05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7480 í B-deild Alþingistíðinda. (5544)

468. mál, leigubifreiðar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þó að merkilegt megi heita var samgn. öll sammála um að mæla með frv. með þeim breytingum sem frsm. nefndarinnar hefur lagt fram. Ég segi „þó merkilegt megi heita“ vegna þess að í því felst að það er verið að takmarka það frelsi sem hefur verið básúnað hér og talið vera nauðsyn þess að íslenskt þjóðfélag fái að þróast á eðlilegan og góðan máta, en við ýmsir höfum haldið að það þyrfti að hafa ýmsar reglur í þjóðfélaginu og m.a. þá reglu að menn hefðu vissar atvinnugreinar nokkuð verndaðar.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta, vek bara sérstaka athygli á því að flokkur eins og Sjálfstfl., eða a.m.k. fulltrúar hans í nefndinni, stóð dyggilega að þessu og ég veit það að þetta er líka gert vegna þess að hæstv. samgrh. leggur eindregið til að við takmörkum frelsið þarna að nokkru.

Til viðbótar við þetta vil ég benda á að mér finnst vera smágalli á frv. og brtt. okkar og hann er sá að í textanum er sagt: Í þeim kaupstöðum og á þeim sýslusvæðum. Ég sé ekki neina ástæðu til annars en að tala þarna venjulegt mál og segja: Í þeim kaupstöðum og í þeim sýslum. „Svæði“ aftan við þetta eru ekki í neinum tengslum við það sem við erum að tala um heldur erum við að tala um að ef um viðurkenndar sendibifreiðastöðvar er að ræða innan einhverra sýslna skal það sama gilda og í kaupstöðum.

Ég bendi á þetta. Þetta finnst mér málfarsatriði og væri hægt að laga það í meðferð málsins, ef forseti samþykkti, án þess að bera fram um það brtt.