11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að þakka hv. frummælanda, Hjörleifi Guttormssyni, 2. þm. Austurl., fyrir þá framsýni sem hann sýnir í þessu jafnréttismáli. Þetta eru orð í tíma töluð að menn geri ráð fyrir að einhvern tíma verði þörf á því fyrir okkur karlmenn að þessari prósentu, sem hér er um getið og er sú sama og er í Alþb., að karlmönnum verði tryggður aðgangur að nefndum og störfum í félögum, eins og hér segir, á vegum ríkisins, sveitarfélaga og félagasamtaka. Ég lít því á þetta sem svona fyrsta spor, fyrstu viðleitni, af hálfu karlmanna til að verjast þeirri sókn sem kvenfólk hefur farið í undanfarin ár. Ég held að karlmenn ættu að taka hann sér til fyrirmyndar. Þó svo að ekki sé nú margt úr stefnuskrá og skipuritum Alþb. sem ég hefði áhuga fyrir, þá er þetta eitt af því, að tryggja kynjum jafnan rétt til þátttöku í öllum þessum stofnunum á vegum ríkisins, sveitarfélaga og félagasamtaka, 40% þátttöku. Þar fyrir utan vona ég að honum takist með góðri aðstoð frá öðrum karlmönnum að sjá til þess að pólitísk samtök verði á sama hátt opin fyrir 40% af hvoru kyni fyrir sig.

Virðulegi forseti. Ég mun styðja framgang þessa frv. á hv. Alþingi.