02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7207 í B-deild Alþingistíðinda. (5248)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða hjá hv. 5. þm. Reykv. Eitt aðalefnið í ræðu hans var einhver skáldsaga sem kom út fyrir jólin og er kennd við Alþfl. og ekki nokkur maður tekur mark á nema hugsanlega þessi hv. þm. hafi glapist til þess. Mér finnst þetta nokkuð langt fyrir utan umræðuefnið.

Í annan stað gerði hann langt mál úr því að það væri slæmt mál að vera það sem hann nefndi „aftaníossi kratanna“ á Norðurlöndum. Nú eru að vísu ekki bara krataríkisstjórnir á Norðurlöndum. Þær eru frá ýmsum flokkum. En þýðir þetta að Íslendingar megi aldrei hafa sömu skoðanir og Norðurlandaþjóðirnar? Ef Norðurlandaþjóðirnar skyldu vera búnar að koma sér upp skoðun eða stefnu í einhverju tilteknu máli þá sé það á máli þingmannsins og að hans skoðun ljótt, óviðeigandi og komi ekki til greina að Íslendingar hafi sömu skoðun? Þá værum við auðvitað orðnir aftaníossar samkvæmt hans skilgreiningu.

Ég veit ekki betur en við höfum tekið upp ýmislegt í íslensku þjóðfélagi eftir hinum Norðurlöndunum sem ég hef skilið svo að hv. þm. sé stuðningsmaður við. Við styðjum aldraða, við höfum almannatryggingakerfi, við höfum atvinnuleysistryggingakerfi. Hverjir skyldu hafa rutt brautina varðandi þessi efni? Erum við ekki bara aftaníossar að láta okkur málefni þessa fólks sérstaklega varða og vera með svipaða löggjöf og Norðurlöndin að því er þetta varðar?

Nei takk, hv. þm. og hv. deild. Ég ætla okkur að fá að halda sjálfstæði okkar og við getum tekið afstöðu eins og okkur lystir, alveg án tillits til þess hvaða afstöðu aðrir hafa tekið. Og þegar við veljum að hafa sömu skoðun og bræðraþjóðir okkar á Norðurlöndum, hvort heldur kratarnir eða íhaldið eða hvað það nú er sem er þar við stjórn, þá gerum við það. Og við sleppum því þegar okkur finnst skynsamlegt að sleppa því. Það ætti í rauninni að vera óþarfi að standa í málflutningi af þessu tagi.

Hv. þm. Albert Guðmundsson sagði: Nei, það er sko enginn tvískinnungur í málflutningi Borgarafl., ekki nokkur tvískinnungur. Lykilafstaða Borgarafl. er samkvæmt hans eigin orðum sú að ef við á annað borð gerum eitthvað eigum við að gera meira. Hvað þýðir þetta? Það er spurningin um hvort það eigi eitthvað að gera. Hann setur það á oddinn. Hann setur spurningarmerki.við það hvort eitthvað eigi að gera. Hann velur að varpa því fram fyrst. Og ef einhverjir vilja gera eitthvað eigi það að vera öðruvísi.

Þetta er vitaskuld tvískinnungur í málflutningi. Annaðhvort vill þingmaðurinn að eitthvað sé gert og getur síðan haft skoðun á því hvað það eigi að vera eða hvað það eigi að vera mikið eða hvernig það eigi að vera ellegar hann vill að ekkert sé gert. En hann getur ekki haft uppi báðar skoðanirnar í einu án þess að það verði talinn tvískinnungur.

Hv. þm. leyfði sér líka áðan að snúa út úr málflutningi mínum þegar ég var að tala um að við hefðum verið nískir og varfærnir að því er varðaði viðskiptabann og ættum ekki að gera það víðtækara en nauðsyn krefur. Þá var ég að tala um þann hluta málflutnings sem hér hafði komið fram um það að viðskiptabann ætti að taka til fleiri þjóða. En annað veifið hafði hv. þm. uppi þann málflutning að það væri ástæða til þess að hann næði til fleiri þjóða. Ég hef lýst skoðun minni á því og ég vona að það sé skoðun meiri hluta þingsins að hér sé um mjög sértækt mál að ræða. Í hinu orðinu kom það reyndar einmitt fram hjá hv. þm. að það væru alveg sérstaklega mikil mannréttindabrot og illræmd stefna sem stjórnvöld í Suður-Afríku hafa í frammi og fylgja. Það er rétt. Og það er þess vegna sem þessi tillaga er komin fram, þetta frv. til laga.

Það getur vel skeð að það sé ástæða til að grípa til fleiri aðgerða. Ég held samt ekki á þessu stigi að það skipti neinu sérstöku máli með lendingarleyfi á Íslandi eða varðandi skráningu á gjaldeyri Suður-Afríku, eins og hv. þm. gerði hér að umræðuefni. En ég er vissulega reiðubúinn að skoða frekari aðgerðir varðandi þetta eina land. Það getur verið gott að eiga þau kort uppi í erminni og við skulum ræða það í bróðerni og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvenær rétt sé að grípa til slíkra aðgerða.