06.05.1988
Efri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7632 í B-deild Alþingistíðinda. (5653)

271. mál, framhaldsskólar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur gert góða grein fyrir þeirri afstöðu sem minni hl. hefur í þessu máli og hef ég sem áheyrnaraðili að menntmn. skrifað upp á nál. minni hl. Auk þess flyt ég á þskj. 1077 einar sjö brtt. við frv. til laga um framhaldsskóla sem hér liggur fyrir.

Varðandi almenna afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna til frv. um framhaldsskóla vísa ég til þess að við fluttum á þessu þingi, strax í upphafi þings, sjálfstætt frv. til laga um framhaldsskólana. Þetta frv. hafði verið undirbúið af nefnd sem starfandi hafði verið innan flokksins um nokkurt skeið og ég hygg að þess séu ekki mörg dæmi að flokkar í stjórnarandstöðu hafi flutt heildarfrv. að lögum um jafnviðamikinn málaflokk og þann sem hér er um að ræða. Ég held að það sé mat mjög margra skólamanna að hér sé um að ræða gott frv. og að það hafi æðimikið frekar yfir sér faglegt yfirbragð, þetta frv. Alþb., en hlutar af frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram og nú er verið að afgreiða hér. (Gripið fram í: Það var flutt líka í fyrra.) Mér er bent á, sem er rétt, að frv. var ekki einasta flutt nú í vetur heldur líka í fyrra af hálfu þingflokks Alþb. (Gripið fram í.) Það er reyndar ekki því að ég hygg að frumvarpssmíðinni hafi verið lokið á árinu 1985.

Hv. þm. Ragnar Arnalds skilaði nál. minni hl. menntmn. Nd. á þskj. 863 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Löngu er orðið aðkallandi að sett verði samræmd heildarlög um framhaldsskólana. Löggjöf um fjölbrautaskóla er harla frumstæð og gildandi kerfi felur í sér mikla fjárhagslega mismunun gagnvart kjördæmum og sveitarfélögum eftir því hvaða tegundir framhaldsskóla hafa risið þar. Verknám situr ekki við sama borð og bóknám. Kerfið er ósamstætt, býður upp á blindgötur og mótast af allt of mikilli miðstýringu.

Stjórnarfrv. um framhaldsskóla, sem hér er til afgreiðslu, er vissulega til bóta miðað við það kerfi sem enn er við lýði. En þó er frv. það gallað að ekki verður við unað nema gerðar séu á því veigamiklar breytingar. Undirritaður skilar því séráliti ásamt fjölmörgum brtt. á sérstöku þskj." Sumar þeirra endurflyt ég hér í þessari deild, en ekki nærri allar.

„Þingmenn Alþb. í Nd. lögðu fram frv. um framhaldsskóla þegar í byrjun þings. Þar er í veigamiklum atriðum aðra stefnu að finna en í stjórnarfrv. og skal sá munur rakinn hér í fáum orðum:

1. Frv. Alþb. gerir ráð fyrir verulegri valddreifingu frá ráðuneytum menntamála og fjármála til lýðkjörinna fræðsluráða í hverju kjördæmi, til skólastjórna, kennara og nemenda. En frv. ríkisstjórnarinnar mótast af svipaðri miðstýringu og hér hefur verið um langt skeið. Fræðsluumdæmi verða engin og sjálfstæði skólanna mjög takmarkað. Allir þræðir liggja um hendur menntmrh.

Dæmi:

1. Ráðherra skipar skólanefndarmenn eftir tilnefningum sem hann setur sjálfur reglur um og formann nefndarinnar án tilnefningar.

2. Ráðherra skipar skólameistara, óbundinn af vilja skólanefndar.

3. Ráðherra skipar fasta kennara, óbundinn af tillögum skólanefndar og skólameistara.

4. Hvorki nemendur né kennarar eiga nokkurn rétt til áhrifa á skipan skólanefnda, en þeir eiga hins vegar aðild að skólaráði sem virðist þó algjörlega valdalaus stofnun.

Í frv. okkar alþýðubandalagsmanna er ákvæði um að kennarar og nemendur eigi sæti í skólastjórn hvers skóla. Skólastjórnin kýs skólastjóra til fjögurra ára í senn og ræður kennara. Þannig er valdið flutt úr ráðuneytinu til skólasamfélagsins. Jafnframt fær fræðsluráð umdæmisins vald til fjármálalegrar yfirstjórnar og stefnumörkunar sem hingað til hefur verið í ráðuneytinu. Verulega er dregið úr úreltri miðstýringu til að efla sjálfstæði skólanna og laða fram áhuga og frumkvæði heimamanna.

