09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7751 í B-deild Alþingistíðinda. (5835)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég spurði hæstv. samgrh. á laugardaginn hver bæri ábyrgð á því að út úr vegáætlun ársins 1988 hefur horfið u.þ.b. 11/2 milljarður kr. Hæstv. ráðherra tekur hér þá sök á ríkisstjórnina, skrifar hana á ríkisstjórnina í heild sinni. Þetta er út af fyrir sig svar. (Samgrh.: Og Alþingi.) Og meiri hluti ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi, bætir hæstv. samgrh. við og hann má gjarnan fylgja með, meiri hlutinn. (Samgrh.: Ég sagði það áðan. ) Já. En hv. 1. þm. Vesturl. upplýsti það jafnframt, til viðbótar við það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að ekki hafi verið samkomulag um þá upphæð, þau önnur framlög sem tillaga var um fyrir síðasta Alþingi í tengslum við vegáætlun upp á 11/2 milljarð kr., ekki bara á þessu ári heldur á næsta ári og þar næsta, árunum 1988–1990, það hafi ekki verið samkomulag í þeirri ríkisstjórn um þessa fjárupphæð né heldur um útvegun fjárins. Samt lagði þáv. ríkisstjórn þetta fyrir Alþingi. Þetta hefur komið hér fram og er upplýst í þessum umræðum. Og ég vil fullyrða að öllu meiri blekkingarleikur hafi ekki verið hafður í frammi í sambandi við stórmál eins og vegamálin, og litið til þeirra upphæða sem hér er um að ræða, heldur en í þessu tilviki. Og Alþingi, stjórnarmeirihlutinn á síðasta þingi látinn blessa þetta.