09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7805 í B-deild Alþingistíðinda. (5933)

293. mál, áfengislög

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Með tilliti til málflutnings þeirra sem telja rétt að leyfa hér á landi sölu á áfengum bjór og hafa lagt á það höfuðáherslu að auka þurfi forvarnarstarf um leið og bjórsalan yrði leyfð þarf að samþykkja þessa tillögu. Þessi málflutningur kom m.a. fram í fyrirvörum hv. þm. við atkvæðagreiðslu við 2. umr. Þá sagði t.d. hv. þm. Jóhann Einvarðsson: „Í trausti þess að upplýsingar og fræðsla um hættuleg og skaðleg áhrif áfengis verði stóraukin segi ég já.“ Og þá sagði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson: „Það ber að leggja aukna áherslu á öfluga upplýsinga- og ráðgjafarstarfsemi og endurhæfingu þar sem þess er þörf gegn neyslu vímuefna í hvaða mynd sem er. Með vísan til þessara atriða, herra forseti, segi ég já.“

Þetta sögðu hv. þm. og einmitt út frá þessari röksemdafærslu segi ég líka já.