2. Því miður er það svo að stór hluti nemenda heldur ekki áfram námi í framhaldsskóla að loknum grunnskóla. Sumir ná aldrei grunnskólaprófi og aðrir heltast fljótt úr lestinni. Í frv. okkar alþýðubandalagsmanna er lögð á það þung áhersla að reynt sé að fullnægja þroskaþörf allra að skyldunámi loknu en ekki aðeins þeirra 70% nemenda sem halda viðstöðulaust áfram námi í framhaldsskóla eftir því sem skýrslur sýna.

Í stað þess að segja að þeir sem heltast úr lestinni séu ekki hæfir til framhaldsnáms er eðlilegra að líta svo á að framhaldsskólakerfið hæfi ekki öllum nemendum og eigi að gera sig hæft til að bjóða öllum upp á þroskamöguleika sem henta, nám sem þeir ráða við. Þetta viðhorf er ekki fyrir hendi í stjórnarfrv.

Undirritaður vakti máls á þessu við meðferð málsins í nefnd og varð niðurstaðan í nefndinni að breyta 2. gr. frv. Verður orðalag hennar nú miklu nær því sem er í 2. gr. okkar frv., sbr. orðin í brtt. meiri hl. nefndarinnar: „Hlutverk framhaldsskólanna er . . . að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi með því að skapa skilyrði til náms og þroska við allra hæfi . . .“ Eftir sem áður þarf þetta að koma miklu skýrar fram í lögunum og í því skyni flytur undirritaður viðbótartillögu við 1. mgr. 16. gr. svohljóðandi: „Tryggja skal að allir nemendur eigi kost á námi við hæfi.“ Þetta er ein af þeim brtt. sem ég endurflyt í þessari deild og er 5. brtt. á þskj. 1077.

„3. Í stjórnarfrv. eru ýmis ákvæði sem lýsa litlum skilningi á aðstöðu minni skóla í dreifðum byggðum landsins utan þéttbýlissvæðisins við Faxaflóa. Í 32. gr. eru ákvæði þess efnis að framlög ríkisins til skólanna verði miðuð við tiltekna upphæð á hvern nemanda árlega og þessi upphæð verði sem næst jafnhá hvar sem er á landinu. Í 34. gr. er ákveðið það svigrúm að 1,7–2 kennslustundir á viku komi á hvern nemanda í bóknámi eftir stærð og gerð skóla. Þó er veitt viðbótarsvigrúm í verknámi og sérnámi og heimilt að taka tillit til aðstæðna. Augljóst er að kostnaður á nemanda er ekki sá sami í litlum skólum og stórum; oft eru tvöfalt og jafnvel þrefalt fleiri nemendur í kennslustundum á skólasvæðum þar sem nemendur skipta tugum þúsunda en í skóla sem á að fullnægja námsþörf nemenda á tilteknu svæði þar sem aðeins eru 200–300 nemendur í aldursárgangi, jafnvel [mun] færri. Vandamál af þessu tagi verða ekki leyst með þríliðureikningi. Það er ofureinföldun á veruleikanum og slík dæmi ganga aldrei upp. Skólameistarar í minni framhaldsskólum hafa á það bent að þessi þröngu ákvæði geti haft í för með sér stórminnkað námsframboð í minni skólum. Undirritaður leggur því til að þessi ákvæði verði felld brott úr stjórnarfrv.“

Þetta er tillaga sem hv. þm. Ragnar Arnalds flutti í Nd. en því miður var hún felld þar og ég endurflutti hana ekki hér í þessari hv. deild. Ég varð ekki var við það í þeirri nefnd sem um málið fjallaði að áhugi væri þar á því að koma til móts við þessi mikilvægu grundvallarsjónarmið. Síðan segir hér áfram í nál. Ragnars Arnalds:

„Við 1. umr. gagnrýndi undirritaður harðlega að sveitarfélögum væri ætlað að taka fullan þátt í byggingu heimavista. Svo er ekki nú hvorki við menntaskóla né fjölbrautaskóla ef mörg sveitarfélög standa að rekstrinum. Því væri þetta stórt spor aftur á bak. Sem betur fer náðist um það samkomulag í nefndinni að ríkissjóður greiði allan kostnað við byggingu heimavista og ber að þakka fyrir þá breytingu.

