05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7455 í B-deild Alþingistíðinda. (5514)

513. mál, rekstrarhalli á Seðlabankanum

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. viðskrh. að ekki stæði til að selja leigjendum í Seðlabankahúsinu eignarhluta í húsinu. Það verður þó að telja eðlileg viðbrögð þegar jafnstór töp eiga sér stað miðað við hvað aðrir hafa orðið að gera og vissulega bendir það til að vel hafi verið byggt við vöxt. Jafnframt kemur fram að það er talað um að fjölga starfsmönnum um 15 en einhverjir hljóta á sínum tíma að hafa haft eftirlit með því húsnæði sem Seðlabankinn var í áður og merkilegt má það vera ef nýtt húsnæði heimtar svo miklu meira eftirlit eins og þarna er verið að leggja til.

Ég verð að segja það eins og er að mér eru það mikil vonbrigði að sú mikla blysför, sem Alþfl. boðaði og fólkið horfði á og treysti að eitthvað stæði á bak við, hefur ekki orðið að neinu öðru en því að dyggilegri verndarhendi er haldið yfir öllu því mannahaldi sem er í þessum banka og trúlegt er að engin þjóð hafi fjölmennara starfslið hlutfallslega við sinn seðlabanka en við Íslendingar.

Ég vil jafnframt bæta því við að sú fastgengisstefna sem notuð hefur verið hefur leikið undirstöðuatvinnuvegi þessarar þjóðar grátt, en nú er komið svo að allt bendir til að toppurinn, þ.e. Seðlabankinn, þoli hana ekki heldur og það eru fréttir út af fyrir sig.