05.05.1988
Efri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7503 í B-deild Alþingistíðinda. (5599)

293. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. allshn. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. allshn. sem er á þskj. 1022.

Nefndin fjallaði um frv. á einum fundi eftir að deildin hafði haft þetta mál til umræðu í um það bil eina klukkustund og 10 mínútur. Á fund nefndarinnar mættu samkvæmt beiðni allir fulltrúar áfengisvarnaráðs, Ólafur Ólafsson landlæknir, Böðvar Bragason lögreglustjóri, og Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, og veittu upplýsingar.

Mig langar að vitna lítillega í þá umsögn áfengisvarnaráðs sem kom til hv. allshn. Nd. en allar umsagnir til þeirrar nefndar gengu upp til nefndar Ed. því að ekki var varið neinum sérstökum tíma til þess að afla annarra umsagna en þeirra sem þegar höfðu borist. Ég vil vekja athygli á því að áfengisvarnaráð er í raun ráðgefandi hópur fyrir ríkisstjórnina og hefur þess vegna sérstaka stöðu því að í lögum um áfengisvarnir stendur í 28. gr.:

„Áfengisvarnaráð fer með yfirstjórn allra áfengisvarna í landinu. Það skal stuðla að bindindissemi, vinna gegn neyslu áfengra drykkja og reyna í samráði við ríkisstjórn, áfengisvarnanefndir og bindindissamtök að afstýra skaðlegum áhrifum áfengisneyslu.“

Áfengisvarnaráð hefur þannig sérstakt hlutverk sem ráðgefandi aðili fyrir ríkisstjórnina. Mig langar í mjög stuttu máli rétt að tæpa á þeim ráðleggingum sem áfengisvarnaráð gaf hv. þm. og þá í allshn. Nd.

Þeir gefa sínar ráðleggingar í sjö liðum. Fyrsti liðurinn varðar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Þeir vitna þar í tilmæli hennar um að aðildarþjóðirnar minnki áfengisneyslu um fjórðung til aldamóta og því sé nauðsynlegt að huga að því hvaða ráð séu líklegust til að stuðla að því að slíkt takist. Þar þurfi að mörgu að hyggja og vafasamt að taka út einn þátt áfengismála einungis eins og gert er í frv. og það því fremur að líklegt sé að til þess geti komið að heildaráfengisneysla á hvern íbúa aukist eitthvað við tilkomu áfengs öls, eins og svo hógværlega er komist að orði í grg. með því, eins og segir í umsögninni. „Tæpast er við hæfi," segja þeir, með leyfi forseta, „að stuðla að aukinni neyslu meðan nágrannaþjóðir vorar berjast við að draga úr henni.“

Annað atriði þeirra varðar í raun þá þál. um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum sem samþykkt var 7. maí 1981 á Alþingi og leiddi til skipunar nefndar sem minnst hefur verið á hér í umræðunum. Ég vitna ef ég má, með leyfi forseta:

„Þessar tillögur“ — þ.e. nefndarinnar — „um áfengismálastefnu sem unnið var að samkvæmt ályktun Alþingis hafa enn ekki verið ræddar þar. Hins vegar er í þessu frv, einn þáttur áfengismála slitinn úr samhengi við aðrar aðgerðir og látið svo heita í greinargerð að það sé gert til að samræma áfengislöggjöfina. Þessi vinnubrögð eru í meira lagi vafasöm, svo vægilega sé til orða tekið, og það því fremur sem í frv. er stefnt í þveröfuga átt við tillögur áfengismálanefndar, en þar segir um áfengt öl:

„Áfengismálanefnd ríkisstjórnarinnar er falið að gera tillögur í samræmi við markaða stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem er m.a. að minnka áfengisneyslu um fjórðung.“

Kemur því ekki til greina að bæta nýjum gerðum af áfengi við þær sem fyrir eru.“

Mig langar í þessu sambandi að geta lítillega viðbragða þeirra sem komu frá áfengisvarnaráði, en sumir fulltrúar þess áttu einmitt sæti í þessari stóru áfengismálanefnd sem skipuð var af þáv. heilbrmrh. Þeim fannst nánast móðgun sú eina brtt. sem samþykkt var í Nd. við afgreiðslu þessa frv. Þegar liggur fyrir þykk skýrsla með niðurstöðum þessarar stóru nefndar um það hvernig megi stuðla að því að draga úr heildarneyslu áfengis og koma í veg fyrir þau alvarlegu vandamál sem fylgja ofneyslu. En hins vegar var eina brtt. sem Nd. treysti sér til að samþykkja við frv., að skipa enn aðra nefnd til að vinna nákvæmlega sama starf og unnið hafði verið í þrjú ár af 17–18 manns. Þótti þeim þetta í raun grófleg móðgun við störf þessarar stóru nefndar og ég vil að það komi fram hér.

