05.05.1988
Sameinað þing: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7467 í B-deild Alþingistíðinda. (5529)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Því ber að fagna að tækifæri er hér til að ræða byggðamál í tengslum við þá skýrslu sem hæstv. forsrh. hefur tekið til umræðu og mælt fyrir sem er ársskýrsla Byggðastofnunar. Við hljótum að reikna með því að hér fari fram umræður um þennan þátt þjóðmála í tilefni af þessari skýrslugjöf hæstv. ráðherra og það með sérstöku tilliti til þess ástands sem nú blasir við, þeirrar reynslu sem fyrir liggur í þessum efnum og þeirra vanefnda sem við blasa í sambandi við byggðamálin miðað við starfsáætlun hæstv. ríkisstjórnar. Það sætir nokkurri furðu að ekki skuli fleiri ráðherrar eða aðrir ráðherrar en hæstv. forsrh. vera viðstaddir þessa umræðu því að byggðamálin heyra sannarlega undir mörg önnur ráðuneyti, ráðuneyti atvinnumála, ráðuneyti félagsmála. Ég vek athygli hæstv. forseta alveg sérstaklega á þessu því að þó að hæstv. forsrh. svari vafalaust fyrir sína ríkisstjórn í þessum efnum væri ekki óeðlilegt að aðrir hæstv. ráðherrar sem mest reynir á í þessum málum séu einnig viðstaddir umræðuna hér.

Við hljótum líka að reikna með því að til þessarar umræðu verði tekinn eðlilegur tími hér í starfstíma þingsins. Þó að annir séu miklar getum við ekki kvatt Alþingi, farið hér frá þingi, án þess að ræða þessi mál og fá fram viðbrögð umfram það sem þegar liggur fyrir frá stjórnvöldum, frá hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn.

Skýrslan sem er tilefni þessarar umræðu segir ekki hálfa sögu í rauninni. Bæði er það að innihald hennar er ekki efnismikið og er ég þó út af fyrir sig alls ekki að lasta þær upplýsingar sem þar koma fram, en þær eru þó takmarkaðar. Síðan hafa aðstæður í byggðamálum enn breyst til hins verra frá því sem ríkti á sl. ári og fram hafa verið að koma upplýsingar sem nauðsynlegt er að sjálfsögðu að hafa hliðsjón af þegar þessi mál eru rædd hér.

Í inngangi þessarar skýrslu sem hæstv. ráðherra vitnaði hér til kemur það m.a. fram að á síðari hluta árs 1987 hallaði verulega undan í afkomu atvinnulífs á landsbyggðinni, alveg sérstaklega frá síðasta hausti, og fleiri fyrirtæki hafa leitað ásjár og stuðnings frá Byggðastofnun en áður var til þess að bjarga sér fram úr aðsteðjandi vanda. Það er greint frá því að 1491 skuldunautur sé nú við Byggðastofnun. Þar af séu það 38 fyrirtæki sem skuldi yfir 20 millj. kr. hvert eða 35%, rösklega, af heildarskuld fyrirtækja og stærstu skuldunautarnir við Byggðastofnun séu aðilar í sjávarútvegi. Þetta segir auðvitað ákveðna sögu um stöðu undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar að það skuli vera þörf á því fyrir fyrirtæki í þessari grein að leita ásjár Byggðastofnunar, atvinnugrein sem verður auðvitað að búa þannig að að fyrirtæki í eðlilegum rekstri skili þar þannig afkomu að þau þurfi ekki að leita til þeirrar stofnunar sem ætlað er að styðja við atvinnurekstur í landinu til þess að bjarga sér fram úr erfiðleikum, erfiðleikum sem eru vegna þess aðbúnaðar sem atvinnugreinin býr við. Hitt er jafnsjálfsagt að Byggðastofnun veiti þróun sjávarútvegs og fyrirtækja í sjávarútvegi öflugan stuðning. Það er auðvitað rétt og skylt að svo sé gert. En ég vek athygli á þessu því að þetta er ein af þeim staðreyndum sem blasa við þegar þessari skýrslu er flett.

