02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7195 í B-deild Alþingistíðinda. (5242)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér liggur frammi frv. um að samþykkja viðskiptabann á Suður-Afríku. Það fer ekki milli mála að mannréttindi eru fótum troðin í Suður-Afríku. Þau eru með þeim hætti að við hér á vesturhveli jarðar getum ekki samþykkt þá stefnu. Við höfum oft áður fjallað um þessi mál á Alþingi m.a. og hafa verið skiptar skoðanir um þessi mál. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að líta til fleiri ríkja ef þessi tillaga er samþykkt og minni á fjölda ríkja þar sem mannréttindi eru fótum troðin en ætla ekki að tíunda sérstaklega neitt af þeim ríkjum. En við sum þeirra eigum við veruleg viðskipti og það mundi vera allt önnur staða ef við settum viðskiptabann á þau ríki en miðað við þau litlu viðskipti sem eru við Suður-Afríku.

Við meðferð þessa máls hefur vakið athygli að þetta hefur verið keyrt með offorsi í gegn og ekki leitað umsagnar eins og venja er um mörg frv. Það vekur upp ákveðnar spurningar vegna hvers það er. Það vekur líka athygli að Sjálfstfl. hefur vikið burt frá sinni stefnu að setja ekki viðskiptabann á eina þjóð frekar en aðra. Í þessu sambandi langar mig að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í umræður sem urðu í Sþ. 1985 um kynþáttastefnu í Suður-Afríku, en þá tók hæstv. þáverandi utanrrh. Geir Hallgrímsson til máls og sagði m.a.:

„Viðskiptabann fárra og smárra þjóða hefur lítið gildi þar sem viðskiptin færast einfaldlega annað og séu umtalsverðir hagsmunir í húfi bitnar slíkt viðskiptabann fárra þjóða aðeins á þeim en ekki Suður-Afríku. Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa norrænu ríkin nú ákveðið að auka og efla þær ráðstafanir sem þær gripu til á árinu 1978 og hvetja um leið aðrar þjóðir til að gera svipaðar ráðstafanir í þeirri von að nægilega margar og öflugar viðskiptaþjóðir fari að dæmi Norðurlandanna og skapi þannig þann aukna alþjóðlega þrýsting á stjórnvöld í Suður-Afríku sem leiði til þess að hið hróplega misrétti kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar verði upprætt með friðsamlegum hætti.“

Þá segir hæstv. fyrrverandi utanrrh. enn fremur: „Við skulum vera raunsæir, en hins vegar ekki láta okkar hlut eftir liggja heldur erum við nú sem áður reiðubúnir að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum og hvetjum til þeirra. E.t.v. skiptir mestu máli að við látum óhikað rödd okkar heyrast og ég vil því ljúka svari mínu með því að lesa upp það sem ég sagði um mál þetta á yfirstandandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir tæpum mánuði, hinn 24. sept.:

„Eitt vandamálanna í brennidepli er hin illræmda kynþáttaaðskilnaðarstefna Suður-Afríku, apartheid, sem rekin er af mikilli hörku af þarlendum stjórnvöldum. Stefna ríkisstjórnar minnar og annarra Norðurlanda til þessa máls er vel kunn þingheimi. Allt frá árinu 1978 hafa þessi lönd staðið að sameiginlegum aðgerðum gegn hinni ómannúðlegu, grimmu og úreltu apartheid-stefnu. Önnur ríki hafa einnig gripið til svipaðra aðgerða sem auka munu þann þrýsting er við vonum að muni fyrr eða síðar leiða til þess að ríkisstjórn Suður-Afríku hverfi frá þessari illræmdu stefnu sinni. Er við beinum athygli okkar og aðgerðum gegn stjórnvöldum Suður-Afríku skulum við samt ekki missa sjónar á því mikla óréttlæti sem viðgengst í mörgum öðrum ríkjum heims. Við verðum að vinna að úrbótum hvarvetna þar sem óréttlæti er enn við lýði og mannréttindi fótum troðin.

Ég vil hér með lýsa yfir eindregnum stuðningi ríkisstjórnar minnar og íslensku þjóðarinnar við látlausa viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að efla og treysta mannréttindi hvarvetna í heiminum. Mannréttindi, lýðræði og frelsi eru samofin forsenda þess að takast megi að koma á varanlegum heimsfriði.“"

Þá segir hæstv. fyrrverandi utanrrh. Geir Hallgrímsson enn fremur: „Þá vil ég aðeins segja það í sambandi við bann á innflutningi vara frá Suður-Afríku eða útflutningi vara til Suður-Afríku að það er auðvitað á valdi neytandans hér á Íslandi, kaupandans, að sneiða hjá kaupum á vörum frá Suður-Afríku sem og varðandi útflytjendur að neita sér um þann markað sem þar er að finna.“

Öll þessi rök get ég tekið undir. Ég get enn fremur tekið undir það sem hv. 17. þm. Reykv. sagði í máli sínu. En ég vil jafnframt undirstrika að það er mjög mikilvægt að við tökum ekki afstöðu til eins ríkis. Við verðum að taka þá miklu víðfeðmari afstöðu og sýna í verki að við meinum eitthvað með þessu. Það að setja viðskiptabann á eitt ríki hlýtur að vera mjög í ósamræmi við okkar málflutning ef við gerum ekki slíkt hið sama við önnur ríki sem við höfum viðskipti við.

Ég vek líka athygli á því að stórþjóðir heimsins hafa ekki sett viðskiptabann á Suður-Afríku. (SJS: Þetta er rangt.) Hvað kallar þú stórþjóðir? (SJS: Bandaríkin.) Hafa þeir sett viðskiptabann, en versla við þá, kannski? Það er kannski rétt. En það er hins vegar mjög mikilvægt að við setjum þá í okkar verki miklu öflugri aðgerð í framkvæmd eins og formaður Borgarafl. hefur tekið hér fram. Það er það að slíta stjórnmálasambandi við Suður-Afríku og vera ekki með neinar vífilengjur um það. Ég get tekið undir það sem hann sagði, að við eigum að ganga skrefið til fulls en ekki vera með þennan hálfkæring og slíta þá stjórnmálasambandinu við Suður-Afríku. Þá sýnum við í rauninni í verki að við meinum eitthvað með þessu. Ég vona að við getum þá staðið að því að gera slíkt og jafnframt að við tökum þá á öðrum ríkjum sem hafa brotið mannréttindi með svipuðum hætti þannig að við séum ekki með einhverja yfirborðsmennsku í þinginu.