Í þriðja lagi nefna þeir til íslenska heilbrigðisáætlun sem rædd var hér á síðasta þingi og reyndar einnig á heilbrigðisþingi nú í febr. s.l. að frumkvæði hæstv. heilbrrh. Þeir tala einmitt um erindi þessarar áætlunar og ég vitna stuttlega þar sem þeir segja um hana, með leyfi forseta:

„Í grg. með frv. segir að tilgangurinn með að heimila bruggun og sölu áfengs öls sé m.a. að afla ríkissjóði tekna. Að vísu rekur eitt sig á annars horn í grg. en ljóst er þó að hún er öll leikin á öðrum nótum en þeim sem slegnar eru í íslenskri heilbrigðisáætlun. Með tilliti til „samræmis“ og þess að leitast við að grafast fyrir um samhengi hlutanna væri eðlilegt að fjalla ítarlega um heilbrigðisáætlunina áður en stórfelld skemmdarverk yrðu unnin á þeim vettvangi sem hún beinist að.

Í fjórða lagi minnast þeir á, með leyfi forseta, reynslu finnsks landshöfðingja í Nylandsléni í Finnlandi, en þar er m.a. höfuðborgin Helsinki. Hann heitir Jakob Södermann og leggur nú til að farið verði að dæmi Svía og milliöl bannað. Orsakir þess að hann leggur slíkt til er síaukin áfengisneysla. Árið 1986 var hún 8,6% af hreinu áfengi á hvern íbúa, 15 ára og eldri, og þar af leiðandi stóraukið tjón af hennar völdum og vitnað er í dagblað í Finnlandi, Huvudstadsbladet. Þetta segir okkur kannski meira en flest annað um frjálsa sölu milliöls í Finnlandi.

Í fimmta lagi vitna þeir í aðgerðir norska Stórþingsins þar sem segir að þeir muni ekki ætla að láta tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar um að minnka áfengisneyslu um fjórðung til aldamóta sem vind um eyrun þjóta. Þeir grípa nú til ýmissa aðgerða, m.a. að stemma stigu við fjölgun áfengisdreifingarstaða. Og mig langar að vitna í Morgunblaðið frá 20. apríl 1988 þar sem segir, með leyfi forseta, í frétt frá Noregi:

„Norska þingið samþykkti á mánudag tvenn lög sem að líkindum koma við kaunin á þeim 4 milljónum Norðmanna sem neyta tóbaks og áfengis. Norðmenn eru meðal mestu reykingamanna í heiminum, en frá 1. júlí verða þeir að hætta reykingum á opinberum stöðum nema sérstök svæði hafa verið afmörkuð fyrir þá í veitingahúsum og á hótelum samkvæmt nýju lögunum.“

Og þarna má segja, virðulegur forseti, að Norðmenn séu að fylgja í kjölar okkar því að nú eru senn nokkur ár síðan við settum einmitt lög um sama efni, að takmarka reykingar á opinberum stöðum, einmitt vegna þess hve miklu heilsutjóni reykingar valda og hafa nú Norðmenn vitkast. — Síðan heldur áfram: „Fjórir af hverjum tíu Norðmönnum reykja og greiða næstum 30 norskar krónur, 183 íslenskar, fyrir vindlingapakkann.“

Og hér kemur þá erindi sem á við þetta málefni: „Norska stjórnin fékk einnig samþykkt lög sem banna fjölgun áfengisverslana næstu tvö árin, auk þess sem áfengi hækkar í verði.“ Þarna eru stýrandi aðgerðir til að hafa áhrif á heildarneyslu.

Í sjötta lagi vitna þeir til Bandaríkjamanna og Sovétmanna sem þeir segja að stefni í sömu átt. Þeir hafi m. a. hækkað lögaldur til áfengiskaupa í 21 ár en hann hafi áður verið lækkaður í 18 ár víðast hvar í ríkjum þeirra.

Og í sjöunda lagi vekja þeir athygli á áskorun 16 prófessora við læknadeild Háskóla Íslands. En það er þó rétt að taka fram að skoðanir lækna eru talsvert skiptar í þessum efnum og er langt frá því að þeir séu allir sammála.

Þetta var sem sagt tilvitnun í ummæli áfengisvarnaráðs sem kom á fund til nefndarinnar.

Ólafur Ólafsson landlæknir kom einnig á fund nefndarinnar og hann hefur talsvert látið til sín taka í krafti embættis síns til að vara við því að sala og bruggun áfengs öls verði leyfð án þess að nokkuð annað komi til sem draga ætti úr heildarneyslu. Mig langar að vísa stuttlega í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið fyrir skömmu, 29. mars á þessu ári, sem heitir „Áfengisneysla, sjúkdómar og slys“, með leyfi forseta:

„Er ég dvaldist sem ráðgjafi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Kaupmannahöfn veturinn 19841985 gerði ég úttekt á áfengisstefnu 19 Evrópulanda og gerði jafnframt tilraun til þess að meta afleiðingar mismunandi áfengisstefnu. Til þess að auðvelda samanburð milli landa var hverju landi gefinn svokallaður áfengiseftirlitsstuðull, Alchohol Control Score á ensku. Stuðullinn er reiknaður út eftir þessum þáttum:

1. Framleiðslu og dreifingu áfengis í landinu, m.a. hvort sala áfengis sé einhverjum takmörkunum háð eða það sé selt meira og minna frjálst, t.d. í matarverslunum. Einnig var tekið tillit til afgreiðslutíma.