Ég vek einnig sérstaka athygli á því hvernig háttað hefur verið framlögum á fjárlögum á undanförnum 10–12 árum til byggðamála samkvæmt fjárlögum ríkisins hverju sinni. Það yfirlit er að finna á bls. 23 í þessari skýrslu. Þar er sannarlega athyglisverð mynd á ferðinni sem sýnir hrap í framlögum á þessu tímabili, gífurlegt hrap í framlögum, og hefur það verið nær óslitið nema á árunum 1980–1982 sem viðnám var veitt gegn þessari öfugþróun sem þarna hefur verið á ferðinni og raunar varð aukning á árinu 1982 á þessum framlögum sem réttu við þá öfugþróun sem hafði verið í gangi. Síðan hefur hins vegar samfellt hallað undan fæti í þessum efnum sem veikir stöðu þessarar stofnunar til þess að hlúa að atvinnuþróun á landsbyggðinni, veita áhættulán og veita styrki til þróunarstarfsemi svo sem eðlilegt og sjálfsagt ætti að vera.

Ég er ekki að mæla með því út af fyrir sig að verið sé að veita fjármagn inn í taprekstur með styrkjum. Það er erfitt að sjá hvar slíkt ætti að enda þótt í einstökum afmörkuðum tilvikum geti slíkt verið réttlætanlegt, en meginatriðið er það að talsvert fjármagn, og þá á ég við allt annað og meira en hér liggur fyrir og ákvarðað hefur verið á Alþingi á undanförnum árum, sé til ráðstöfunar til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífi um land allt og þá ekki síst í þeim landshlutum þar sem almennar aðstæður eru atvinnustarfseminni óhagstæðar af ýmsum ástæðum. Þetta get ég látið nægja sem almennar ábendingar varðandi skýrsluna sjálfa en margt af efni hennar verður þó tilefni til athugasemda hér á eftir af minni hálfu.

Í starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er að finna sérstakan kafla um byggðastefnu og samgöngumál og þar eru margar ábendingar sem hægt var að gleðjast yfir, margar áherslur sem hægt var að taka undir, þegar ríkisstjórnin setti saman þetta plagg og kynnti þjóðinni við myndun stjórnarinnar 8. júlí 1987.

Þarna er kveðið á um í upphafi, svo að ég rifji það upp, virðulegur forseti, með þínu leyfi, að ríkisstjórnin lítur á það sem eitt meginverkefni sitt að stuðla að betra jafnvægi í þróun byggðar með uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni. Þetta er almennur inngangur og síðan er talið upp í einstökum þáttum að hverju skuli stuðlað í því sambandi og þar er vikið að atvinnustarfsemi, samstarfi lánastofnana, þróunarfélaga og heimamanna. Það er vikið að fjölbreyttari þjónustu í dreifbýli og uppbyggingu stjórnsýslumiðstöðva í hverju kjördæmi. Það er talað um átak í samgöngumálum og samræmingu fyrirliggjandi áætlana. Það er talað um að áhersla verði lögð á íbúðarbyggingar á landsbyggðinni. Það er talað um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem gera á skýrari, eins og það er orðað í stefnuyfirlýsingunni, og að sveitarstjórnir fái aukið sjálfræði um tekjustofna. Það er talað um fjármagn sjóða sem í auknum mæli verði geymt og ávaxtað á heimaslóðum og um bættan rekstur orkuveitna. Þetta eru þeir efnisþættir sem eru tilgreindir í þessum kafla, svona lauslega stiklað á þeim hér af minni hálfu. En þegar litið er til efndanna það sem af er starfsferli ríkisstjórnarinnar stendur ansi lítið eftir svo að ekki sé meira sagt. Og það er við það sem við hljótum að staldra, virðulegur forseti, þegar við lítum á stöðu þessara mála nú.

