11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál snýst ekki um hvort við stjórnarandstæðingar eða hv. þingdeildarmenn yfirleitt söknum þess svo óskaplega að fá ekki inn í deildina fleiri stjfrv. af því að við búumst við því að þau verði svo góð eða hvort við séum fegnir því að þau komi ekki vegna þess að við óttumst að þau verði slæm. Það sem liggur einfaldlega fyrir hér er það að ýmist eru þegar fyrirliggjandi til afgreiðslu eða væntanleg mörg mjög stór mál. Auk þess liggur fyrir langur listi frá hæstv. ríkisstjórn um frv. sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að fá afgreidd á þessu þingi, þar af allmörg fyrir áramót.

Í lista sem var fskj. með stefnuræðu forsrh. í október sl. eru þessi mál fram talin. Þar kemur til að mynda fram að hæstv. dómsmrh. ætlar sér að leggja fyrir ekki færri en 20 frv. á yfirstandandi þingi, þar af níu fyrir áramót og fá þau afgreidd fyrir áramót. Fyrsta frv. var dreift á borð hv. þm. við mikinn fögnuð fyrir nokkrum mínútum, fyrsta frv. af níu sem þessi hæstv. ráðherra ætlar sér að fá afgreidd fyrir árámót. Hæstv. viðskrh., sem er nú erlendis eins og útvarpshlustendur vita, ætlar sér að fá afgreidd fimm frv. fyrir áramót og er hann þá væntanlega á leiðinni heim einhvern tímann á næstunni. Hæstv. fjmrh. er hér með 18 frv. á skrá. Tvö eru komin fram, þau sem óhjákvæmilega þurfa að vera það eðli málsins samkvæmt, fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga.

Síðan liggur það fyrir, virðulegur forseti, og ég tel ástæðu að vekja sérstaka athygli þingdeildarmanna og virðulegs forseta á því, að stórmál eru væntanleg inn í þingið á næstunni. Þau hljóta að afgreiðast fyrir áramót. Þetta eru frv. um fiskveiðistjórnun og frv. um staðgreiðslukerfi skatta. Það er óhjákvæmilegt að þau mál verði gerð að lögum vegna þess einfaldlega að málin standa þannig. Þetta eru mál sem liggur fyrir að verður mikil umræða um.

Fyrir er í deildinni t.d. mál hæstv. félmrh. um breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem þegar hefur kostað langa umræðu og mun ábyggilega gera það áfram. Ekki síst þurfa hv. stjórnarliðar að skiptast ofurlítið á skoðunum um það.

Hér er fyrst og fremst um að ræða verkstjórnaratriði. Það eru ýmis mál á þessum lista sem eru þess eðlis að ekki er ástæða til að ætla að um þau þurfi að verða mikill pólitískur ágreiningur. En þau þurfa tíma og meðferð á virðulegu Alþingi engu að síður. Þar getur verið um að ræða tæknileg atriði. Þar er um að ræða jafnvel endurskoðun laga eða endurnýjun laga sem renna út o.s.frv. Það er þeim mun bagalegra að nota þá ekki tímann til að afgreiða slík mál á meðan beðið er eftir hinum stóru.

Ég vek athygli á því einnig í sambandi við breytingar á fundatíma Alþingis, sem nú er verið að reyna í fyrstu viku, að þær breytingar koma niður á fundatíma nefnda þar sem fimmtudagsmorgunn fellur nú í raun og veru niður sem nothæfur formiðdagur til nefndarstarfa. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. verði spenntir fyrir því að sitja nefndarfundi á morgnana þegar þingfundir eiga að hefjast kl. 10 að morgni. Væntanlega veitir mönnum þá ekki af þeim stundum til að undirbúa sig undir væntanlegan þingdag. Þar með er í raun einum morgninum færra fyrir nefndarfundi þannig að hv. formenn nefnda ættu þá þeim mun frekar að reyna að nota þann tíma sem laus er.

Ég vil svo segja, virðulegur forseti, að hér voru afgreiddar fyrir líklega tveimur árum breytingar á lögum um fundasköp Alþingis. Í tengslum við þessa lagabreytingu varð hér mikil umræða um hvernig ætti að reyna að koma í veg fyrir þá samþjöppun mála sem ævinlega hefur leitt til annríkis og jafnvel öngþveitis á síðustu þingdögum fyrir jól og síðustu þingdögum að vori. Þá var gerð að því gangskör að reyna að koma í veg fyrir þetta með bættum vinnubrögðum, sérstaklega í ríkisstjórn. Þá voru settir inn í þessi þingsköp frestir til að fyrirbyggja að mál væru lögð fram á síðustu stundu o.s.frv. Ég sé ekki annað en það þurfi að taka þessa umræðu alla saman upp á nýtt eða a.m.k. að taka hæstv. ríkisstjórn í kennslustund og skýra henni frá því hvað þarna var rætt og til hvers það átti að leiða.

Síðan er það að lokum tvennt, virðulegur forseti, sem ég vil nefna. Hið fyrra er að fjárlög eru til afgreiðslu á virðulegu Alþingi. Mér sýnist alveg nauðsynlegt, þrátt fyrir það að ekki viljum við nú auka útgjöld ríkisins meira en óhjákvæmilegt er, að við ræðum við meðferð fjárlaga hvort ekki þurfi að bæta við tveimur stöðugildum hjá hinu opinbera, þ.e. í fyrra lagi embætti verkstjóra í ríkisstjórn og svo er hitt löngu ljóst, virðulegur forseti, að það vantar þar embætti sáttasemjara.

Svo vil ég enn bæta við vegna þess að hér hefur borið á góma frv. sem hæstv. utanrrh. flutti um útflutningsleyfi og var til umræðu í þinginu fyrir nokkrum dögum. Þó að það sé nokkuð annað mál vil ég nota þetta tækifæri, herra forseti, til að mótmæla formlega því að hæstv. viðskrh. skuli hafa beitt því valdi sem hann enn hefur á síðustu dögum til að úthluta útflutningsleyfum án þess að skýra Alþingi frá því að slíkt væri væntanlegt þegar þetta mál var til umræðu á Alþingi. (Forseti: Ég vek athygli ræðumanns á því að hér eru eingöngu þingsköp til umræðu.)