2. Verði áfengis miðað við kaupmátt.

3. Fræðslu um áfengi, auglýsingar og fleira. Upplýsingar fengust úr heilsufarsbanka stofnunarinnar [þ.e. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar]. Norðurlöndin að undanskilinni Danmörku eru með hæsta áfengiseftirlitsstuðulinn. Stuðullinn fer hækkandi eftir því sem eftirlitið er meira og aðgengi að áfengi er minna. Dánartíðni í umferð fer hratt lækkandi eftir því sem áfengiseftirlitsstuðullinn er hærri. Ísland er í neðsta flokki“ — og síðan koma tölur um fylgni og marktækni. Fylgnin er 0,71–0,76, þ.e. hún er marktæk, en P er lægra en 0,001. Þetta eru tölfræðilegar viðmiðanir. — „Dánartíðni í umferðinni fer ört hækkandi eftir því sem selt áfengismagn á hverja 100 þúsund íbúa eykst. Ísland er í neðsta sæti. Fylgnin er 0,77 [þ.e. marktæk því að P-stuðullinn er enn minni en 0,001]. Dánartíðni í umferð fer þannig ört hækkandi eftir því sem tíðni skorpulifrar eykst. Ísland er í neðsta sæti og fylgnin er 0,86–0,83 [þ.e. marktæk, P er enn lægra en 0,001].

Samtímis framangreindri rannsókn gerði ég úttekt á þætti áfengis við drukknun, fall, brunaslys og heimaslys meðal vestrænna þjóða. Í ljós kom að áfengisnotkun gat verið samverkandi þáttur í allt að 50–70% þessara slysa (meðaltal 30–35%). Sérstök úttekt á um 7 þús. heimaslysum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 1979 leiddi í ljós að áfengi var samverkandi þáttur í um 40% dauðaslysa og vitnað er í Heimaslys sem er rit frá landlæknisembættinu frá 1987. Hingað til hafa ekki mörg vinnuslys hér á landi verið skráð á kostnað áfengisnotkunar, en er stórt vandamál t.d. í Danmörku, Vestur-Þýskalandi og fleiri löndum þar sem bjór er almenn neysluvara.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er áfengisnotkun samverkandi þáttur í 70–90% ofbeldisslysa. Könnun var gerð á kjálkabrotum einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu sem leituðu til slysadeildar Borgarspítalans fyrir nokkru og vitnað er í Sigurjón Ólafsson tannlækni. Í ljós kom að hlutdeild slagsmála var 45% á Íslandi eða svipað og í Finnlandi. Í öðrum vestrænum löndum voru slagsmál í 8–30% tilfella orsök kjálkabrota. Athyglisvert var að konur verða mun oftar fyrir kjálkabrotum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Á Íslandi var áfengisnotkun samverkandi þáttur við kjálkabrot í 90% tilfella“ — og þetta eru alvarlegar niðurstöður, að drukknir menn berja konur svo að þær kjálkabrotna mun oftar á Íslandi en í öðrum löndum.

„Athugað var hvort breytileg meðalævilengd í 17 löndum í Evrópu stæði í sambandi við heildaráfengissölu í viðkomandi landi. Marktækt samband [og það er P sem er lægra en 0,05] reyndist milli heildaráfengissölu og meðalævilengdar karla, en hins vegar ekki marktækt samband milli áfengissölu og meðalævilengdar kvenna. Heildaráfengissala reyndist skýra 30% af breytileika meðalævilengdar karla, en hins vegar aðeins 13% fyrir konur. Athyglisvert er að á Íslandi er áfengissala einna minnst og ævilíkur mestar. Það er alþekkt læknisfræðileg staðreynd að mikil áfengisneysla styttir líf manna, annað að konur neyta undantekningarlaust mun minna áfengis en karlar. Þessar tvær staðreyndir styðja þá tilgátu að með því að draga úr heildarsölu megi auka ævilíkur. Línuritið um áfengisneyslu og ævilíkur er að vísu ekki sönnun um orsakatengsl fyrrnefndra þátta, en rennir styrkum stoðum undir læknisfræðilegar staðreyndir. Mikil ábyrgð fylgir að stuðla að auknu áfengisflæði hér á landi.

Aðgengileiki og verðstýring að verulegu leyti virðast vera þeir þættir sem stjórna áfengisneyslu. Það er því mikil einföldun á flókinni orsakakeðju þegar birt eru línurit er sýna að dregið hafi úr heildaráfengissölu í Svíþjóð samtímis því að bjórsala hófst í vínbúðum þar og jafnframt talið að sala bjórs hafi valdið minni neyslu sterkra drykkja. Það gleymist að samtímis þessum breytingum urðu miklar verðhækkanir á áfengi í Svíþjóð og þá sérstaklega sterkum drykkjum. Ef bjórfrv. verður samþykkt á Alþingi legg ég til að sterkri verðstýringu verði beitt til þess að freista þess að koma í veg fyrir aukningu á áfengisflæði í landinu eins og Svíar gerðu.“