Hins vegar er það hæpið réttlæti að ætla sveitarfélögunum að standa undir 40% af byggingarkostnaði framhaldsskólanna eins og stjórnarfrv. gerir ráð fyrir. Víða hefur ríkið byggt menntaskóla og borgað þann kostnað að fullu. Byggðarlög, sem nú eru að hefja byggingu á framhaldsskólahúsum, eru illa sett að þessu leyti að þurfa að borga 40% kostnaðarins. Sanngjarnt virðist að ríkið komi meira til móts við sveitarfélögin og greiði 80% stofnkostnaðar, eins og við alþýðubandalagsmenn höfum lagt til í okkar frv., sbr. og brtt. undirritaðs við stjórnarfrv.“ Það er brtt. 1 sem ég endurflyt hér í þessari virðulegu deild á þskj. 1077.

„Við alþýðubandalagsmenn leggjum mikla áherslu á að lögin um framhaldsskóla verði fyrst og fremst rammi utan um skólastarfið. Innan þessa ramma þurfa skólarnir að hafa sjálfstæði til að þróast. Í frv. okkar er rætt um „rammanámsskrá“ ráðuneytisins og með því lögð áhersla á að afskipti ráðuneytisins verði ekki of smáatriðakennd eða smásmuguleg.

Innan þessa lagaramma þarf að vera svigrúm til valddreifingar og til lýðræðislegrar þátttöku kennara og nemenda skólanna. Skólastarfinu þarf að skapa þess háttar umhverfi með aðild fræðsluráða í héraði að íbúar skólasvæðanna, foreldrar og sveitarstjórnarmenn skynji ábyrgð sína og fylgist með þróun skólanna í stað þess að líta á þá sem útibú ráðuneytisins sem þeir hafi lítið með að gera.“

Hér hef ég gert grein fyrir almennu áliti okkar alþýðubandalagsmanna á frv. sem hér liggur fyrir eins og það birtist í nál. hv. þm. Ragnars Arnalds í Nd.

Vík ég þessu næst aðeins frekar að brtt. á þskj. 1077. Ég hef áður gert grein fyrir 1. brtt. og kem þá að 2. brtt. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 6. gr. bætist ný málsgrein sem orðist svo: Nú eru tveir eða fleiri framhaldsskólar í sama sveitarfélagi og skulu þá skólameistarar stofna til samstarfsnefndar sem fjallar um sameiginleg málefni framhaldsskólanna í sveitarfélaginu. Samstarfsnefnd heldur reglulega fundi. Hún ákveður að öðru leyti sjálf starfsreglur sínar.“

Hvaða sveitarfélag ætli það sé þar sem eru margir framhaldsskólar starfandi? Jú, það er sveitarfélagið Reykjavík. Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir því að skólameistarar framhaldsskólanna í Reykjavík komi saman til reglulegra funda og fjalli um þau mál sem þeir eiga sameiginleg, m.a. um skiptingu Reykjavíkur í skólasvæði að svo miklu leyti sem það getur átt við miðað við það að hér er um að ræða fjölbrautaskóla og nokkuð mismunandi námsframboð í skólunum hér. Þess vegna flyt ég þessa tillögu og mér finnst hún satt að segja svo sjálfsögð að ég held að menn hljóti að geta fallist á hana. Hér er um að ræða mál sem snertir að vísu eitt sveitarfélag, Reykjavík, alveg sérstaklega, en hér eru starfandi milli fimm og tíu framhaldsskólar sem mundu starfa eftir frv. ef að lögum verður og mér finnst satt að segja engin goðgá að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem uppi kunna að vera í Reykjavík í þessu efni. Ég fullyrði að það eru hagsmunir íbúa Reykjavíkur, nemenda og foreldra, að skipulega sé með þessi mál farið hér í byggðarlaginu þannig að ekki sé um að ræða misvísanir að því er varðar námsframboð o.fl. og ekki sé verið að leggja á fólk, nemendur innan byggðarlagsins, óþarfa ferðir langa vegu til þess að sækja tiltekna þætti náms í einum skóla sem væri auðvelt að bjóða upp á í öðrum. Þess vegna er þessi tillaga flutt og satt að segja finnst mér hún næstum að segja sjálfsagt mál.

Öðru máli kann að gegna um 7. gr. frv. en þar er ég með brtt. 3. Þar er ég kominn að þessum makalausu skólanefndum. Ég finn það hér í deildinni og nefndinni, menntmn., að ef við hefðum haft pínulítið lengri tíma hefðum við sennilega getað lagað þetta, sameinað skólanefndirnar og skólaráðin í eina faglega skólastjórn. Mér fannst að í menntmn. Ed. væri verulegur skilningur á þessu sjónarmiði, að þessi nefnd væri, eins og gert er ráð fyrir henni í frv., algjör bastarður.

