svo fullnægjandi væri og augljóslega þyrfti að bæta gagnagrunn og breyta til um gagnaöflun til þess að unnt væri að draga fram viðkomandi heimildir, viðkomandi undirstöðuþætti. Hann fyrir sitt leyti vildi stuðla að því að þetta yrði gjörlegt ef samþykkt yrði.

Við höfum sett ákveðið svigrúm inn í frv. með því að taka fram í grg. varðandi 1. gr. þess að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða á þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun er ætlað að safna og birta. Það er gert ráð fyrir að starfsmenn stofnunarinnar hafi svigrúm til að auka við þá gagnasöfnun eftir eigin mati og óskum sem fram kunna að koma.

Ég vil svo, herra forseti, nefna það að Byggðastofnun er vissulega ætlað að fylgjast með byggðaþróun og fjalla um áhrif opinberra aðgerða á hana. Og eins og segir í 8. gr. laga um Byggðastofnun frá 1985, með leyfi forseta:

„Stofnunin skal afla upplýsinga, er hún þarf á að halda vegna starfsemi sinnar, í samráði við Hagstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka Íslands og aðra aðila sem hliðstæðum upplýsingum safna.“

Þetta var tilvitnun í gildandi lög um Byggðastofnun varðandi starfsemi stofnunarinnar, en það er enginn sem fæst við þessa heimildasöfnun sem hér er um fjallað.

Ég ætla ekki, herra forseti, að gera þetta frv. að tilefni til víðtækrar umfjöllunar um byggðamál. Slík umræða hefur farið fram hér á Alþingi og væntanlega gefst tilefni til þess áður en langt um líður að ræða þau efni af tilefni annarra þingmála, m.a. mála sem ég hyggst koma hér á framfæri við hv. þingdeild eða Sþ. eftir atvikum. Ég vísa til þess sem fyrir liggur um þá þróun sem í gangi er í landinu og blasir við öllum sem hafa augun opin og liggur fyrir staðfest, m.a. um flutning fólks og atvinnuþróun í landinu, í gögnum frá Byggðastofnun, eins og „Byggð og atvinnulíf árið 1985“ sem barst okkur í fyrra og yfirlit um útgerðarstaði í landinu sem nýlega er fram komið og eins atvinnuvegaskýrslur Byggðastofnunar sem vissulega eru gagnlegar upplýsingar. Ég vísa til þess og ætla ekki að hefja hér almenna umræðu um þá þróun sem þarna er í gangi.

Ég treysti því hins vegar að það sé skilningur hjá hv. þm. á nauðsyn þessa máls og mér þætti ánægjulegt ef hæstv. forsrh. vildi tjá sig um efni þessa frv. en hann er, svo sem lög kveða á um, húsbóndi Þjóðhagsstofnunar. Ég nefni að þetta mál tengist vissulega stórum málum eins og spurningunni um ný stjórnskipunarlög fyrir landið, um hugmyndir manna um að skipta landinu upp í héruð eða fylki. Það er auðvitað undirstöðuatriði að menn hafi ljósan talnagrunn og upplýsingar um þjóðhagsstærðir fyrir sér þegar verið er að ræða um efnahagshliðar slíkra mála og því hlýtur að vera víðtækur áhugi á því að koma því í verk sem hér er lagt til.

Ég legg svo til, herra forseti, að máli þessu verði að lokinni umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. sem mér finnst eðlilegt að fjalli um mál af þessu tagi.