Og síðan er samantekt þessarar greinar: „Áfengisstefnan er býsna ströng á Íslandi og þar af leiðandi er tíðni skorpulifrar og dánartíðni í umferð lægri en í öðrum löndum. Áfengisnotkun virðist þó vera jafnoft samverkandi þáttur í slysum og ekki síst ofbeldisslysum á Íslandi og í nágrannalöndunum. Trúlega hefur þó ströng áfengisstefna stuðlað að langlífi á Íslandi. Sala áfengs öls virðist yfirleitt hafa aukið áfengismagn í umferð, t.d. á Norðurlöndunum ef dæma má af reynslu Skandínava og Breta.“ Og vitnað er í rit sem heitir „Alcohol or Narcotica“ eftir H.V. Fekjær, British Journal of Addiction.

„Nokkrar deilur hafa orðið um þetta atriði og stjórnast þær meira af tilfinningahita en rökrænni hugsun. Enginn“ — og ég vil leggja áherslu á þetta — „hefur þó getað bent á sönnun þess að sala áfengs öls hafi að öllu jöfnu dregið úr áfengisflæði.

Með samþykkt bjórfrv. í þeirri mynd sem það er tel ég að hleypt væri af stað mjög vafasamri tilraunastarfsemi. Út frá heilsufarslegu sjónarmiði get ég því miður ekki gerst meðmælandi frv. Aðgerðir sem stuðla að aukinni áfengissölu ganga gegn yfirlýstri stefnu um heilbrigði, um langlífi fyrir alla árið 2000.

Enginn vafi leikur á að verðstýring er mikilvægur þáttur við stjórnun á sölu áfengis og hefur þar af leiðandi mikil áhrif á tíðni sjúkdóma og slysa. Legg ég til að Alþingi setji ákvæði í lög um að tekið skuli tillit til tillagna heilbrigðisyfirvalda í þessu efni, en hingað til hafa heilbrigðisyfirvöld vart verið virt viðlits í þessu efni“ og lýk ég þá tilvitnun minni í orð landlæknis.

Aðrir komu einnig á fund nefndarinnar og vil ég sérstaklega geta þess að Höskuldur Jónsson, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, var spurður um hvort sú verslun væri í raun viðbúin því að versla með bjór ef þetta frv. yrði samþykkt. Kvað hann engan viðbúnað vera til slíks og hafði talsverðar áhyggjur af því hvernig ætti að fara með hið mikla magn sem ætla má að verði selt. Mig minnir að núverandi magn áfengis sem verslað er með hérlendis sé rúmar 3 millj. lítra og það mundi aukast trúlega um 7 millj. lítra og verða 10 millj. lítra eða eitthvað því um líkt. Ég þori þó ekki alveg að fullyrða um þessar tölur. Er það rétt? (Gripið fram í.) Já, þá er það rétt sem ég fer með. En það er talsvert mikil aukning sem krefst auðvitað bæði stærra húsnæðis og flutningsvagna og því fylgir töluvert mikill kostnaður fyrir verslunina.

Það var einnig á máli hans að heyra að hann byggist við því og taldi reyndar að það mundi þá verða framleiðendanna að sjá um birgðageymslu því að það yrði mjög kostnaðarsamt fyrir Áfengisverslunina að gera það.

Hann taldi einnig mjög líklegt að í náinni framtíð yrðu gerðar kröfur um að bjór yrði seldur annars staðar en í Áfengisversluninni og taldi að erfitt yrði að verða ekki við þeim kröfum. Ég vitna í hann eftir minni þannig að ég skal ekki fullyrða nákvæmlega um orðalag hans, en hann taldi samt afar líklegt að bjórinn yrði seldur innan tíðar annars staðar en í áfengisverslunum einungis. Ég vil að það komi fram hér.

Allshn. Nd. bárust fjölmargar umsagnir um frv. og voru þær sendar áfram til Ed. eins og ég sagði áður. Mikill meiri hluti þessara umsagna mælti í raun gegn samþykkt frv. Það vita allir að mjög skiptar skoðanir eru meðal þjóðarinnar um hvort leyfa skuli bruggun og innflutning á áfengu öli án þess að annað verði að gert. Það kemur reyndar glögglega fram, þegar skoðanakannanir eru nánar athugaðar, að stuðningur við þetta mál er mestur meðal þeirra sem yngri eru, en strax um miðjan aldur breytast hlutföllin þannig að fólk sem komið er yfir miðjan aldur og þaðan af eldra, meiri hluti þess, er andvígt bjór. Þetta kemur fram í plaggi sem sent var alþm. og er frá samvinnunefnd bindindismanna, en þar eru skoðanakannanir nánar athugaðar og skilgreindar, en ég mun ekki eyða tíma deildarinnar í að fara ítarlega út í það efni hér en vísa til þess sem alþm. var sent.

