10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

64. mál, Þjóðhagsstofnun

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þessa frv., sem hér er til umræðu og hv. 2. þm. Austurl. hefur mælt fyrir, vil ég segja að það er um margt æskilegt að fá sundurgreindar upplýsingar, eins og hér er rætt um, eftir kjördæmum. Frv. gerir ráð fyrir að slíkar upplýsingar yrðu sundurgreindar að því er varðar útgjöld ríkissjóðs, landsframleiðslu og gjaldeyrisöflun, innlán og útlán innlánsstofnana.

Vafalaust er það svo að tæknilega er misjafnlega auðvelt að afla þessara upplýsinga eða sundurgreina þær upplýsingar sem fyrir hendi eru. Hér kemur vafalaust til vandasamt mat um það hvernig framleiðsluverðmætin verða til og mat um á hvaða stigi verðmætin verða. Við vitum að keðja framleiðslunnar frá hráefnisöflun til þess að verðmæti fást greidd á erlendum mörkuðum er löng og vafalaust þarf að leysa úr ýmsum flóknum tæknilegum álitaefnum að þessu leyti. En það girðir auðvitað ekki fyrir að æskilegt er að fá upplýsingar af þessu tagi. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir þá nefnd sem fær þetta til meðferðar að fá tæknilega umsögn um þessa möguleika og hvernig og á hvaða forsendum á að meta skiptingu milli einstakra framleiðsluþátta. Jafnframt held ég að það hljóti að koma til athugunar hvort rétt sé að fela Þjóðhagsstofnun þetta hlutverk þar sem hugsanlega þarf að koma til vandasamt mat. Ég varpa því hér fram til umhugsunar að það gæti eins komið til álita að fela Byggðastofnun að framkvæma sundurgreiningu á slíkum upplýsingum. Alltént er ljóst að ef þetta á að gera þá þarf til þess sérstakan og aukinn mannafla og að sjálfsögðu þarf að huga að kostnaðarþáttum slíks máls í meðferð frv. í hv. nefnd.