05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7587 í B-deild Alþingistíðinda. (5633)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingdeildarmönnum fyrir að sýna þessu máli svona mikinn áhuga í matartímanum. Ég get fullvissað hv. 1. þm. Norðurl. v. um það að þjónustan í hans kjördæmi mun ekki versna við þessa breytingu. Þvert á móti mun hún batna og ég ætla aðeins að skýra hvers vegna það verður.

Hver er sú þjónusta sem Bifreiðaeftirlitið veitir nú og hver er sú þjónusta sem það ætti að veita? Sannleikurinn er sá að Bifreiðaeftirlitið veitir núna ekki fullnægjandi þjónustu neins staðar á landinu, því miður, vegna þess að það er ekki í stakk búið til þess að mæla það sem mestu varðar, þ.e. bremsuhæfileikana á bílunum. Það er sérstaklega alvarlegt fyrir þunga bíla og ég veit að það fara margir þungir bílar um kjördæmi hv. 1. þm. Norðurl. v. Reyndar er það svo að þar eru mjög alvarleg umferðarslys tíðari heldur en í flestum öðrum kjördæmum. Þetta er m.a. vegna þess að mínum dómi að það skortir á um hemlaprófanir á Íslandi. Það er hart að þurfa að segja þetta, en svona er þetta. Til þess að gera þetta þarf nýja tækni. Það þarf mælingar og til þess þarf skoðunarstöðvar, til þess þarf fjárfestingu. Það er eðlisbreyting á eftirlitinu. Þess vegna er tillagan gerð um nýja fjárhagslega uppbyggingu og að þetta verði ekki gert bara út á ríkið, heldur verði þeir sem í þetta leggja fé að sjá fyrir því að heimta það aftur og það verði samsvörun á milli fyrirhafnar og gjalds.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að það koma verulegir peningar inn í tengslum við bílana. Það er kannski skattur sumt en sumt gjald fyrir veitta þjónustu. Hún þarf að batna. Það þarf líka að breyta öðru. Fólki er hóað saman á ákveðnum tíma með alla bílana í sama kjördæmi eða sama númerasvæði. Í staðinn þarf að koma þessu fyrir eins og í annarri þjónustu að menn fái tíma til þess að koma með bílinn og þurfi ekki að bíða þarna tímunum saman í ótímasettum biðröðum. Þetta eru hlutirnir sem breyta þarf og það er fullkominn misskilningur hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að menn geti losnað við umskráninguna ef þeir kjósa. Það er einmitt vandinn, þeir geta það ekki ef bíllinn sem þeir kaupa, t.d. notaður bíll, færist á milli umdæma, þá verður að breyta. Það er þessi fyrirhöfn sem við eigum að losna við því það er aðeins brot af hópi bíleigenda sem kærir sig um að flytja. Það er einmitt kjarnaorðið; ef þeir kjósa. Mér virðist þess vegna að hv. 1. þm. Norðurl. v., svo skýr sem hann annars er, hafi þarna alveg skotist yfir kjarna málsins. Hvað sem líður prósentureikningi Hauks Ingibergssonar þá bið ég hann að athuga málið aftur.

Það eru reyndar fleiri skjöl í þessu plaggi heldur en þau sem merkt eru Hauki Ingibergssyni, sem ég vil þó engri rýrð á varpa. Þarna eru líka greinargóðar yfirlýsingar frá Bílgreinasambandsmönnum sem sýna það allar að þarna er mikil óþörf fyrirhöfn og reyndar öryggisleysi líka um viðskipti með bíla. Allt þetta er hægt að laga og þarna er mikill sparnaður á ferð og það er einmitt þess vegna sem þetta tvíþætta mál er samfléttað. Þetta fyrirtæki, Bifreiðaeftirlitið, verður m.a. á viti byggt ef fast númerakerfi er tekið upp vegna þess að þar með verður reksturinn ódýrari og auðveldara að láta þetta vinna fyrir sér. Þetta eru nefnilega samtengdir þættir. Þetta er sama málið, þess vegna er þetta flutt saman. Ég tala ekki um þriðja þáttinn sem eru heimildir fyrir sveitarfélögin til að sekta menn fyrir stöðubrot og fjarlægja bíla ef í það fer. Þetta eru nefnilega málin sem þarna er verið að ræða og ég vildi fara fram á það við hv. 1. þm. Norðurl. v. að skoða málið að nýju og velta því fyrir sér hvort það kunni að vera í því eitthvað sem hann hafi ekki áður séð.

Ég sný mér svo að því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. kom hér að í sínu máli og ég þakka honum stuðning við breytingu á númerakerfinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt í þessu máli. Um spurningar hans hvernig hugsuð sé þjónusta úti á landsbyggðinni, þá vil ég svara því svo að hugsað er að þar séu fastar stöðvar, ein í hverju kjördæmi en hugsanlega líka færanlegar stöðvar. Þetta yrði ákvörðunarefni hins nýja hlutafélags en ekki hlutur sem ætti að vera hægt að segja fyrir um nú. Þar verður hagkvæmni að ráða en líka þjónusta. Ég tek það fram að í lýsingunum sem hér eru fram lagðar í grg. verkfræðingsins og þeirra annarra sem unnið hafa að þessu verki er líka brotið upp á því að semja við verkstæði þar sem það er hentugasta lausnin. Þarna tel ég að menn eigi ekki að útiloka neina leið og kjörorðið á alltaf að vera: Þetta eru þjónustufyrirtæki fyrir fólkið, þetta eru öryggistæki fyrir almenning, þetta er tilraun til þess að breyta eðli þjónustunnar. Þetta eru lausnirnar sem á að reyna og ég er sannfærður um að ef við fáum leyfi þingsins til þess að snúa inn á þessa braut þá muni enginn sjá eftir því síðar og alls ekki þeir sem búa í Norðurlandi vestra.

Ég ætla ekki, held ég, að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég vildi þakka hv. 3. þm. Austurl. fyrir hans stuðning við númerakerfisbreytinguna og fullvissa hann um, á sama hátt og ég hef reynt að fullvissa aðra, að ég tel að félagsstofnunin sé hið mesta framfaramál og það sé tími til kominn að við reynum að breyta þessu. Þetta er mjög gagnrýnd þjónusta nú. Hún er illa liðin af almenningi, t.d. hér í bænum. Það er eðlilegt að byrja hér með móðurskip, en í því felst engin áætlun, ekkert áform um að draga úr þjónustu við fólk út um land, þvert á móti hið gagnstæða. Í þessu felst svo fjarri því engin afturför og ég er alveg sannfærður um það að hv. 1. þm. Norðurl. v. mun sannfærast um þetta þegar hann skoðar málið betur, en auðvitað þurfa jafnan að koma til góðra manna ráð þegar á að bæta þjónustuna.