06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7674 í B-deild Alþingistíðinda. (5696)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 1071 skrifaði ég undir nál. félmn. með fyrirvara. Ég er sammála þeim valddreifingarhugmyndum sem koma fram í frv. Það er mjög eðlilegt og sjálfsagt að sveitarstjórnir fái sjálfar að ákvarða innheimtuhlutfall útsvars í sínu byggðarlagi. Tekjuþörf sveitarfélaganna getur verið mismunandi eftir aðstæðum á hverjum stað. Fyrirvari minn byggist fyrst og fremst á áhyggjum af ólíkri stöðu sveitarfélaga. Mikill aðstöðumunur er á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og minni sveitarfélaga úti um landið hins vegar. Má því búast við að minni sveitarfélögin þurfi að ákvarða hærri útsvarsprósentu en hin stærri og betur settu. Það getur verið erfitt fyrir litlu sveitarfélögin að innheimta viðbótarútsvar af þegnum sínum og auka þannig enn muninn á milli þeirra sem búa úti á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Nú stefnir í það að virðisaukaskattur leysi söluskattinn af hólmi og með því missir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga tekjur sínar. Stjórnarmeirihlutinn hefur að vísu skorið niður stóran hluta af lögbundnum tekjum Jöfnunarsjóðs en það breytir ekki þeirri staðreynd að ákvarða þarf nýja viðmiðun fyrir tekjur sjóðsins. Jafnframt þyrfti að sjá til þess að sjóðurinn geti verið sá jöfnuður milli sveitarfélaga sem honum er ætlað. Í trausti þess að tekið verði á fjármáladæminu í þessu máli styð ég frv.