06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7678 í B-deild Alþingistíðinda. (5708)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu hvaða skoðanir nefndin hefur á trúnaðarskyldu læknis við sjúkling sinn en hér samþykktum við, eins og ég hef áður getið í umræðu um þetta mál, frv. til læknalaga sem var 116. mál þingsins. Þar stendur, virðulegi forseti, og sá texti er orðinn að lögum í þessu landi, m.a. þetta. Ætla ég að lesa 16. gr. þeirra laga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lækni er skylt að afhenda sjúkraskrá, alla eða að hluta, sjúklingi eða forráðamanni ef það þjónar ótvíræðum hagsmunum sjúklings. Leiki vafi á nauðsyn afhendingar sjúkragagna eða þyki ástæða til vegna ákvæða laga þessara um þagnarskyldu er lækni heimilt að afhenda landlækni einum sjúkragögn sem trúnaðarmál til frekari fyrirgreiðslu.“

Þetta eru lög í landinu. Í frv. til laga um Ríkisendurskoðun sem nú er komið á afgreiðslustig er ekki stafkrókur um að neinar sérstakar reglur gildi um sjúkragögn og ég held ekki að það hafi jafnmikla þýðingu eða að það dugi til að nefndin lýsi vilja sínum og áhuga í nál. Nú kann að vera að ég hafi rangt fyrir mér en ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh. hvor lögin gildi verði þetta frv. að lögum eins og það er nú orðað. Alþingi Íslendinga getur ekki afgreitt tvo lagabálka á sama þinginu nema það sé alveg ljóst að ákveðin ákvæði tveggja lagabálka stangist ekki á. Því spyr ég enn og aftur: Hvor lögin mundu gilda? Og ég ítreka að ég tek mjög undir að trúnaður læknis og sjúklinga hans sé tryggður, en ég er nú meira í raun og veru að hugsa um margumrædda virðingu hins háa Alþingis, að við séum ekki að setja hér lög sem stangast á við önnur.