Almennt verður að segja að það er ekkert, það er enginn þáttur í þróun mála í okkar landi sem er jafnkvíðvænlegur og öfugþróunin í byggðamálunum. Það á ekki aðeins við um yfirstandandi ár og síðasta ár að því er snertir starfsferil núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það tekur til langs tíma. Það tekur til margra ára og spurning hvar menn leita að upphafinu í þeim efnum, en alveg sérstaklega hefur hallað þarna undan fæti síðustu fimm árin. Þessu bera vitni tilfærslurnar hjá fólki í landinu milli landshluta þar sem um samfellda öfugþróun hefur verið að ræða, frá árinu 1980 að telja, og í stigvaxandi mæli, u.þ.b. 1% íbúa hefur flust frá landsbyggðinni að meðaltali á ári á þessu tímabili og hafa einstakir landshlutar orðið misjafnlega fyrir barðinu á þeirri þróun. Það er hægt að líta á þróun íbúðabygginga og hvað hefur verið að gerast í þeim efnum. Þar hefur verið nánast alger stöðnun á heilu landsvæðunum nú um margra ára bil. Og það hefur verið dregið fram að í gegnum það íbúðalánakerfi, sem endurskoðað var 1986, hafa færst miklir fjármunir frá landsbyggðinni í gegnum fjármagn sjóða til höfuðborgarsvæðisins þar sem þeir hafa endað í íbúðarbyggingum og annarri fjárfestingu hér á þessu svæði.

Um þetta liggja ekki fyrir opinberar tölur svo skýrt sem verða þyrfti. Í því sambandi nefni ég frv. til breytingar á lögum um Þjóðhagsstofnun sem ég leyfði mér að flytja ásamt öðrum þm. úr Alþb. snemma á þessu þingi þar sem gert var ráð fyrir að Þjóðhagsstofnun aflaði hagrænna upplýsinga um marga þætti eftir kjördæmum, framleiðsluverðmæti, galdeyrissköpun, hlutfall hvers kjördæmis í landsframleiðslu, það fjármagn sem kemur úr ríkissjóði til einstakra svæða og margt, margt fleira sem gert var ráð fyrir samkvæmt þessu frv. að yrði verkefni Þjóðhagsstofnunar að afla frá ári til árs reglubundið.

Ég hef verið að vænta þess, virðulegur forseti, að frv. þetta fengi hér lögfestingu á þessu þingi, ekki síst þar sem hæstv. forsrh. tók jákvætt undir efni þess þegar það var lagt fram, en málið hefur ekki enn verið afgreitt úr nefnd.

Ég fullyrði að ef vinna af þessu tagi lægi fyrir, t.d. varðandi síðasta ár, værum við mun betur í stakk búin til þess að ræða byggðamálin og þróun þessara mála heldur en við erum þrátt fyrir þessa skýrslu sem hér liggur fyrir frá Byggðastofnun og þrátt fyrir hraðunna grg. um stöðu og horfur í atvinnurekstri utan höfuðborgarsvæðisins sem Þjóðhagsstofnun var að skila af sér nú alveg nýverið. Engu að síður þarf ekki að líta í skýrslur til þess að fá mynd af hinni almennu stöðu þessara mála. Hana þekkjum við, þm. landsbyggðarinnar, og allir þeir sem fylgjast með í þjóðmálum, hver þróunin hefur verið þar.

Það er ekki aðeins að íbúum hafi fækkað úti á landi. Það er samsetning á íbúum, það er aldursskipting fólksins, það er fjöldi þeirra sem snúa til baka eftir að hafa aflað sér menntunar, það eru þættir sem einnig koma inn í þá mynd og eru landsbyggðinni óhagstæðir. Stundum er talað um atgervisflótta og ég tel að það verði ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að um umtalsverðan atgervisflótta er að ræða frá landsbyggð til höfuðborgar og jafnvel til útlanda ef við lítum á dæmið í heild sinni. Í því felst ekki að það sé dugminna fólk sem er úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, síður en svo, heldur er það þekkingin sem er að safnast upp hér á þessu svæði sem ekki kemur til baka út á landið. Það er þekking sem er undirstaða undir ákvarðanir í vaxandi mæli og þess vegna stendur landsbyggðin verr að vígi, einnig af þessum sökum, en skyldi.

