05.05.1988
Efri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7518 í B-deild Alþingistíðinda. (5602)

293. mál, áfengislög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég ræddi efni þessa frv. nokkuð við 1. umr. og mun því ekki drepa á mörg atriði, en þó geta aðeins um þá reynslu sem ég fékk af þessu máli af veru í dómsmrn. um nokkurt skeið. Þá var hér hafin sala á bjórlíki og hafinn áróður fyrir sölu og neyslu á því. Miðað við þann fjölda sem til mín kom í dómsmrn. sem hafði verið tekinn ölvaður við akstur vegna neyslu á einu eða tveimur bjórglösum fór það ekki milli mála að aukin bjórneysla eykur á ölvun við akstur. Þeir sem því vilja styðja að því að auka bjórneyslu eru þá vísvitandi að stuðla að akstri manna undir áhrifum áfengis og allir vita hvað slíkt hefur í för með sér. Það þýðir lítið að tala þá um mikla einlægni í því að vilja vinna gegn slysum í umferð en sýna svo annað í verki.

Hitt atriðið, sem einnig kom glöggt fram á þeim tíma sem bjórlíkissalan var, var að þeir útsölustaðir sem spruttu þá upp fyrir þann drykk urðu samastaður fyrir þá sem vildu fiska í gruggugu vatni og græða á því að selja ólögleg fíkniefni og þá einnig af því að þeir töldu þar vera gott andrúmsloft fyrir þá starfsemi. Þannig er með þessu tvímælalaust verið að leggja grundvöll að stöðum sem þannig fer með.

Mér finnst að þó ekki séu nema þessi tvö atriði, sem ég bendi á, séu þau svo alvarleg að hver einasti maður hljóti að verða að hugsa um afleiðingarnar.

Það hefur verið bent á í umræðunum að það sé æskilegra að flytja birgðageymslu ölsins af heimilunum yfir í Áfengisverslunina. En ætli menn fari í áfengisverslun til að kaupa eina og eina bjórdós? Ætli það verði ekki nokkuð meira magnið sem innkaupin verða og það síðan geymt í kæliskápum heimilanna ekki síður og auðvitað í miklu ríkara mæli?

Þeir sem mæla með samþykkt frv. leggja líka áherslu á að það þurfi að efla starf bindindisfélaga og annarra sem vilja vinna í þá átt. Það eiga sem sagt einhverjir aðrir að bjarga samfélaginu þó að hér sé verið að samþykkja frv. sem tvímælalaust eykur þrýsting á áfengisneyslu. Það stoðar lítið að tala um að einhverjir aðrir eigi að vinna varnaðarstarf ef síðan er sunginn dýrðaróður um blessun þess að hafa þennan drykk í sem ríkustum mæli og það séu mannréttindi og grundvöllur að lífshamingju eins og kom fram í 1. umr. málsins.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að þessu sinni. Ég vænti þess að hv. Ed. muni fella frv. sem hér liggur fyrir.