03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7266 í B-deild Alþingistíðinda. (5297)

Almennar stjórnmálaumræður

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Meginstefna ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum og stíga ný skref í frjálsræðisátt. Frá því að þessi stefna var mörkuð fyrir nokkrum árum hefur verulega dregið úr verðbólgu og kaupmáttur hefur aukist meira hér á landi en í nokkru öðru landi í nágrenni við okkur.

Á síðari hluta sl. árs greip ríkisstjórnin til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir vaxandi verðbólgu með því að draga úr þenslu og stuðla að meira jafnvægi. Þetta var gert með því að samþykkja hallalaus fjárlög, draga úr erlendum lántökum ríkissjóðs, leggja skatta á erlendar lántökur fyrirtækja og einkaaðila og setja reglur um fjármögnun kaupleigufyrirtækja. Árangurinn hefur þegar skilað sér í minni verðbólgu, minni þenslu og minni fjárfestingu. Til að koma í veg fyrir hallarekstur í útflutningsframleiðslunni snemma á þessu ári var ákveðið að fella gengið innan ákveðinna marka. Það var ákveðið að falla frá fyrirhuguðum launaskatti á útflutningsfyrirtækin. Allt var þetta gert sem liðir í markvissum aðhaldsaðgerðum til að viðhalda jafnvægi og koma í veg fyrir verðbólgu.

Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hefur lýst því yfir að hún telji að halda eigi gengi íslensku krónunnar sem stöðugustu. Þessi stefna hefur af ýmsum verið kölluð fastgengisstefna. Hún felst í því að stjórnvöld segja fyrir fram hvaða reglur gildi um gengið.

Þannig verða allar áætlanir um rekstur bæði fyrirtækja og heimila raunhæfari en ella. Almenningur og fyrirtæki geta tekið ákvarðanir sínar í trausti stöðugleikans og borið ábyrgð á þeim.

Að undanförnu hafa ýmsir atvinnurekendur í útflutningsgreinum krafist breytinga á þessari stefnu og óskað eftir gengisfellingu til að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækja sinna. Aðalástæðan fyrir þessum kröfum er sú að innlendar kostnaðarhækkanir, einkum launagreiðslur, hafa orðið meiri en verðmætasköpun fyrirtækjanna ræður við. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, ekki síst forustumenn Alþb., m.a. Ólafur Ragnar Grímsson og sá sem talaði hér fyrir skömmu, Skúli Alexandersson, hafa tekið undir sum þessi sjónarmið atvinnurekenda og hamrað á því að fastgengispostularnir séu að setja framleiðslufyrirtækin á hausinn.

Það er full ástæða til að skoða þessi mál ögn nánar. Hvað þýðir gengisfelling í raun? Gengisfelling þýðir ósköp einfaldlega að verðmæti íslensku krónunnar minnkar, fleiri krónur fást fyrir útflutningsafurðir okkar, kaupmáttur launa verður minni, fjármagnið flyst frá fólki til fyrirtækja. Gengisfelling skapar ekki ný verðmæti heldur færir þau aðeins til. Ef þeir sem bera skarðan hlut frá borði ætla síðan að ná aftur sínum skerfi vex rekstrarkostnaður fyrirtækjanna á nýjan leik og nýtt gengislækkunartilefni liggur á borðinu. Afleiðingarnar eru óðaverðbólga og ringulreið í efnahagsmálum sem íslenska þjóðin þekkir frá fyrri tíð, ekki síst í stjórnartíð þeirra sem síðast töluðu hér á undan mér.

Þegar atvinnurekendur biðja um gengisfellingu til að bæta rekstrarskilyrðin er ljóst að þeir ætlast ekki til að launin hækki að sama skapi. Þegar stjórnarandstaðan segir að fastgengisstefnan sé gengin sér til húðar fást engin svör um hvort hún sé tilbúin til að verja hagstæð áhrif gengisfellingar fyrir fyrirtækin með því að rýra kaupmátt launafólks. Í trausti þess að landsmenn sjái ekki samhengi þessara hluta hamra stjórnarandstæðingar á því annars vegar að fastgengisstefnan sé að setja fyrirtækin á hausinn og hins vegar telja þeir að auka megi kaupmáttinn. En fólkið veit að þetta gengur ekki saman. Þjóðin sér í gegnum slíkan blekkingarvef. Það verður að gera þá lágmarkskröfu til stjórnarandstöðunnar að hún svari þeirri spurningu hvort hún sé tilbúin til að rýra kaupmátt launa og koma þannig til móts við óskir atvinnurekenda. Annars tekur enginn mark á málflutningi hennar.

Lífskjör þjóðarinnar markast af þeirri verðmætasköpun sem verður til í atvinnulífinu. Til skamms tíma gekk okkur allt í haginn. Afli jókst, verð á erlendum mörkuðum hækkaði og olía lækkaði. Allt þetta lyfti lífskjörunum og velsældin óx. Þessi jákvæða þróun hefur stöðvast um sinn og nokkuð hefur slegið í bakseglin. Við slík versnandi skilyrði verðum við að sýna festu og ráðdeild. Við verðum að sætta okkur við minna og þeir sem fengu mest í sinn hlut í góðærinu verða að gefa meira eftir en hinir sem verr eru settir.