Einn er sá þáttur þessara mála sem við hljótum að nefna þegar byggðamálin eru rædd hér og það er hin almenna mismunun í framfærslukostnaði fólksins, m.a. vegna mismununar sem stjórnvöld hafa í hendi sinni að ráða. Þar hefur verið um öfugþróun að ræða lengi, misjafnlega mikla, en hún blasir nú við í mjög hrikalegri mynd í sambandi við orkukostnað. Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt um þau efni er þar um mjög tilfinnanlega mismunun að ræða. Það blasir við í sambandi við vöruverð, m.a. vegna opinberrar gjaldtöku af flutningum, álagningar söluskatts á flutningsgjöld. Það blasir við vegna vaxtakostnaðar af birgðahaldi hjá versluninni úti um landið sem kemur fram í vöruverðinu og veikir stöðu landsbyggðarverslunarinnar. Þetta blasir við í fjarskiptunum, í símkostnaði, sem nýlega var rætt af minni hálfu í tengslum við tillögu um að jafna símakostnað meðal landsmanna og gera landið allt að einu gjaldsvæði og þannig mætti lengi telja. Ferðakostnaðurinn til þess að leita til miðstöðva stjórnsýslunnar í landinu hér í Reykjavík leggst ofan á tilkostnað einstaklinga og fyrirtækja úti um landið. Og kostnaðurinn við að leita sér lækninga, sérfræðiþjónustu af ýmsu tagi, kemur einnig inn í þessa mynd. Þarna gætu stjórnvöld með skjótum hætti gripið inn í ef vilji væri til leiðréttingar. En það hefur ekki verið gert. Um þessi efni höfum við stjórnarandstæðingar hér á Alþingi flutt tillögu eftir tillögu, um einstaka þætti þessara mála, um orkukostnaðinn, um símakostnaðinn, um flutningskostnaðinn, um framlög til byggðamálanna almennt og marga fleiri þætti sem ég tek ekki tíma í að rekja hér í einstökum atriðum. Ríkisstjórnin og stuðningslið hennar hér á Alþingi hefur ekki brugðist við með þeim hætti sem eðlilegt væri í ljósi þeirrar þróunar sem nú gengur yfir landið.

En það er auðvitað sjálf efnahagsstefnan sem er meginástæðan fyrir þeirri tilfærslu fólks og fjármagns sem við blasir. Hæstv. forsrh. gat um það hér í ræðu sinni áðan að til þess að bregðast við þróuninni í þessum málum þyrftu að koma til almennar ráðstafanir og það mætti ekki mismuna í þessum efnum. Hann var sem sagt að boða, hæstv. ráðherra, að ekki mætti grípa til sértækra ráðstafana í byggðamálunum til þess að spyrna við fæti, til þess að breyta þróuninni.

Ég vek alveg sérstaka athygli á þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. vegna þess að ég held að hún feli í sér að af hans hálfu sem forustumanns í ríkisstjórninni sé ekki að vænta neinna þeirra aðgerða í þessum málum sem geti skipt sköpum. Við höfum búið við stórfellda og grófa mismunun gagnvart landsbyggðinni og til þess að leiðrétta það dæmi þarf auðvitað sértækar ráðstafanir. Og þar er það spurningin um pólitískan vilja og aðgerðir í þeim efnum en ekki bara almennar aðgerðir í efnahagsstarfseminni almennt. Hæstv. forsrh. hefur staðið að slíkum almennum aðgerðum, líka sem fjmrh. í fyrrv. ríkisstjórn. Ætli hæstv. ráherra hafi ekki verið í fjmrn. í ágúst 1985 þegar ákvarðanir um vaxtafrelsið voru teknar og boðaðar af hæstv. þáv. fjmrh. sem „sérstakt fagnaðarerindi“? Sú þróun sem orðið hefur á fjármagnsmarkaði síðan er uppskeran af þessum almennu ráðstöfunum sem Sjálfstfl. barðist fyrir og fékk fram í þáv. ríkisstjórn því þar eins og á öðrum sviðum beygði Framsfl. sig undir sprota íhaldsins án þess að láta nokkurn skapaðan hlut reyna á. Þó að þeir í þáv. ríkisstjórn og í núv. ríkisstjórn séu að æmta öðru hvoru er það ekki með þeim hætti að það sé nein alvara þar að baki, a.m.k. hefur hún ekki sést enn. Og magalendingin á miðstjórnarfundi Framsfl. núna um daginn ber ekki vott um það að þar sé mikilla breytinga að vænta.