Hvernig á nefndin að vera? Jú. Yfir hverjum einasta framhaldsskóla á að vera fimm manna skólanefnd, líka yfir Guðna hérna hinum megin við Lækjargötuna. Það eru fjórir tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarstjórn, þ.e. fjórir tilnefndir af borgarstjórn Reykjavíkur, í þessu byggðarlagi sem við erum stödd í, þ.e. borgarstjórn á að búa til yfirstjórn yfir hvern einasta menntaskóla í Reykjavík og fjölbrautaskóla. Svo á að koma fimmti maður, formaður, skipaður af ráðherra. Ef þetta er ekki miðstýring veit ég ekki hvað er miðstýring og ég sé engin rök fyrir því að hafa þessar skólanefndir með þessum hætti. Ég hef heyrt þau rök að gott sé að hafa sveitarstjórnirnar með í uppbyggingu svona skóla. Það er rétt. Þegar staðið er í stórræðum eins og t.d. í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þegar hann var í uppbyggingu eða eins og núna er að því er varðar skólann á Húsavík þá er alveg öruggt mál að það er gott að vera með vökulan stuðning sveitarstjórnarmanna í kringum uppbyggingu skólans. En þegar skólinn er orðinn upp byggður eins og hér í Reykjavík, hvort sem það er Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund eða Menntaskólinn við Hamrahlíð, eru þessi rök ekki á sama hátt fyrir hendi. Það ber að gjalda varhug við því að utanaðkomandi aðilar séu að kássast upp á innri mál skólans eða hafi til þess nokkrar forsendur. Það eiga þeir ekki að gera.

Þess vegna fluttum við brtt. í Nd. um allt annað stjórnkerfi framhaldsskólans, lýðræðislegt stjórnkerfi framhaldsskólans. Þær tillögur voru felldar í Nd. Kvennalistinn flytur nokkrar brtt. varðandi skólanefndirnar og skólaráðin og ég mun styðja þær í atkvæðagreiðslum á eftir, en ég flyt hér sjálfstæða brtt., nr. 3 á þskj. 1077, um að breyta þessum skólanefndum þannig að það verði tveir kosnir af hlutaðeigandi sveitarfélagi, tveir en ekki fjórir, síðan komi einn maður frá ráðherra og svo verði kosinn einn maður úr hópi nemenda, samkvæmt reglum sem settar yrðu í hverjum skóla, og má líka setja um það einhverja reglugerð ef menn vilja, og síðan komi einn maður úr hópi fastra starfsmanna skólans. Ég orða þetta þannig að ég tala um einn af starfsliði viðkomandi skóla vegna þess að starfslið er auðvitað ekki bara kennarar, heldur er t.d. í vaxandi mæli á seinni árum um að ræða alls konar faglegt starfslið við skóla sem tilheyrir einfaldlega nútíma skólahaldi.

Ég flyt þessa till. fyrst og fremst til þess að undirstrika það að mér finnst að kennarar og nemendur viðkomandi skóla eigi skilyrðislaust að eiga aðild að því stjórnarapparati sem um er að ræða í hverjum skóla. Ég segi ekki að mér finnist fyrirkomulagið gott jafnvel þó að mín tillaga yrði samþykkt. Mér þætti það skárra, af tvennu eða þrennu illu skárra, og þess vegna er ég hér með tillögu að ákvæði til bráðabirgða um að þrátt fyrir það að skólanefndunum yrði breytt eigi ríkisstjórnin fyrir næsta þing að leggja fram frv. um endurskipan skólanefnda og skólaráða á þeim forsendum að um verði að ræða faglegar skólastjórnir. Mér satt að segja blöskrar alveg gjörsamlega þetta skólanefnda- og miðstýringarfargan og vona að deildin sé tilbúin til þess að líta á einhverjar minni háttar breytingar þó það væri ekki nema til þess að menn væru sáttari við þetta því að ég er alveg viss um það fyrir mitt leyti að í skólunum hér í Reykjavík verður mikil óánægja með þessar skólanefndir. Ég hygg að hún verði alls staðar, en ég hygg að hún verði alveg sérstaklega mikil hér í Reykjavík vegna þess að hér hafa menn fengið að reka framhaldsskólana á forsendum innri lögmála í friði frá utanaðkomandi afskiptum, hvort sem það eru sveitarstjórnarmenn eða einhverjir aðrir. Menntmrh. Sjálfstfl. hafa þó reyndar gengið rosalega langt í því að skipta sér af alls konar smámálum í rekstri skólanna eins og þegar þeir fóru að kássast upp á það hvort ætti að gefa í bókstöfum eða tölustöfum. Er það nú bara eftir öðru að þegar íhaldið kemst í einhverjar stjórnir þarf það að reyna að stjórna öllu svo samansúrrað að það er engu líkt og þarf að fara óskaplega langt austur í álfuna til að finna samjöfnuð við það sem gerist í Sjálfstfl., því þar eru menn valdagírugri en alls staðar annars staðar.

