09.05.1988
Neðri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7849 í B-deild Alþingistíðinda. (5980)

454. mál, viðskiptabankar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þá hugmynd sem hann hreyfði, að fella út úr frv. 2. gr. Ég tel að málið verði þannig miklu auðveldara viðfangs og fljótt á litið held ég að það sem eftir er af frv. ætti að geta hlotið lögfestingu og mun ég gera mitt til þess að málið fái skjóta afgreiðslu í nefnd. Að vísu þurfum við að kanna það fyrir sjálfa okkur að þarna séu ekki á tæknilegir örðugleikar. En ég ætla að lýsa stuðningi við frv. eins og það er að verða og heita því að gera mitt besta til að það verði að lögum.