Og skyldu þessar almennu aðgerðir, t.d. í sambandi við vextina, ganga jafnt yfir? Skyldu aðstæður atvinnustarfseminnar í landinu til þess að taka á sig þessar byrðar, vera jafnar? Skyldi sjávarútvegurinn hafa sömu tök á því að velta fjármagnskostnaðinum af sér eins og verslun og þjónusta sem fyrst og fremst er hér á höfuðborgarsvæðinu og vex hér miklu hraðar, langtum, langtum hraðar en úti um landið?

Ég held að þetta dæmi sýni það ótvírætt að aðstaða atvinnustarfseminnar til þess að taka við þessari „almennu blessun“ af hálfu ríkisvaldsins og ríkisstjórna sé ekki til staðar. Og það eru fleiri svona þættir sem þarna mætti tilfæra, en ég ætla ekki, virðulegur forseti, að taka tíma í hér og nú.

Alveg sama gildir um landbúnaðarframleiðsluna og framleiðsluiðnaðinn úti um landið. Þarna hefur verið þrengt að vegna stjórnvaldsráðstafana í mörgum tilvikum og ytri aðstæður koma einnig þarna til. En stjórnvaldsráðstafanirnar hafa gengið í öfuga átt eins og gerðist í þeim aðgerðum sem lagðar voru á fiskvinnslu og iðnað fyrir áramótin, launaskatturinn sem tekinn var upp á ný og ekki var fallið frá í febrúar varðandi fyrri hluta þessa árs. Það skal fyrst vera frá 1. júlí sem þar verður breyting á samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Þarna var auðvitað verið að pissa í skóinn sinn eins og á svo mörgum öðrum sviðum sem snerta efnahagsstefnuna og sem varða landsbyggðina alveg sérstaklega.

Fjárveitingar af opinberri hálfu til nauðsynjamála úti um landið, til fjárfestinga og framkvæmda á vegum ríkis og sveitarfélaga, hafa verið að dragast saman í aðalatriðum samfellt frá ári til árs nú um fimm ára skeið. Það liggur fyrir skjalfest í svörum frá ráðherrum hvernig þessi samdráttarstefna hefur komið við. Að vísu náðu þeir nokkurn veginn botninum á síðasta ári sem gerði þeim kleift að lyfta þessu aðeins í prósentum á yfirstandandi ári, t.d. í hafnarframkvæmdum og á einstökum öðrum sviðum. En í heild hefur þarna verið um stórfelldan samdrátt að ræða undir forustu núv. stjórnarflokka og fyrrverandi stjórnarflokka Sjálfstfl. og Framsfl. Og af því að samgöngumálin eru nefnd sérstaklega í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar — þar átti nú að gera átak og vissulega er það afar gildur þáttur í sambandi við byggðamálin. Ja, hver er niðurstaðan? Viðmiðunin sem Alþingi ræddi hér 1983 var að til vegamála rynnu 2,4% af þjóðarframleiðslu, en það skortir nú hvorki meira né minna en heilt prósent upp á það, miðað við vegáætlun þessa árs, að því marki verði náð. Ætli það losi ekki rétt 1,4% fjármagnið sem ætlað er til vegamála? Þetta er nú átakið í samgöngumálum sem ríkisstjórnin stendur fyrir á grundvelli stefnuyfirlýsingar sinnar. Þetta eru efndirnar.

Enn alvarlegra, herra forseti, er málið þegar litið er til sveitarfélaganna og hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við sveitarfélögin í landinu. Þar eru aðstæðurnar vissulega misjafnar, aðstæðurnar ólíkar í sambandi við tekjuöflun, tekjumöguleika sveitarfélaganna, annars vegar á þessu tiltölulega blómstrandi svæði höfuðborgarinnar og nágrennis og hins vegar úti um landið.

