05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7584 í B-deild Alþingistíðinda. (5628)

360. mál, umferðarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er raunar um tvö mál að ræða, þ.e. frv. er tvíþætt. Það getur vel verið að Bifreiðaeftirlitið hér í Reykjavík hafi ekki nægilega hæfum mönnum á að skipa þannig að óhjákvæmilegt sé að rústa það og byggja svo upp á nýtt. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að með þessum skipulagsbreytingum komi þjónusta a.m.k. í mínu kjördæmi til með að versna til muna. Þegar af þeim ástæðum sé ég mikla annmarka á frv.

Hér er enn haldið áfram þeirri óskemmtilegu þráhyggju að reyna að koma á fastnúmerakerfinu og vísaði hæstv. dómsmrh. til útreikninga frá Hauki Ingibergssyni á fylgiskjali 8 í þessu plaggi þar sem Haukur Ingibergsson reiknar prósentureikning. Þessi prósentureikningur er rangur. Það hefur verið margbent á það að ríkið hefur tekjur en ekki kostnað af þessari umskráningu. Ég sé ekkert á móti því að ríkið hafi af henni tekjur. Ég tel að bílaeigendur eigi að borga það sem það kostar að færa númer á milli bifreiða og ég tel að þeim eigi að vera frjálst að gera það ef þeir svo kjósa. Ef hins vegar bíleigendur kæra sig ekkert um að halda í númerin sem þeir hafa haft á þeim að vera það frjálst að láta þau fara með bílunum og losna við þá fyrirhöfn sem af því hlýst að skrúfa númeraplötur af eða á. Ég tel að stjórnvöld hafi marga aðra möguleika til þess að „irritera“ fólkið í landinu og nærtækari og neyðist stundum til að gera það. Ég tel að það reki engin nauður til að láta svona við bílnúmerin. Og ég tel að það sé röng hugsun sem að baki þessu liggur og alveg óþörf meinsemi því meinsemi er það sem rekur menn áfram til þess að standa fyrir þessari breytingu.

Ég leyfi mér að flytja brtt. við frv., við 2. gr. frv., að hún falli brott. Legg ég hér fram brtt., herra forseti.