03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7248 í B-deild Alþingistíðinda. (5288)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Eftir umræðurnar um vantrauststillöguna á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, sem fram fór sl. fimmtudag, hafa nokkrir aðilar mælst til þess að ég vitnaði beint í þá úttekt á starfsáætlun ríkisstjórnarinnar sem við í Samtökum jafnréttis og félagshyggju afhentum formanni Framsfl. og formanni þingflokks Framsfl. er þeir komu til fundar við okkur á Akureyri 1. okt. sl. Þessi umfjöllun okkar um stjórnarsáttmálann var 12 vélritaðar síður og urðu miklar umræður um mörg atriði sáttmálans. Lyktir urðu þær að formennirnir voru sammála okkur í öllum aðalatriðum. En þeir sögðu að þeir gætu ekki unnið að framgangi þessara mála á meðan þeir væru í samstarfi við þá flokka sem stæðu að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, sem hlýtur að þýða að þeir taka ráðherrastólana fram yfir stefnu sína og kosningaloforð.

Ég vitna hér beint í skýrslu okkar, með leyfi forseta:

„Í landinu starfa fyrirferðarmiklir verðbréfasalar sem virðast vera frjálsir og óháðir og eru starfshættir þeirra umdeilanlegir. Þeir bjóða fjármagnseigendum í landinu hærri vexti en bankar og sparisjóðir geta gert, enda streymir fjármagnið inn á þennan markað. Þessir aðilar hafa enga bindiskyldu eins og aðrar lánastofnanir hafa. Manna á meðal er þessi viðskiptamáti kallaður „grái markaðurinn“, enda eru viðskipti við þessa aðila ekki áhættulaus, hvorki fyrir þá sem leggja fjármagnið til né þá sem taka það að láni.

Bankar og sparisjóðir hafa neyðst til þess að hækka vextina með stuttu millibili til þess að reyna að draga úr útstreyminu úr þeirra stofnunum. Enn fremur býður ríkisstjórnin mjög háa vexti á spariskírteinum ríkisins. Því eru vextir í raun á uppboði í dag. Þessi þróun leiðir það af sér að almenningur hefur ekki trú á að verðbólgan sé í rénun, nema síður væri.“

Síðan segir: „Þessi umfjöllun og athugasemdir okkar við starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar leiðir, að okkar mati, í ljós að það einstaklingsfrelsi sem ríkisstjórnin stefnir að í grundvallarmarkmiðum sínum sé í raun frelsi þeim til handa sem sitja að fjármagni og völdum og leiðir ekki til aukins jafnréttis, heldur þvert á móti. Þessi skilgreining á einstaklingsfrelsi gengur þvert á þá skilgreiningu samtakanna að raunverulegt frelsi einstaklinganna felist í því að geta tekið ábyrgð á eigin lífi og samfélaginu.

Okkur sýnist að það gangi eins og rauður þráður í gegnum hvert atriði af öðru í starfsáætluninni að þeim sem ráða fjármagninu sé ætlað að della og drottna í okkar þjóðfélagi, ef eftir þessum stjórnarsáttmála verður farið. Verði ríkisbankarnir gerðir að hlutafélagsbönkum, fólksflóttinn til höfuðborgarsvæðisins látinn halda áfram án aðgerða og aðstöðumunur vegna búsetu ekki minnkaður þá hefur einstaklingsfrelsið brugðið sér í líki frjálshyggjunnar, ýtt enn frekar undir misréttið og það geta Samtök jafnréttis og félagshyggju ekki stutt.“

Þegar við fórum yfir þennan stjórnarsáttmála lásum við út úr honum þá helstefnu sem blasir nú við augum manna og sumir stjórnarþingmenn eru farnir að tala um í heyranda hljóði, þó flokkshlekkirnir haldi enn í atkvæðagreiðslum, sbr. vantraustið.

Við sögðum að það yrði að finna leið til að draga úr mismun á framfærslukostnaði vegna búsetu, að Byggðasjóður verði efldur svo að hann geti gegnt hlutverki sínu. Það kemur í ljós nú að það mun vanta 400–500 milljónir til að hann hafi möguleika til þess.

Við lögðum ríka áherslu á að lægstu launin yrðu hækkuð og að þeir sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1981 þar til nýju húsnæðislögin tóku gildi 1986 fái svipaða lánafyrirgreiðslu og þeir sem nú byggja eða kaupa að því marki sem þeir þurfa þess skuldanna vegna. Svo talar hæstv. bankamálaráðherra um að ekki sé hægt með valdboði að lækka vexti. En hvað er þetta annað en valdboð? Vaxtaokrið sem er að stöðva framleiðsluna leiðir svo af sér gengisfellingu og aukna verðbólgu.

Grái fjármagnsmarkaðurinn virðist vera sérstakt eftirlæti þessarar ríkisstjórnar og hefur þar engin breyting orðið á frá því að hæstv. núv. fjmrh. tók við því embætti af hæstv. forsrh. Grái markaðurinn hefur engar skyldur, hvorki bindiskyldur né skyldur við atvinnulífið á nokkurn hátt. Þar fer fram frjálst okur án nokkurra takmarkana af hendi hins opinbera.

Þó hlutur Seðlabankans hafi ekki verið burðugur stendur í skýrslu frá honum, dags. á Þorláksmessu sl., með leyfi forseta, að grái markaðurinn og boð ríkisins upp í 41,3% ársávöxtun hafi orðið til að pressa upp vextina. Seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, sagði í sjónvarpsþætti nýlega að á fjármagnskostnaðinum hefði orðið bylting. Mér skildist á honum að þessi bylting hefði leitt til góðs að hans mati.