Þar höfum við rifjað upp oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á þessu þingi hvernig ákvarðanir ríkisstjórnarinnar gagnvart Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa birst. Þar er um að ræða 50% skerðingu, hvorki meira né minna. Það skortir yfir 1100 millj. kr. á að uppfyllt séu lagaákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eins og þau lög liggja fyrir og eins og þau ættu að vera miðað við nýja söluskattskerfið og útreikninga Þjóðhagsstofnunar. Framlögin til Jöfnunarsjóðsins samkvæmt ákvörðunum ríkisstjórnar, sem meiri hl. hér á Alþingi hefur staðfest, eru 1142 millj. kr. Skerðingin er hins vegar álíka upphæð, 1126 millj. kr., þó nær 1127 millj. kr.

Þó að miðað sé við eldra tekjuöflunarkerfi og liðið ár er skerðingin hvorki meiri né minni en 37% svo að öllu sé til haga haldið í þessum efnum.

Þetta bitnar almennt á sveitarfélögunum en þetta kemur alveg sérstaklega niður á möguleikum til jöfnunar milli sveitarfélaga til að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga sem ekki náðu meðaltekjum. Þessi aukaframlög dugðu vegna skerðingarinnar aðeins til að jafna 45% af þeim mun sem var á meðaltekjum sveitarfélaga og tekjum þeirra sem þörfnuðust aukaframlaga. Þetta hlutfall sem samkvæmt reglugerð ætti að vera um 70%, möguleikarnir til að jafna þennan mun, er nú aðeins um 45% og hefur farið hríðlækkandi á undanförnum árum frá því að farið var að skerða Jöfnunarsjóðinn 1984 en sú saga hefur endurtekið sig frá ári til árs í síauknum mæli. Síðan er bætt um betur, eða hitt þó heldur, í sambandi við framtíðina af hálfu hæstv. ríkisstjórnar með þeim áformum sem hæstv. fjmrh. kynnti hér í upphafi þings í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Læðast átti aftan að sveitarfélögunum í sambandi við fjárlagagerð með breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með svo grófum hætti að þegar tókst að draga það fram hér í umræðum og koma upplýsingunum á framfæri við sveitarstjórnirnar úti um landið sá ríkisstjórnin sitt óvænna og hvarf frá því að lögfesta þetta frv., hvarf frá því en refsaði sveitarfélögunum síðan í efnahagsráðstöfunum sínum í febrúar sl. sérstaklega fyrir að hafa sýnt andspyrnu gegn þessum áformum í sambandi við verkaskiptinguna sem var dæmi úr smiðju hæstv. fjmrh. og bar þess öll merki að því er varðaði tekjutilfærsluna í sambandi við þessa verkefnatilfærslu. Þarna hafði ríkisstjórnin og meiri hluti hennar hér á Alþingi tök á að sýna vilja sinn í verki í sambandi við byggðamálin og við sáum að hverju var stefnt. Það ber hins vegar að virða að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa fallið frá því að knýja þetta mál hér fram í þinginu, knýja þessar tillögur fram, og við verðum að vænta þess að á sumarmánuðum, því vafalaust eru þessi mál til athugunar áfram á vegum ríkis og sveitarfélaga, verði staðið að þessari endurskoðun, réttmætri endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með öðrum hætti og umfram allt öðru hugarfari en lagt var upp með þegar efnt var í bandorminn fræga sem kynntur var hérna á jólaföstunni í þinginu.

Ég vil, virðulegur forseti, aðeins draga upp mynd af hinni misjöfnu aðstöðu sveitarfélaganna til tekjuöflunar með því að nefna hér aðstöðuna, hvernig hún blasir við, og taka dæmi af minni heimabyggð annars vegar og því sveitarfélagi þar sem við nú erum stödd, Reykjavík.