Fjölmörg félagasamtök og einstaklingar hafa sent þingmönnum áskoranir, ályktanir og yfirlýsingar. Þær eru nær undantekningarlaust á einn veg, að þær skora á þingmenn að samþykkja ekki frv. Ég hef þegar vitnað í tvær eða þrjár slíkar áskoranir og mun ekki eyða tíma deildarinnar til þess að vitna í fleiri þó sannarlega væri ástæða til þess. Ég vil samt, ef ég má með leyfi virðulegs forseta, vekja athygli á umsögn sem Tómas Helgason læknir hefur sent til nokkurra alþm. Það eru hugleiðingar hans vegna breytinga á áfengislöggjöfinni. Hann hefur um áratuga skeið stundað rannsóknir á áfengisneyslu í samvinnu við aðra og ég bendi hv. alþm. á að ná sér í næsta Læknablað, ég er hér með próförk af aprílhefti blaðsins, þar sem stór hluti þess fjallar einmitt um niðurstöður rannsókna á áfengissýki og áfengisneyslu. Hugleiðingar hans eru eftirfarandi, ef ég má vitna til þeirra með leyfi forseta, og ég vil aðeins áður en ég hef tilvitnun í þessar hugleiðingar leggja ríka áherslu á þetta atriði vegna þess heilbrigðis- og félagsvanda sem hlýst af aukinni heildarneyslu. Það finnst mér vera meginmál og nauðsynlegt að dvelja aðeins við það þó að það kosti nokkrar mínútur:

„Á undanförnum rúmum 60 árum hefur sífellt verið dregið úr hömlum á sölu áfengis hér á landi og það gert æ aðgengilegra þrátt fyrir að mönnum hafi verið ljósar hætturnar sem gætu stafað af neyslu áfengis, einkum fyrir aðra en þá sjálfa. Rökin sem beitt hefur verið hafa jafnan verið svipuð, að auka frjálsræði og jafnrétti þegnanna sem eiga að bera ábyrgð á eigin lífi. Allar breytingar á áfengislöggjöf hafa átt að bæta áfengismenningu okkar, draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir slys og sjúkdóma. Aldrei hefur beinlínis verið reiknað með að notkun ykist þó að sú hafi orðið raunin. Alltaf hefur verið talað um nauðsyn fræðslu, hana yrði að auka og bæta svo komið yrði í veg fyrir misnotkun og fólk gæti betur haft stjórn á neyslu sinni.

Reynslan hefur hins vegar orðið þveröfug. Áfengisnotkun hefur stöðugt vaxið, ofnotkun orðið enn meiri og sjúkdómstilvikum og slysum sem rakin verða til áfengisnotkunar fjölgað og lítið hefur orðið úr fræðslunni eða a.m.k. sést ekki árangur hennar hvað heildaráfengisneyslu þjóðarinnar varðar. Þrátt fyrir breytingar í frjálsræðisátt er enn beitt helstu aðgerðum hér á landi sem annars staðar eru taldar nauðsynlegar til að halda heildarneyslu niðri. Verðlagið er hátt, en hefur haldist nokkuð stöðugt miðað við kaupmátt tímakaups í 50 ár. Reynt hefur verið að hafa það misjafnt eftir styrkleika og breyta verðhlutföllum á milli brenndra vína og léttari vína án þess að það hefði áhrif á heildarneyslu eða drykkjuvenjur svo nokkru næmi. Bannað er að auglýsa áfengi en áfengiskynning er samt mjög mikil í fjölmiðlum og umræða um það yfirleitt jákvæð.

Ríkið hefur haft einkasölu og útsölustaðir verið tiltölulega fáir og með hefðbundnum hætti þar til á síðasta ári að opnuð var ein vínbúð með kjörbúðarsniði og önnur í tengslum við almenna verslun. Þetta ásamt mjög mikilli fjölgun vínveitingastaða á síðustu árum hefur gert áfengi aðgengilegra en áður. Mikil ásókn er í að gera það enn aðgengilegra með fjölgun útsölustaða og enn frekari fjölgun vínveitingastaða. Mest mun aðgengileikinn þó aukast með tilkomu áfengs öls sem nú virðist vera meiri hluti fyrir á Alþingi. Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að hafa einhverja stjórn á framboði og sölu áfengis og allir um nauðsyn á því að draga úr eftirspurn.

En hvernig á að ná þessum markmiðum? Um það er verulegur ágreiningur. Því ber brýna nauðsyn til að setja fram nýja heildarstefnu í áfengismálum áður en framkvæmd verður sú róttæka breyting sem nú er rætt um. Ef slíkt verður ekki gert er ólíklegt að takast muni að ná markmiðum íslenskrar heilbrigðisáætlunar um að draga úr heildarneyslu og tíðni ölvunardrykkju og áætlunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að draga úr heildarneyslu um 25% fram til aldamóta.

Leita þarf nýrra leiða til að hafa stjórn á heildarneyslu landsmanna og til að fræða þá um nauðsyn og gagnsemi slíkrar stjórnunar. Jafnframt þarf að finna nýjar og áhrifaríkari aðferðir til að draga úr eftirspurn og kveða skýrt á um hvort tveggja í löggjöf um sölu og framleiðslu áfengis.

