09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7777 í B-deild Alþingistíðinda. (5903)

126. mál, mat á sláturafurðum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni sérstakt frv. Á síðasta eða næstsíðasta fundi hv. deildar er lögð fyrir þm. staðfesting á brbl. sem gefin voru út 16. júní sl. Skipulagning á vinnu hv. þm. er ekki betri en þetta að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið þessu máli til afgreiðslu fyrr en á þessum fundi. Sjálfsagt hefur þetta mál að einhverju leyti vafist fyrir stjórnarliðinu vegna þess að í sjálfu sér eru þetta dálítið merkileg brbl. Þau eru gefin út 16. júní 1987 og eiga að gilda til 1. júní 1988, þ.e. þau áttu bara að duga um sláturtíðina síðustu, en það hugsa ég að hverjum og einum hafi verið ljóst þá að þetta gæti ekki gengið upp á þann veg að undanþága til þess að nota ýmis sláturhús sem í gangi hafa verið á undanförnum árum yrði aðeins þessa einu sláturtíð. Sjálfsagt hefur þetta því verið að vefjast fyrir stjórnarliðinu hvort nú skyldi bæta við einu ári eða það látið standa sem í brbl. var. Skv. brtt. við brbl. er ætlast til þess að undanþágan verði í gildi til 1990 og hefur ríkisstjórnarliðið sem sagt komist að því að það þyrfti að vera svolítið meira en þetta eina ár sem brbl. kváðu á um.

Það er svolítið gaman að sjá hverja hv. landbn. Nd. kallaði til ráðs við sig eða leitaði umsagnar hjá um þessi mál. Það hafa sjálfsagt verið aðrir en þeir sem beinlínis höfðu hagsmuna að gæta og voru beint aðilar að málinu. Mig langar til þess að lesa það upp hverjir það voru. Það var Félag sláturleyfishafa. Það er nú trúlegt og nokkurn veginn vitað mál hvernig þeirra svar var. Það var Framleiðsluráð landbúnaðarins. Og skyldu menn ekki hafa búist við því að þar yrðu hreinar línur hvernig svarið yrði? Það var Stéttarsamband bænda og það er trúlegt að þaðan hafi komið samhljóða álit. Það var Dýralæknafélag Íslands, yfirdýralæknir og Kaupmannasamtökin. En reyndar voru fleiri samtök kölluð til. Það voru Neytendasamtökin og Hollustuvernd ríkisins, en því miður, af einhverjum sérstökum ástæðum hafa Neytendasamtökin, sem yfirleitt hafa tekið þátt í svona umræðu, ekki svarað. Mér sýnist að aðeins einn aðili hafi svarað frekar neikvætt og ekki talið ástæðu til þess að framlengja undanþáguna og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa tvo síðustu liðina úr umsögn Hollustuverndar ríkisins um þetta mál:

„Hollustuvernd ríkisins telur það mikið áhyggjuefni að stór hluti þess kjöts og kjötafurða sem kemur hér á markað skuli koma frá sláturhúsum þar sem slátrað er við aðstæður sem Alþingi lögfesti fyrir 20 árum að væru óhæfar.“ Ég vil benda á þennan punkt, að þeir sem hafa talið sig halda vel á málefnum bænda eru ekki komnir með aðstöðu bænda lengra en þetta, að enn eru bændur að slátra í sláturhúsum sem talin voru óhæf fyrir 20 árum síðan. „Stofnunin telur það því fráleitt að enn einu sinni verði afgreiddar undanþágur til starfrækslu óhæfra sláturhúsa. Verði það hins vegar niðurstaða hins háa Alþingis treystir stofnunin því að þannig verði um hnúta búið að ekki komi til frekari framlenginga.

Að lokum vill stofnunin benda á að landbrh. hefur látið semja skýrslu um sláturhús á Íslandi og nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta. Það er mjög brýnt að þessi mál verði nú tekin föstum tökum og frambúðarlausn fundin þar sem það sjónarmið verði sett ofar öðrum að landsmönnum verði jafnan tryggðar ómengaðar og góðar sláturafurðir.“

Sjálfsagt hefur meiningin verið svipuð fyrir 20 árum síðan og ég vil leyfa mér að nota það sem minn fyrirvara í samþykkt þessa nál. að taka undir þessi lokaorð Hollustuverndar ríkisins.