Á borgarafundi sem bæjarstjórn Neskaupstaðar beitti sér fyrir að haldinn var í marsmánuði sl. var dregin upp mjög skýr mynd af ólíkri aðstöðu sveitarfélaganna í sambandi við tekjuöflun eins og hún blasir við og langar mig til að rekja niðurstöðutölur úr þeim samanburði eins og þær voru kynntar á þeim fundi. Þar kom það fram að í sambandi við útsvar eru möguleikarnir mjög svipaðir, útsvarstekjur á íbúa voru 38 850 í Neskaupstað á árinu 1987, en í Reykjavík eru þær 38 300 á íbúa, sem sagt mjög ámóta útsvarstekjur. Þegar hins vegar kemur til aðstöðugjaldanna er ekki líku saman að jafna, í Neskaupstað 8718 á íbúa en í Reykjavík nær tvöfalt hærri eða 15 945 og fasteignagjöld 8831 kr. á íbúa í Neskaupstað, í Reykjavík 11 838 kr. Þessi mismunur þýðir að á tekjur Neskaupstaðar vantar 16 588 000 kr. til að hafa sömu tekjur á íbúa og í Reykjavík. Þetta þýðir, litið út frá bæjardyrum Reykjavíkur, að ef Reykjavík hefði átt að hafa sömu tekjur og Neskaupstaður hefði vantað í fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir þetta ár nærri því 1 milljarð kr., 890 millj. kr. Þetta er aðstöðumunurinn milli þessara sveitarfélaga eins og um hnútana er búið.

Hvað snertir Jöfnunarsjóðinn og það dæmi sem ég var að nefna hér um skerðingu hans kom það fram á þessum fundi að á árinu 1983, síðasta ári sem Jöfnunarsjóðurinn fékk að búa að sínum lögboðnu tekjustofnum, nam framlagið 11,6% af sameiginlegum tekjum Neskaupstaðar, en á árinu 1987 6,6% og verður 1988 enn lægra af samanlögðum tekjum eða 6,2%. Þetta munar þetta bæjarfélag með 1700 íbúa hvorki meira né minna en um mismuninn á 13,7 millj., sem það ætti að vera ef haldið væri lögboðnum tekjustofnum, og aðeins 6,2 millj. kr. sem það er samkvæmt áætlun fyrir árið 1988. Þetta eru hrikalegar staðreyndir um mismunun, virðulegur forseti, sem er á valdi Alþingis að taka á og leiðrétta. Það er því hægt að dæma núv. hæstv. ríkisstjórn þegar af verkum sínum í þessum efnum og sá dómur hlýtur að vera harður ef menn hafa tekið eitthvert mark á yfirlýsingunum frá þeim tíma sem ríkisstjórnin settist á stóla. Ef menn ganga út frá því að reynt sé að hafa eitthvert réttlæti í samskiptum við íbúa landsins óháð búsetu hlýtur dómurinn að vera harður og enn þá dekkra er þó í álinn ef horft er til þess sem fram kemur í greinargerð um stöðu og horfur í atvinnurekstri utan höfuðborgarinnar og eins og horfir á öðrum sviðum að óbreyttu því enginn skyldi halda að við séum hér komnir niður á jafnsléttu í þessum málum eftir þróun undanfarinna ára, eftir það sem á hefur hallað á landsbyggðinni á undanförnum árum.

Nei, síður en svo. Hættan er þvert á móti sú að öfugþróunin verði enn hraðari á komandi árum að óbreyttri stefnu því að við erum hér í mjög háskalegri stöðu með þessi mál. Það er eins og á öðrum sviðum að ef nóg hefur safnast fyrir á bak við stífluna af réttmætri óánægju eins og liggur nú fyrir hjá landsbyggðarfólkinu óháð stjórnmálaflokkum hlýtur það að brjóta sér farveg með einum eða öðrum hætti, líka stjórnmálalega séð. En það er eins og núv. hæstv. ráðherrar og flokkarnir sem þeir mæla fyrir hafi ekki áttað sig á þessu, taki ekki eftir þessu, ekki frekar en varðandi aðra mismunun í samfélaginu.

