06.05.1988
Efri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7654 í B-deild Alþingistíðinda. (5672)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 1070 er nál. 1. minni hl. félmn. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. svokallað kaupleigufrumvarp. Undir nál. skrifa ég og meginefni nál. kemur þegar fram í fyrstu línum þess þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt og að á því verði gerðar ákveðnar breytingar sem birtast í brtt. á sérstöku þskj. Brtt. er á þskj. 1069 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við þá heildarendurskoðun, sem fyrir dyrum stendur á húsnæðislöggjöfinni, skal sérstaklega athugað:

Í fyrsta lagi hvort ekki er nauðsynlegt að hafa í lögum um kaupleiguíbúðir heimild til að hækka lánshlutfall til framkvæmdaaðila þegar í hlut eiga illa stæð sveitarfélög.

Í öðru lagi að upp verði tekin í kaflanum um félagslegar kaupleiguíbúðir ákvæði sem heimila leigu samfara kaupum á tilteknum eignarhlut.

Í þriðja lagi samræmingu lánskjara mismunandi útlánaflokka.

Meðan væntanleg endurskoðun laga um Húsnæðisstofnun ríkisins stendur yfir er húsnæðismálastjórn heimilt, ef sérstakar ástæður mæla með, að veita illa stöddum sveitarfélögum viðbótarlán til að gera þeim kleift að koma af stað byggingu félagslegra kaupleiguíbúða. Skal húsnæðismálastjórn heimilt að verja í þessu skyni jafngildi allt að 50 millj. kr. árlega á næstu þremur árum eða svo lengi sem endurskoðun laganna stendur yfir.“

Í nál. minni hl. á þskj. 1070 segir svo, með leyfi forseta:

„1. minni hl. flytur brtt. á sérstöku þingskjali og mun styðja frv. þetta með þeim rökum að:

a. talið er að kaupleigukerfi geti opnað möguleika fyrir leiguhúsnæði,

b. kaupleiga geti opnað nýja þróunarmöguleika í hinu félagslega húsnæðislánakerfi.

Verði frv. samþykkt verður að gera kröfur til þess að ríkisstjórnin standi við þau fyrirheit sem í frv. felast. 1. minni hl. hefur að vísu alla fyrirvara í þeim efnum þar sem núverandi ríkisstjórn hefur ekkert aðhafst í húsnæðismálum sem breytt hefur einu eða neinu í þágu eigenda eða leigjenda. En eftir því verður gengið að ríkisstjórnin og félmrh. standi við sitt gagnvart því fólki sem nú bindur vonir við kaupleigukerfið.

Fyrir síðustu kosningar blöstu eftirfarandi vandamál við húsnæðiskerfinu:

Biðlistar voru orðnir svo langir að fólk virtist dæmt til að bíða fram á næsta áratug eftir úrlausn sinna mála. Þegar þetta er skrifað er enn ljóst að fólk verður að bíða allt upp í þrjú og hálft ár eftir afgreiðslu húsnæðislána og er staðan nú þannig að sögn starfsmanna Húsnæðisstofnunar:

a. Sá sem sækir í dag og er í forgangsflokki verður að gera ráð fyrir því að þurfa að bíða í 2–21/2 ár eftir láni. Sá sem sækir um í dag fær því afgreiðslu í fyrsta lagi í maí 1990 ef hann er í forgangsflokki en í síðasta lagi fær hann afgreiðslu í nóvember 1990.

b. Sá sem sækir um í dag og er ekki í forgangsflokki fær þá afgreiðslu sinna mála í fyrsta lagi í nóvember 1990 en í síðasta lagi í maí 1991. Þá er kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar reyndar nýlega lokið.

Biðlistarnir hafa því ekki styst í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Misgengishópurinn — frá því að kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi 1983

— fékk bindandi fyrirheit frá flokkunum fyrir síðustu kosningar. Ekkert hefur verið gert í tíð núverandi ríkisstjórnar til þess að leysa vanda þessa fólks, reyndar þvert á móti þar sem raunvextir hafa aldrei verið hærri.

Frá því að nýja húsnæðiskerfið var ákveðið hefur átt sér stað stöðug skerðing á framlögum ríkisins til húsnæðismála. Ekkert hefur enn gerst sem bendir til þess að lagfæra eigi ríkisframlög til húsnæðismálanna.

Frammi fyrir þessum staðreyndum hefur félmrh. nú gefist upp og ákveðið að freista þess að láta fara fram heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu. Hefur þeim sjónarmiðum því verið hreyft að rétt væri að bíða með afgreiðslu á kaupleigufrv. þar til heildarendurskoðun væri lokið. Á þau sjónarmið hefur Alþfl. ekki viljað fallast og hefur lagt ráðherrasæti Jóhönnu Sigurðardóttur að veði fyrir málinu. Hér er því annars vegar um að ræða enn eitt stríðsmálið milli stjórnarflokkanna — og það er þeirra mál að leysa það — en hins vegar er hér um að ræða skynsamlegar hugmyndir sem vert er að fallast á með þeim rökum sem getið var um í upphafi.