Nýjum áföllum í útflutningsgreinum verður auðvitað að mæta með viðeigandi hætti, en umfram allt verðum við þó að koma í veg fyrir óðaverðbólgu sem ræðst fyrst og fremst á þá sem lökust hafa kjörin.

Aðstöðumunur fólks eftir búsetu hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Í því sambandi hafa augu manna m.a. beinst að mismunandi húshitunarkostnaði. Til að draga úr þessum mun hefur ríkisstjórnin og stjórn Landsvirkjunar beitt sér fyrir lækkun rafhitunarkostnaðar heimilanna. Hitunarkostnaður hefur aldrei verið minni en nú og munurinn á húshitunarkostnaði milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hefur ekki áður verið jafnlítill.

Skilningur þjóðarinnar á umhverfisvernd hefur mjög vaxið á undanförnum árum. Sl. haust skipaði Þorsteinn Pálsson forsrh. nefnd til að gera tillögur um samræmda yfirstjórn umhverfismála. Síðar var nefndinni einnig falið að gera tillögur um sérstakt átak í umhverfismálum. Nefndin hefur nú skilað tillögum sínum þar sem m.a. er lagt til að samgrn. fari með yfirstjórn þessara mála og verði stofnuð sérstök umhverfismálaskrifstofa innan þess. Þessar tillögur eru nú til skoðunar í þingflokkum stjórnarflokkanna. Á vegum iðnrn. er unnið að tillögum um endurvinnslu úrgangs. Þá verður könnuð í sumar notkun ósoneyðandi efna og hvernig draga megi úr henni. Sjálfstfl. hefur með þessum aðgerðum haft forgöngu um að gert verði verulegt átak í umhverfisverndarmálum.

Í umræðunum hér í dag hafa stjórnarandstæðingar málað ástandið dökkum litum og reynt að koma höggi á ríkisstjórnina og stefnu hennar. En hverjar eru tillögur stjórnarandstöðunnar? Kannast einhver áheyrenda við að hafa heyrt þær? Nei, það er ekki von. Ræðumenn stjórnarandstæðinga hafa gagnrýnt en ekki komið fram með neinar lausnir. Það er því ástæða til að spyrja ykkur, sem hafið hlýtt á þessar umræður, ekki síst síðasta ræðumanninn, Svavar Gestsson: Er líklegt að þeir leysi úr málum sem alls staðar sjá svartnættið en hafa engar tillögur til úrbóta? Er líklegt að þeir njóti trausts nú sem ekki þorðu að axla ábyrgð og ganga til stjórnarsamstarfs eftir síðustu kosningar? Er líklegt að þeir sameini þjóðina sem mest ala á úlfúð og sundurlyndi milli stétta, atvinnugreina og byggðarlaga? Er líklegt að þeir sýni ráðdeild sem heimta meiri ríkisútgjöld án þess að benda á hvernig afla skuli tekna á móti? Ég læt ykkur eftir, hlustendum, að svara þessum spurningum.

Þótt ekki sé búist við bættum lífskjörum hér á landi á næstunni er engin ástæða til að leggja árar í bát og gefast upp. Við getum lagað stöðu okkar með ýmsum hætti og undirbúið nýja sókn til aukinnar verðmætasköpunar og betri lífskjara. Við getum undirbúið samvinnu við erlenda aðila um orkukaup til stóriðju eins og nú er unnið að. Við getum laðað til okkar áhættufjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu. Við getum dregið úr útgjaldafrekum ríkisafskiptum og eflt einkaframtakið. Við getum aukið framleiðni með samvinnu atvinnurekenda og launþega. Og við getum undirbúið útflutningsgreinarnar til að taka þátt í markaðssókn á sameinuðum markaði í Vestur-Evrópu þegar hún verður ein viðskiptaheild. Allt þetta og margt fleira getum við gert til að búa í haginn fyrir framtíðina ef við stöndum og störfum saman af fyrirhyggju og bjartsýni.

Góðir áheyrendur. Sjálfstfl. mun ekki hopa af hólmi þótt móti blási um hríð. Við tökum þátt í stjórnarsamstarfinu af fullum hellindum hér eftir sem hingað til. Í starfi okkar leggjum við áherslu á frjálst framtak og ábyrgar athafnir. Við teljum það meginverkefni að koma í veg fyrir upplausn og sundurlyndi með því að efla samstöðu þjóðarinnar og skilning á framtíðarmöguleikum hennar sem nýta má ef rétt er á haldið. Við höfum næg verkefni, við höfum næg viðfangsefni og við erum staðráðnir í að vinna úr þeim þjóðinni til heilla.