Áfengismálanefnd ríkisstjórnarinnar setti fram hugmyndir sínar um stefnu í áfengismálum í janúar 1987. Þær eru allrar athygli verðar og ástæða til að ræða þær nánar þó að meiri hluti alþm. virðist vera sumum andvígur.

Ýmsar fleiri leiðir þarf að kanna. Setja mætti í lög að heildarneysla landsmanna skyldi ekki fara fram úr því sem nú er og síðan minnkuð um 2% á ári til aldamóta. Jafnframt yrði ákveðið hvernig þessu markmiði yrði náð. Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til þess að einkaaðilar hafi ekki hagnað af áfengisframleiðslu eða sölu og að engir eigi afkomu sína undir slíkri starfsemi. Þetta á ekki síst við um veitingahús og framreiðslufólk.

Áfengisverslun ríkisins ætti að ákveða verð á áfengi á vínveitingastöðum og allt verðið ætti að renna til hennar. Ef rétt er að vínveitingastöðunum sé jafnmikil nauðsyn á að selja áfengi og sagt er vegna gesta sinna ætti að vera nóg að fá að afgreiða áfengi án þess að hagnast á því í von um að selja annað sem þeir hagnast meira á. Nauðsynlegt er að kanna hver hafi verið reynslan af kjörbúðarfyrirkomulaginu og ákveða hvort slíkt eigi að viðhafa áfram. Talið er að kjörbúðin í Kringlunni hafi annars konar viðskiptavini og selji jafnvel frekar aðrar tegundir en þær vínbúðir sem fyrir voru. Tryggja þarf áhrif heilbrigðisstjórnarinnar á verðlagningu svo að verði sé stýrt til að draga úr neyslu en ekki til að afla ríkissjóði tekna.

Til að draga úr eftirspurn er ekki nóg að veita börnum og unglingum fræðslu um áfengi heldur þarf að leggja áherslu á fullorðinsfræðslu og heilsufarslegt gagn hófsemi og bindindis. Hér hafa ríkisfjölmiðlar sérstöku hlutverki að gegna þar eð sumir einkafjölmiðlar hafa beinlínis haldið uppi áróðri gegn bindindi. Þessari fræðslu þarf að koma á framfæri með ýmsum hætti og ekki hvað síst með fordæmi opinberra aðila. Merkja þarf allar umbúðir sem innihalda áfengi með aðvörun um að áfengi sé vímugjafi sem gæti verið vanabindandi og skaðlegur heilsu manna ásamt upplýsingum um áfengismagn innihaldsins. Ameríska læknafélagið hefur lagt til að þetta verði gert í Bandaríkjunum og munu nokkur fylki þegar hafa framkvæmt þessa ábendingu.

Taka þarf afstöðu til þessara og fjölmargra annarra atriða sem geta haft áhrif á framboð og eftirspurn áfengra drykkja áður en núverandi löggjöf verður breytt í þá veru að leyfa sölu áfengs öls. Sé það ekki gert er veruleg hætta á aukinni heildarneyslu áfengis í landinu og tilsvarandi auknum heilsufarsskaða.“

Þetta voru hugleiðingar manns sem hefur um margra áratuga skeið rannsakað afleiðingar ofneyslu áfengis og ég tel þær allrar athygli verðar og sannarlega ýmislegt í þeim sem framkvæma mætti í tengslum við þá umræðu sem hér fer fram nú og hefur farið fram á þessu þingi nú í vetur.

Þó að heildarneysla áfengis sé minni hér en víða í nágrannalöndum okkar eigum við síst við minni heilbrigðis- og félagslegan vanda að stríða vegna áfengisneyslu og áfengissýki en aðrar þjóðir. Allir hljóta að vera sammála um að koma þurfi í veg fyrir þennan vanda, m.a. með því að draga úr heildarneyslu áfengis.

Miklar umræður hafa orðið á undanförnum árum um vímuefnanotkun barna og unglinga sem fer vaxandi meðal vestrænna þjóða og er víða orðin að alvarlegum vanda. Reynslan sýnir að neysla áfengis er yfirleitt undanfari neyslu annarra og hættulegri vímuefna og reyndar sýnir reynsla margra þjóða að þar sem bjór er á boðstólum byrja unglingar jafnan drykkju fyrr en ella.

Löngu er orðið brýnt að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuefnamálum.

Þann 7. maí 1981 var samþykkt ályktun á Alþingi þar sem skorað var á ríkisstjórnina að láta nú þegar undirbúa tillögur um opinbera stefnu í áfengismálum. Fjölmenn nefnd var skipuð til að vinna að undirbúningi slíkra tillagna og skilaði hún niðurstöðum í janúar 1987. Tillögurnar eru ítarlegar og vel unnar í anda þeirrar stefnu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur mótað í þessum efnum og benda má sérstaklega á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beint því til aðildarþjóðanna að minnka áfengisneyslu um fjórðung til aldamóta. Að því marki er nú stefnt meðal allra menningarþjóða.