Síðan flyt ég hér till. nr. 4 á þskj. 1077, sem er í samræmi við stefnu okkar alþýðubandalagsmanna varðandi yfirmenn ríkisstofnana, að þeir séu yfirleitt skipaðir til takmarkaðs tíma í senn. Þetta er sama og í frv. til laga um Listasafn Íslands sem við vorum að fjalla um í menntmn. í morgun og afgreiddum þar samhljóða. Þar er gert ráð fyrir því að menn séu skipaðir forstöðumenn Listasafnsins til takmarkaðs tíma. Og hér flyt ég till. um að skólameistari verði skipaður til 6 ára í senn, þ.e. til takmarkaðs tíma.

Ég hafði áður gert grein fyrir 5. brtt. og þeirri sjöundu og kem nú að 6. brtt. sem er við 30. gr. frv. Þar kem ég að þeim málefnum fatlaðra, sem hafa mjög mikið verið rædd við meðferð málsins í hv. menntmn. og hv. 6. þm. Vesturl. gerði skýra grein fyrir hér áðan, þannig að ég hef þar engu við að bæta öðru en því að ég vil rökstyðja aðeins till. mína um breytingar á 2. málsgr. 30. gr.

Í 2. málsgr. 30. gr. segir: „Heimilt er að stofna sérskóla fyrir þroskahefta nemendur.“ Hvað er á móti þessari málsgr. eins og hún er? Það að framhaldsskólarnir og stjórnir þeirra munu ýta frá sér þroskaheftum og fötluðum nemendum og segja: Þetta er verkefni sérskóla, þetta er ekki okkar verkefni. Það væri auðvitað fullkomlega í blóra við lögin um málefni fatlaðra ef framhaldsskólarnir kæmust upp með þetta. En það munu þeir gera út á lagaákvæðið ef þetta fer í gegn óbreytt. Þess vegna hef ég í samráði við forráðamenn Þroskahjálpar flutt brtt. þar sem segir: „Í stað orðsins „sérskólar“ í 2. mgr. komi: sérdeildir.“ Þetta þýðir að það sé hugsanlegt að vera með sérdeildir við framhaldsskólana fyrir þroskahefta og/eða fatlaða nemendur en það sé ekki gert ráð fyrir því að forráðamenn framhaldsskólanna skv. þessum lögum, ef frv. verður að lögum, geti ýtt þessu fólki frá sér og sagt: Við höfum ekkert með það að gera, það eru aðrir sem eiga að veita fötluðum þjónustu.

Þetta eru þær brtt., herra forseti, sem ég hef gert við þetta frv. og álit Alþb. á frv. og vil ekki fara um það fleiri orðum. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt og skynsamlegt að setja lög um framhaldsskóla og ég fagna því að Sjálfstfl. skuli hafa skipt um skoðun í þeim efnum frá því að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gegndi starfi menntmrh. Þá vildi Sjálfstfl. ekki setja lög um framhaldsskóla. Nú hefur íhaldið breytt um skoðun og er það ánægjuefni. Fari svo að brtt. mínar verði felldar, sem auðvitað gæti verið því það er aldrei hlustað á neitt sem frá stjórnarandstöðunni kemur jafnvel þó það sé vel rökstutt, þá mun ég auðvitað ekki leggjast gegn málinu. Hreint ekki, því ég tel að hér sé um að ræða mjög brýnt mál. Ég er nokkurn veginn viss um að jafnvel þó frv. verði samþykkt eins og það kemur fyrir núna þá munu menn koma hér í haust eða næsta vetur og vera með tillögur um að breyta þessum skólanefndum. Ég held að menn sjái það mjög fljótlega að þetta gengur ekki. Það gæti verið fróðlegt fyrir hv. þm. ef þeir gætu sent eins og einn fulltrúa sinn til þess að vera fluga á vegg á fyrsta fundi skólanefndar Menntaskólans í Reykjavík þar sem Guðni Guðmundsson tekur á móti hinum kjörnu fulltrúum borgarstjórnar Reykjavíkur sem eiga að fara að stjórna „Latínuskólanum“ hér við Lækjargötu. Það gæti verið fróðlegt rannsóknarefni. En ég býst við því að fljótlega upp úr slíkum fundarhöldum þá kæmust menn að þeim niðurstöðum að það væri rétt að losa sig við þetta nefndabákn sem á að fara að búa hér til og heitir „skólanefndir“.