12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

83. mál, nýting á kartöflum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. forsrh. er viðstaddur þessa umræðu vegna þess að þessi mál eru komin á það stig að það þarf af hendi stjórnvalda að athuga þau og bregða skyndilega við. Það gerðist í gærkveldi, eftir að búið var að senda sýnishorn af kartöflum til Noregs, að óskað var eftir því að samninganefnd kæmi þangað til að semja um sölu á kartöflum. Vitað er að Norðmenn vantar margfalt það magn sem við höfum til sölu. Vandinn er auðvitað verðið. Norskir bændur fá t.d. nú, þrátt fyrir mjög lítið framboð af kartöflum, ekki nema 1,53 kr. norskar fyrir kg og ef ekki verður breyting á er gert ráð fyrir því að þeir fái eftir áramótin 1,74 kr. norskar.

Skeytið sem barst í gær er til komið vegna þess að fyrir viku var sent sýnishorn af kartöflum til Suður-Noregs sem líkaði ákaflega vel og þeir sendu í gærkveldi telex um að þeir hefðu áhuga á að kaupa allar þær kartöflur sem hér væru fáanlegar. Þetta mál kemur þannig upp að sýnilegt var að uppskeran í haust yrði helmingi meiri en við hefðum möguleika á að neyta hér innanlands að öllu óbreyttu. Það veit enginn hvað þetta magn er mikið hér, því miður. Agnar Guðnason upplýsir mig um að það séu sennilega 20 000 tonn af neyslukartöflum en vill ekki taka ábyrgð á því. Hann telur hugsanlegt að við getum selt 8000–10 000 tonn hér innanlands. Þá er hann með í huga að 2000 tonn verði unnin í verksmiðjunum á Svalbarðseyri og í Þykkvabæ. En það er líka talið að ef hægt væri að stöðva innflutning á unnum kartöflum tæki markaðurinn hér allt að 3000 tonnum meira. Ef við stæðum frammi fyrir að gera það eða henda kartöflunum ella verða stjórnvöld að hugleiða þau má1 vel. Ýmis rök má færa fyrir því að fara varlega í að flytja inn kartöflur eða annað frá þeim löndum sem við skiptum við þar sem er mjög mikil mengun og meira en helmingur af skógunum t.d. er að deyja. Mér er spurn: Er fylgst með því í hvað ástandi þessar vörur eru þegar þær eru fluttar inn? Það er a.m.k. í skjóli þess áreiðanlega hægt að tefja eða jafnvel stoppa innflutning á ýmsu grænmeti og þar með kartöflum.

En ég vil geta þess hvers vegna ég veit um þetta. Kartöfluframleiðendur í Eyjafirði komu til Búnaðarbankans í haust þegar auðséð var hvernig horfði með þessi mál og óskuðu eftir því að hann athugaði möguleika á sölu á kartöflum, sérstaklega á Norðurlöndum og jafnvel í Evrópu. Fyrir þremur árum tæpum var tekin upp sú nýbreytni í Búnaðarbankanum að við réðum þar mann sem hefur verið að kanna ýmsa möguleika á sölu á okkar afurðum víða um heim. Sumt er það með mjög góðum árangri sem ég ætla ekki að fara inn á hér, en gæti gert það síðar. Síðan komu þessi mál upp eftir að ýmis mistök höfðu orðið hjá öðrum í sambandi við að reyna þetta og ætla ég ekki að fara inn á það. Það voru félög kartöflubænda sem óskuðu eftir því að Búnaðarbankinn héldi þessari tilraun áfram. Nú hefur það líka gerst að Finnar eru að biðja um sýnishorn. Ef þeim líkar sýnishornið vel, það verður sent út á morgun, eru þeir að tala um að fá einn skipsfarm strax. En málið er að það hlýtur að verða dýrara að koma vörunni þangað á markað en til Noregs og á það verður að líta.

Kannski verður hægt að koma verðinu eitthvað upp fyrir það sem ég nefndi áðan. Ég vona það, en veit ekki hvort það tekst. Það er annað að vona en vita og þess vegna vil ég ekki staðhæfa það. Það sem Norðmenn eru t.d. að biðja um er visst magn á mánuði fram til vors. Hvort hægt er að ná samningum er tryggja hærra meðalverð en þetta veit ég ekki. En það þarf að reyna að setja einhvern veginn verðjöfnunargjald á kartöflur því að vegna þurrotsins sem er sums staðar verður ekki leyft að flytja út frá þeim stöðum þar sem það er og það þarf heilbrigðisvottorð um kartöflurnar. Það er trygging fyrir þá sem ekki mega flytja út, eftir því sem minnkar um kartöflur hér á innlendum markaði, að þeir geti selt sitt.

Enn fremur þyrftu að fást með einhverjum hætti einhverjar útflutningsbætur. Það þarf kannski ekki mjög mikið. Auðvitað veit ég að í sambandi við búvörusamningana er búið að ráðstafa öllum útflutningsbótum. En sama er. Þessir kartöfluframleiðendur leggja töluvert til í þennan sjóð og það er um það að ræða í þessu tilviki að þeir lifi þetta af og þarf að taka tillit til þess.

Ég hef von um að það sé hægt að semja um mjög lág fargjöld t.d. til Noregs. Ég get ekki sagt hvað lág, en ég hef von um það ef þessi leið væri möguleg.

En ég treysti því að hæstv. forsrh. taki þessi mál til íhugunar vegna þess að það er ekki hægt að ganga frá samningum fyrr en það liggur fyrir hvernig verður staðið að þessum málum hér. Varan verður að fara út á þriðjudaginn kemur því að það eru aðrir möguleikar sem Norðmenn hafa til að tryggja sér kartöflur þó að sennilega verði lítið um þær þegar kemur fram á veturinn.

Ég hefði viljað, þar sem tími er takmarkaður hér, fá aðeins að ræða við hæstv. forsrh. um þessi mái. Heimir Hannesson hefur verið fyrir okkur í þessu og mun fara út á þriðjudagsmorgun. Það getur vel verið að nauðsynlegt sé að hann hafi tal af einhverjum í ríkisstjórninni áður en sú ferð verður farin.