12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

90. mál, björgunarþyrla

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi við þessa þáltill. Hún er tímabær og kemur inn á mál sem varðar að sjálfsögðu alla þjóðina þó að það sé fyrst og fremst öryggismál fyrir sjómannastéttina í heild. Ég tel þess vegna tímabært að Alþingi samþykki slíka ályktun til ríkisstjórnarinnar því að allt tekur sinn tíma og ekki síst þegar um er að ræða dýrt tæki eins og slík björgunarþyrla er vissulega.

Ég vil skýra frá því að á fundi í fjvn. fyrir nokkrum dögum, þar sem forstjóri Landhelgisgæslunnar og aðrir sérfræðingar í þeirri stofnun báru upp sín erindi, lagði ég þá fyrirspurn fyrir forstjórann hvort farið væri að huga að undirbúningi kaupa á stærri björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna og óskaði eftir að fá að vita hvernig það mál stæði. Það kom fram að aðeins hefði verið hugað að þessum málum og ég fékk senda inn í fjvn. kostnaðaráætlun um slíka þyrlu en hins vegar hefur stofnunin sem slík ekki lagt fram neinar ákveðnar tillögur um þetta mál. Það er ljóst að fullkomin þyrla, sem mundi skapa það öryggi sem menn tala um og menn eru almennt sammála um að verði að koma hér á landi, mun kosta eitthvað um 400–600 millj. að lágmarki. Þetta er hins vegar svo stórt og þýðingarmikið mál að ég tel sjálfsagt að fylgja því eftir með samþykkt á slíkri tillögu hér inni á hv. Alþingi.

Það hringdi til mín ungur maður í gærkvöldi sem er skipstjóri á litlum togara. Hann sagði mér að þeir hefðu verið í ofsaveðri úti fyrir Vestfjörðum fyrir þremur sólarhringum og allt í einu kom hnútur á skipið og höggið var svo mikið að vélarnar stöðvuðust og skipið lagðist á hliðina. Þarna hefði getað farið illa. Heppnin var með þeim, þarna voru um 14 menn um borð. Þótt ekki sé sagt frá mörgum svona tilfellum vekur það mann til umhugsunar um hvað hefði skeð ef verr hefði farið. Þetta var í ofsaveðri. Að vísu var ekki mikið frost en samt sem áður leiðir þetta hugann að því hvað við eiginlega stöndum illa í þessum málum sem snerta öryggi okkar sjómanna sem vissulega eru í þessum hættustörfum og eru svo þýðingarmiklir fyrir okkar þjóðarbú, fyrir utan allt hitt.

Ég tel þess vegna að þetta megi ekki dragast. Það er löngu orðið viðurkennt að sú ágæta þyrla sem við eigum í dag fullnægir ekki þeim nauðsynlegu kröfum sem þarf að gera til slíks tækis í sambandi við okkar fiskiskipaflota sem verður að sækja á djúpmið í vaxandi mæli og sækja þannig sjóinn að það er ekkert verið að spekúlera í hvernig aðstæður eru. Veðráttan hér á norðurhjara er slík að það gerir ekki boð á undan sér er þær aðstæður breytast og þess vegna verðum við sem þjóð að leggja metnað okkar í að skapa möguleika til að kaupa tæki sem fullnægja þessum sjálfsagða öryggisþætti fyrir íslenska sjómannastétt. Þess vegna styð ég þessa tillögu. Hún er spor í rétta átt.