Íslensk heilbrigðisáætlun sem lögð var fram á síðasta þingi og rædd ítarlega á fjölmennu heilbrigðisþingi þann 5. febr. sl, er einnig sniðin í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og samhljóða tillögum nefndarinnar. Í heilbrigðisáætluninni segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Skaðleg notkun áfengis. Enda þótt heildarnotkun áfengis á Íslandi sé minni en í flestum löndum er það staðreynd að óæskileg heilsufarsleg áhrif áfengisneyslu eru mikil á Íslandi. Þess vegna verður að vinna að því að minnka heildaráfengisneyslu og útrýma ofneyslu.“

Og síðan er markmið 8 í þessari áætlun: „Markmiðið er að minnka og eyða að lokum alveg óæskilegum heilsufarslegum áhrifum áfengisnotkunar.

Almenna neyslu áfengis þarf að minnka. Á næsta hálfum áratug verður lögð sérstök áhersla á upplýsingastarfsemi og ráðgjöf sem heilbrigðisgeirinn veitir, svo og að greina áfengisvanda á byrjunarstigi.

Það á að stofna til samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda og félagasamtaka sem hafa bindindi á stefnuskrá sinni og reyna að efla starf þessara samtaka.

Verð áfengra drykkja þarf að hækka á næstu fimm árum þannig að verðið hækki árlega umfram verðlag og sterkt áfengi meira en létt.

Sett verði áætlun til að ná þessum markmiðum og hún endurskoðuð á fimm ára fresti, fyrst árið 1990.“ Tvískinnungur og ósamræmi þykir mörgum ríkja nú í meðferð áfengs öls á Íslandi þar sem sumir geta keypt og neytt þess, en aðrir ekki. Hér eru einnig á boðstólum fjölmargar tegundir sterkra áfengra drykkja en ekki áfengt öl sem telst til léttra, áfengra drykkja. Á þessu verður best tekið, að mínu mati, með því að móta heildarstefnu í áfengismálum.

Í frv. er lagt til að bæta við nýrri tegund áfengis sem öll líkindi benda til að auka muni heildarneyslu áfengis. Þrátt fyrir það eru engar ráðstafanir fyrirhugaðar til mótvægis sem dregið gætu úr aukinni neyslu.

Með tilliti til þess sem að framan greinir og með hliðsjón af því að ekki er nægilega vel staðið að forvörnum og meðferð barna, unglinga og fullorðinna sem verða fórnarlömb áfengis- og vímuefnaneyslu get ég ekki stutt frv. og legg til að það verði fellt.

Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu sem ég hef hér vitnað til.

Ég vil að lokum gera nokkrar athugasemdir í sambandi við það sem kom fram í atkvæðagreiðslu í Nd. en þar vísaði hæstv. heilbrmrh. í samtal, væntanlega persónulegt samtal, við forstjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, forstöðumann þeirrar stofnunar, sem lýsti undrun yfir því að hér skyldi ekki fást áfengt öl þó hér fengjust sterkir drykkir. Nokkrir læknar höfðu frumkvæði að því að hafa bréfaskipti við stofnunina og fengu þá bréf frá yfirmanni áfengisvarna- og geðverndardeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og í lauslegri endursögn minni segir þar, ef ég má vitna í bréf frá Marcus Grant sem er vísindamaður við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, í geðverndardeildinni:

Það rennur eins og rauður þráður gegnum allt fræðsluefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áfengismál að sterk tengsl eru milli heildaráfengisneyslu einstaklinga og heilbrigðis- og félagslegra vandamála sem hljótast af áfengisneyslu og áfengissýki. Þar af leiðir að þegar mótuð er opinber áfengisstefna er nauðsyn að gæta mikillar varúðar í því að taka skref sem leitt gætu til aukinnar áfengisneyslu einstaklinga þar sem búast má við því að slíkt leiði til samsvarandi aukningar á heilbrigðis- og félagslegum vanda.

Ísland sker sig úr meðal þjóða hvað varðar heildaráfengisneyslu sem er lægri en víða annars staðar. Það er ekki mitt hlutverk að gera athugasemdir við það stjórnmálaferli eða þær ákvarðanir sem liggja að baki þeirri umræðu sem nú er á þingi yðar. Þó er rétt að hugleiða það að frá hollustusjónarmiði mun viðbót nýrrar áður óleyfðrar áfengistegundar að öllum líkindum auka heildaráfengisneyslu nema gripið verði til annarra ráða sem miða sérstaklega að því að koma í veg fyrir slík áhrif.

Þetta er meginefni þessa bréfs og þar sem þetta er líka meginefni í nál. sé ég enga leið til þess að samþykkja frv. sem ekki er um leið viðbúið til að taka á þeim vanda sem aukin heildarneysla býður upp á. Hitt er svo annað mál að einmitt vegna þess hve skort hefur á fræðslu og hversu þeir sem hafa stundað hana, jafnvel haft það að starfi fyrir hið opinbera, hafa átt undir högg að sækja með þessa fræðslu og vegna brtt. í Nd., sem fjallaði um auknar fjárveitingar til slíkrar fræðslu sérstaklega með tilliti til samþykktar frv. þar sem búast mætti við aukinni heildarneyslu, vil ég benda hv. þm. á að tveir aðilar, sem sjá um fræðslu í ávana- og fíkniefnum hjá skólaþróunardeild menntmrn. annars vegar og hjá áfengisvarnaráði hins vegar, hafa sagt upp störfum sínum vegna þess að tillagan var felld í Nd. og mig langar að vitna lítillega í það bréf sem þeir sendu ráðherrum heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála, með leyfi forseta:

„Hæstvirtir ráðherrar.

