09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7751 í B-deild Alþingistíðinda. (5836)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því að sá sem lagði þá vegáætlun hér fram hafi viðhaft nokkrar blekkingar. Ég man að sjálfsögðu ekki hvernig hann orðaði það þegar hann lagði tillöguna hér fyrir. (HG: Var það einkaframtak hans?) Það var tillaga sem ríkisstjórnin stóð að. Hann sem samgrh. mælti fyrir henni, en það hlýtur alltaf að vera á valdi Alþingis, á valdi fjárveitingavaldsins, fjárlaga, hver verður sú upphæð sem er til skiptanna. Og það er þess vegna sem lögð er fram breyting við þessa áætlun, breyting við vegáætlun 1988, en sú breyting þýðir að það er verið að auka við vegaframkvæmdir frá því sem gert hafði verið ráð fyrir um 6%, 16% miðað við þær framkvæmdir sem voru 1987.