Já, það hefur orðið bylting. En til hvers hefur hún leitt? Vextirnir hafa verið hækkaðir með valdboði. Þess vegna er svo komið að mikill hluti atvinnurekstrarins í landinu, en þó sérstaklega útflutningsframleiðslan, stendur mjög illa. Stór hluti hennar er gjaldþrota vegna þessa mikla fjármagnskostnaðar og er að stöðvast ef ekki verður breytt um stefnu.

Mér fannst bréf, sem ég er hér með í hendi og barst mér í gær, gott sýnishorn af því ástandi sem helstefnan, þessi bylting í fjármagnsmarkaði, hefur leitt af sér. Ég les það hér, með leyfi forseta:

„Húsavík, 25/4 1988.

Málefni: Fjárhagsvandi fyrirtækja og horfur í atvinnumálum á Húsavík.

Að undanförnu hefur afkoma fyrirtækja hér á Húsavík farið svo ört versnandi að aðstæður heima fyrir verða ekki lengur einum um kennt. Kveður svo rammt að þessu að til stöðvunar stefnir með stórfelldu atvinnuleysi og fólksflótta ef ekki verður að gert. Skuldir fyrirtækja hlaðast upp við bæjarsjóð og veldur því að greiðslustaða hans er orðin óviðunandi. Það sem þarf til að ráða bót á þessari alvarlegu stöðu er stjórnvaldsaðgerðir, endurskipulagning og samstaða.

Bæjarstjórn Húsavíkur óskar hér með eftir fundi hér á Húsavík með þér og öðrum þingmönnum kjördæmis okkar svo fljótt sem verða má til þess að ræða vandamál okkar og sameinast um lausnir þeirra.

Leita ég til þín sem 1. þingmanns kjördæmisins um forgöngu fyrir því að koma þessum fundi á.“

Þetta bréf er undirskrifað af bæjarstjóranum á Húsavík, Bjarna Þór Einarssyni og er stílað til Guðmundar Bjarnasonar, hæstv. heilbrrh., og sent öllum þingmönnum Norðurl. e. Mörg fleiri bréf væri hægt að lesa upp hér.

Fjármagnið sýgur framleiðsluna

og fátækan almenning.

Skattinn fræga á matinn muna

margir sem kjósa á þing.

Hvernig er svo komið fyrir fjölda heimila í landinu? Heimila sem t.d. hafa verið að reyna að komast yfir íbúð á síðustu árum. Þó að þessar fjölskyldur leggi saman nótt við dag hafa þær ekki undan að borga af lánum sem hvíla á íbúðum þeirra. Þó sumir hafi með þeim hætti getað borgað tilskildar greiðslur, þ.e. með algjörum þrældómi, hækka eftirstöðvarnar með ógnarhraða þar sem lánskjaravísitalan ræður ferðinni — vísitala sem einhverjir hagfræðingar hafa upp fundið og er ekki á nokkurn hátt í rökréttu samhengi við aðrar aðstæður í okkar þjóðfélagi.

Hvaða rök eru fyrir því að lánskjaravísitala hækki þó að t.d. innkaup á kaffi hækki? Ef lánskjaravísitala á rétt á sér við okkar aðstæður á auðvitað að miða hana við það framleiðsluverðmæti sem þjóðin aflar á hverjum tíma.

En til hvers hefur þessi lánskjaravísitala og vaxtaokur leitt? Fjölskyldur hafa misst íbúðir sínar í verulegum mæli og enn fleiri horfa nú upp á að missa þær. Margt af þessu fólki hefur gefist upp í lífsbaráttunni með svo skelfilegum afleiðingum að það er blátt áfram feimnismál að ræða um slíkt. Fjölskyldur tvístrast. Og hvaða áhrif heldur fólk að allt þetta ástand hafi á þroska og uppeldi barna?

Hér er um að ræða mjög margar fjölskyldur sem hafa orðið að ganga í gegnum þessa reynslu. Fólksflutningar frá landsbyggðinni hafa aldrei verið eins miklir og nú og að öllu óbreyttu eiga þeir eftir að aukast enn. En hver á að fæða borgríkið ef landsbyggðin fer að mestu leyti í eyði?

Aldrei hefur orðið eins mikil eignatilfærsla í okkar þjóðfélagi og nú er að gerast. En verst er þó landbúnaðurinn leikinn þar sem eignaupptakan er mest og víða blasir við auðn. Hvað eru mannréttindabrot, ef þessi stefna stjórnvalda flokkast ekki undir það?

Góðir landsmenn. Það er rétt hjá Guðna Ágústssyni, þetta er helstefna. Það er sýnilegt að frá slíkri stefnu verður ekki vikið nema þjóðin opni augun og sjái hvert stefnir með okkur öll, ef við látum okrara og víxlara kúga þorra þjóðarinnar eins og nú er. Fólkið í landinu verður að sameinast um að taka þann rétt sem það á kröfu til. Þingmenn frá stjórnarflokkunum hafa hér á undan rætt verulega um jafnrétti, um fjölskylduna. En þetta eru nú þær aðstæður sem fólkið í landinu horfir upp á. Þetta er þungur dómur yfir þessari ríkisstjórn.

Því segi ég hér og nú: Þau samtök sem ég tala hér fyrir eru reiðubúin til að fylkja liði með hverjum þeim sem vill leggja út í baráttu til að jafna kjörin og lífsaðstöðuna í þjóðfélaginu. Okkur er sagt að það séu aðeins fjórar þjóðir í heiminum sem séu ríkari en við. Sé þetta rétt, þá sjáum við hvernig skipt er. Hverjir eru tilbúnir að berjast fyrir réttlæti? Þeir láti til sín heyra.