Á undanförnum árum hefur verið unnið verulega að því að koma baráttunni gegn áfengisvandamálum í farsælli farveg. Í því skyni m.a. var stofnuð nefnd að frumkvæði Alþingis undir stjórn heilbrrn. og átti að leggja drög að opinberri áfengismálastefnu á grundvelli stefnumörkunar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem leggur til að dregið verði úr neyslu áfengis til að stuðla að bættu heilbrigði fólks. Nefndin skilaði ítarlegum tillögum til ríkisstjórnarinnar 1986.

Í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er í víðtækri áætlun um heilbrigði og heilsuvernd hér á landi gert ráð fyrir því að draga verulega úr neyslu áfengis til næstu aldamóta. Mikil áhersla hefur verið lögð á að virkja skólakerfið í forvarnarstarfi, einkum grunnskólann, sbr. lög nr. 23/1983, þar sem bætt er í grunnskólalögin frá 1974 ákvæði um fræðslu um áhrif áfengis og annarra fíkniefna. Verulegt átak var gert í þessari fræðslu í tíð tveggja fyrrv. ráðherra, Ragnhildar Helgadóttur og Sverris Hermannssonar, með ráðningu námsstjóra í hálft starf í fræðslu um þessi efni og ákvörðun um útgáfu viðamikils námsefnis. Allt er þetta gert í þeirri trú að fræðsla um fíkniefni hafi áhrif á viðhorf fólks til þeirra og neyslu þeirra. Enn telja margir sig sæla í þeirri trú og fræðsla oftast nefnd til lausnar þess vanda sem neyslu þeirra fylgir.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt, innan þings og utan, hvort leyfa beri sölu áfengs öls í landinu. Í tengslum við þá umræðu hefur farið fram mikil fræðsla í formi greinargerða og samantekta á ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum um áfengt öi. Ekki síst hefur þessari fræðslu verið beint til alþm. Nær allar þær upplýsingar sem komið hafa fram benda til að leyfi til sölu áfengs öls í landinu verði til þess að neysla áfengis aukist og þá um leið vandamál vegna þess.

Þrátt fyrir þessar upplýsingar og framangreinda stefnumörkun sem miðar að því að draga úr neyslu áfengis hefur meiri hluti alþm. í Nd. Alþingis, og þar með taldir þið, yfirmenn okkar, ráðherrar heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála, ekki séð ástæðu til að taka tillit til þeirra eða láta þær ráða afstöðu ykkar við afgreiðslu á frv. sem felur í sér að leyfa sölu á áfengu öli í landinu. Þetta er mikið áfall fyrir fræðslu- og upplýsingastefnuna í áfengis- og fíkniefnamálum og með þessu hafið þið og fleiri þm. komið slíku óorði á fræðslu sem leið í forvarnarstarfi að við teljum hana rúna trausti.

Við undirritaðir sem höfum sinnt fræðslu- og upplýsingastarfi um áfengis- og önnur fíkniefnamál meðal skólanema, kennara og kennaranema um árabil teljum okkur því ekki fært að sinna þessum störfum áfram þar sem ætla má að við önnur öfl sé að etja en þau sem aukin þekking fær við ráðið, enda teljum við hæpið að gera ráð fyrir því að landsmenn almennt taki fremur mark á fræðslu okkar en alþm. og ráðherrar á fræðslu og upplýsingum mun fróðari og hæfari fræðara.“

Undir þetta rita 2. maí Ingólfur Guðmundsson og Árni Einarsson.

Ég hef nú í nokkru máli reynt að vekja athygli á mikilvægi þess heilbrigðis- og félagslega vanda sem hlotist getur af því að auka við heildarneyslu áfengis án þess að gripið sé til einhverra aðgerða til að reyna að finna mótvægi og draga úr neyslu áfengis.

Ég hef þegar sagt að ég leggi til að þetta frv. verði fellt. Hins vegar vil ég líka að það komi skýrt fram að þetta er ekki mál sem varðar einungis þá 63 einstaklinga sem sitja á Alþingi, jafnvel þó að þeir séu kosnir til að sinna fulltrúastörfum fyrir þjóðina. Þetta er mál sem flestir hafa myndað sér skoðanir um og það eru mjög skiptar skoðanir um þetta mál meðal þjóðarinnar. Mér finnst það vera beinlínis kjörið og ég sé ekki annað en að það séu langar og gamlar hefðir fyrir því að þjóðin sjálf fái að ákveða um mál eins og þetta. Svo miklu skiptir það okkur öll sem heild. Þess vegna mun ég styðja tillögu ef fram kemur um að vísa þessu máli til þjóðarinnar þannig að við getum öll tekið afstöðu til þessa máls en ekki einungis lítill hópur 63 aðila þó að við séum kjörnir fulltrúar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.