Ekki vekur það mikla tiltrú á annars ágætu máli að stjórnarliðið afgreiðir málið í hinni mestu fýlu og með hundshaus. Þannig skín þvermóðskan út úr nefndaráliti meiri hl. í Nd., en þar segir m.a.:

„Athygli vekur að ekki hafa borist svör frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Sambandi ísl. sveitarfélaga, samtökum atvinnurekenda, Landssambandi lífeyrissjóða og frá mjög fáum sveitarfélögum. Virðist því lítill áhugi á frv.“— segir orðrétt í nál. meiri hl. í Nd. og undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn, líka alþýðuflokksmaðurinn í deildinni. Síðan segir:

„Einstakir nefndarmenn meiri hl. draga í efa mikilvægi þessa frv., svo sem að það valdi straumhvörfum í húsnæðiskerfinu, og telja að eðlilegra hefði verið að fresta afgreiðslu þess og tengja það heildarendurskoðun húsnæðismála, ekki síst félagslega kerfisins.“

Og síðan segja þeir: „Meiri hl. nefndarinnar telur hins vegar rétt að afgreiða þetta frv. í samræmi við skuldbindingu formanna flokkanna.“ — Sem sagt, málið á að afgreiða af því að formenn flokkanna samþykktu það. Annars hefði það ekki verið afgreitt.

„Það eru með öðrum orðum einu rök meiri hl. í Nd. að þar sem formenn stjórnarflokkanna vilji afgreiða málið verði það gert. Þessi „rök“ nægja ekki undirrituðum. Afstaða hans til málsins byggist á efnislegum forsendum.

Með hliðsjón af þessu leggur 1. minni hl. því til að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem flutt er á sérstöku þingskjali og verður gerð grein fyrir við umræðu málsins.“

Þá vil ég, herra forseti, í sambandi við þetta mál vekja athygli á minnisblaði frá Inga Val Jóhannssyni sem hefur unnið að þessum málum og ég hygg að sé starfsmaður ráðuneytisins og kom á fund nefndarinnar í morgun og veitti mjög gagnlegar upplýsingar. Það var mjög gagnlegur fundur í nefndinni þar sem farið var yfir þessi mál. Þar lætur hann okkur í té upplýsingar um kostnað annars vegar við íbúð í verkamannabústöðum og hins vegar við íbúðir í kaupleigukerfi hvort sem er félagslegu kaupleigukerfi eða almennu kaupleigukerfi. Niðurstaða hans er sú að ef við tökum félagslega kaupleigukerfið þurfi fólk sem fer inn í 4 millj. kr. íbúð að borga 12 300 kr. á mánuði í 43 ár til að standa undir íbúðinni og eignast hana. Ef aftur á móti fólk fer inn í jafndýra íbúð í verkamannabústöðum þarf það að borga fyrstu þrjú árin, ef það fær alla fyrirgreiðsluna frá Húsnæðisstofnun, 100%, 14 300 kr. á mánuði í þrjú ár en 9 100 kr. á mánuði frá og með 4. og til og með 43. ári. Rökin fyrir kaupleigukerfinu eru því ekki út af fyrir sig þau að það sé mikið hagstæðara en verkamannabústaðakerfið að þessu leytinu til. Rökin hins vegar fyrir kaupleigukerfinu eru í mínum huga þau fyrst og fremst og það skiptir alveg höfuðmáli fyrir mér: Félagslega íbúðakerfið á við erfiðleika að etja. Það er orðið mikið bákn. Það er orðið þungt í vöfum. Það þarf að laga. Það er erfitt að ná samkomulagi um að laga félagslega íbúðakerfið, en til þess að hægt sé að laga það verður að ná samkomulagi um það m.a. við verkalýðshreyfinguna í landinu, sveitarfélögin o.s.frv. Þess vegna tel ég rétt að opna fyrir allt aðra tegund af félagslegu kerfi sem þar með skapar möguleika á sveigjanlegra vall í félagslegu íbúðakerfi en til þessa hefur verið og skapar þannig möguleika á að hafa áhrif á verkamannabústaðakerfið til að laga það að breyttum tíma um leið. Þetta er í mínum huga algjört höfuðatriði í sambandi við þetta mál. Ég verð að segja að ég hef út af fyrir sig ekki mikla trú á því að þetta kerfi skili einn, tveir, þrír einhverjum ósköpum til fólks, en það opnar nýja þróunarmöguleika og skiptir að mínu mati alveg höfuðmáli að það opnar þarna nýja þróunarmöguleika. Það eru ýmsir gallar á þessu, það eru ýmis spurningarmerki, það eru ýmis vafaatriði. Og ég hef áhyggjur af kerfinu í höndum núverandi ríkisstjórnar og ég dreg ekkert úr því. En allt um það. Ég styð málið. Ekki á þeim forsendum sem meiri hlutinn í Nd. gerði, að það væri vegna þess að formenn stjórnarflokkanna hefðu skrifað upp á plagg, það kemur mér ekki við, heldur af þessum efnislegu ástæðum sem ég hef rakið.

Margt mætti fleira um þetta mál segja, herra forseti. Það var afar fróðlegt plagg sem Ingi Valur Jóhannsson kom á framfæri við félagsmálanefndarmenn deildarinnar varðandi samanburð á þessum tveimur kostum og ég mun hafa einhver ráð með að koma þeim upplýsingum á framfæri þannig að fólk geti áttað sig á þessum atriðum, en ég held að við verðum að viðurkenna að þau rök sem ég hér nefndi varðandi nýja þróunarmöguleika og opnari endurskoðunarmöguleika á kerfinu séu stærstu rökin í málinu og ég held að þeim eigi að halda fram við alla og það sé höfuðatriðið, herra forseti.