Ég get tekið sem annað dæmi þar sem er mismununin í sambandi við kynin í landinu, mismununin gagnvart konum í landinu og menn hafa fyrir sér í hvaða farveg sú óánægja beinist, til hvers hún leiðir. Hið sama mun að sjálfsögðu gerast ef haldið verður uppi sömu stefnu, sama óréttlætinu, áframhaldandi, gagnvart landsbyggðinni, þá hljóta menn að grípa til úrræða sem einverjir mundu kannski stimpla sem óyndisúrræði en flokkast ekki undir annað en nauðvörn.

Það er oft vitnað til þess sem eðlilegt er að þrátt fyrir breytingar á kosningalöggjöf hafi þó þm. kjörnir í landsbyggðarkjördæmum meiri hluta, að vísu nauman meiri hluta, hér á Alþingi. Sá meiri hluti nægir hins vegar ekki til að verja landsbyggðina áföllum vegna þess að ráðandi flokkar og fulltrúar landsbyggðarinnar í þeim stjórnmálaflokkum sem nú fara með völdin í landinu og hafa haft hér undirtökin lengi eftirláta það öðrum að marka stefnuna og hafa forustuna og ganga í raun gegn undirstöðuhagsmunum þess fólks sem hefur kosið þá til setu hér á hv. Alþingi.

Við þingmenn Austurl. fengum kveðju sem ég vil nefna áður en ég vík úr ræðustól, virðulegur forseti, frá stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi alveg nýverið, opið bréf til þingmanna Austurl. og annarra landsbyggðarþingmanna Það er dagsett 27. apríl sl. og hefur, hygg ég, verið sent öllum hv. þm., undirritað af stjórnarmönnum í Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Í þessu bréfi er spurt, m.a., því ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara að rekja það hér allt:

„Hvers vegna gerist það að lög og reglur eru landsbyggðinni jafnóhagstæð og dæmin hér að framan sanna á sama tíma og þið landsbyggðarþingmenn eruð í meiri hluta á Alþingi? Getur skýringin verið sú að þið lítið fremur á ykkur sem fulltrúa stjórnmálasamtaka eða ríkisstjórna en fulltrúa ykkar kjördæma? Ráða hagsmunir flokks eða stjórnarsáttmáli fremur gerðum ykkar og afstöðu á þingi í stað þess að þið takið höndum saman og gætið í sameiningu hagsmuna umbjóðenda ykkar úti á landsbyggðinni? Landsbyggðarfólk og ekki síst sveitarstjórnarmenn úti á landi eru búnir að fá nóg. Mælirinn er fullur og sú krafa heyrist hvarvetna að það misrétti sem nú viðgengst á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar verði upprætt.“

Ég ætla ekki að vitna frekar í þetta bréf en ég þekki það af undirskriftunum að þar mæla menn sem hafa starfað innan margra stjórnmálaflokka, fulltrúar margra stjórnmálaflokka, enda stjórn þessara samtaka á Austurlandi þannig skipuð að tekið er nokkurt tillit til styrkleika flokkanna í því kjördæmi í sambandi við kosningu í þá stjórn. Hér er því auðvitað að finna áfellisdóm yfir ríkjandi stefnu sem leitt hefur til þess að þessir menn úr öllum flokkum á Austurlandi, fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum, hafa sent áskorun til okkar þingmanna og allra landsbyggðarþingmanna þess efnis sem ég hef nefnt og rakið lítillega.

Virðulegur forseti. Það væri hægt og þörf á því að taka á mörgum fleiri þáttum af minni hálfu, en eins og ég gat um í upphafi er nauðsynlegt að rætt verði um þá alvarlegu stöðu sem byggðamálin eru í af þessu tilefni, skýrslu hæstv. forsrh., og þar þurfa áreiðanlega margir að leggja orð í belg. Ég trúi ekki öðru en að þeir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem hafa verið að láta í sér heyra svona öðru hvoru noti það tækifæri sem hér gefst til að segja álit sitt og koma fram með sín sjónarmið og með hvaða hætti þeir ætla að réttlæta það að sitja áfram í ríkisstjórn sem þrengt hefur að landsbyggðinni, fólkinu sem þar býr, með þeim hætti sem raun ber vitni.