10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7954 í B-deild Alþingistíðinda. (6128)

455. mál, sparisjóðir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ég fagna þessari verkgleði hæstv. viðskrh. og þeim almenna umbótavilja sem hann er haldinn. Það er ólíkt því sem maður á að venjast frá þessari ríkisstjórn síðustu dagana þar sem á að fara að vísa þinginu heim. Ég bendi á að það hefur verið dreift hér þskj. 1139 sem er till. til þál. um að tryggja kaupmátt launa. Flm. eru þingmenn Alþb. undir forustu þingflokksformannsins, Steingríms J. Sigfússonar. Ég vænti að á morgun komi til atkvæða hvort þessi tillaga kemst til umræðu með sérstakri undanþágu frá þingsköpum og með tilliti til þess sem hæstv. viðskrh. hefur hér sagt tel ég alveg einboðið að Alþfl. muni styðja að þetta mál komi fyrir þingið núna í vor til umræðu og afgreiðslu svo mikilvægt sem það nú er, enda sjálfsagðir hlutir, eins og hæstv. ráðherra gat um, þó ekkert smámál því hér segir:

„Alþingi ályktar að ríkisstjórnin skuli við meðferð efnahagsmála í sumar tryggja að kaupmáttur almennra umsaminna launa haldist óskertur.“

Það er gott að vita af því að Alþfl. ætlar að styðja að þetta mál komist á dagskrá hér á morgun. (Dómsmrh.: Þetta mál er ekki á dagskrá núna.) Þetta mál er á dagskrá hérna núna, hæstv. ráðherra, vegna þess að ráðherrann var að draga fram þetta mál varðandi sparisjóðina og taka það fram yfir öll önnur mál. Hæstv. ráðherra veit kannski ekki að það eru sex þmfrv. sem ekki hafa komið til 1. umr. í þessari deild vegna þess að við höfum verið önnum kafin við að afgreiða frumvörp m.a. frá ríkisstjórninni. Við erum þeirrar skoðunar að okkur sé skylt að sinna þeim málum sem frá ríkisstjórninni koma á hverjum tíma, en við erum ekki sjálfvirk færibönd og það er ekki okkar hlutverk að taka við hverju sem ríkisstjórnin kann að rétta að okkur. Auk þess er það þannig að við eigum sem þingmenn líka okkar rétt bæði til málflutnings, tillöguflutnings og eðlilegra vinnubragða. Ég held að ég verði ekki sakaður um ósanngirni þegar ég segi að mér finnst það ekki eðlilegt að heimta af okkur að við afgreiðum við fimm umræður frv. um viðskiptabanka sem liggur hinum megin við vegginn og við þrjár umræður þetta frv. um sparisjóði á hálfum sólarhring. Mér finnst ekki ósanngjarnt að stjórnarandstæðingur leyfi sér að lyfta litla fingri og segja: Hér er of hratt í hlutina farið. Skoðum málin betur, ef það á annað borð er ætlunin að ljúka þinginu á morgun. Ef menn á hinn bóginn hafa nógan tíma skulum við sitja hér eftir uppstigningardag og fram undir hvítasunnu við að ganga frá málum. Ekki er það á móti okkar skapi. Stjórnarandstaðan hefur lagt til að þinginu verði frestað. Það sem ég er að segja er einfaldlega þetta: Ef menn vilja ljúka þinginu verða ráðherrarnir að gera upp við sig hvar á að stoppa. Það þýðir ekki alltaf að koma hlaupandi með einhverja fjölritaða pappíra tvisvar á dag og segja: Þetta er stórmál sem þarf að afgreiða. Ég gleymdi því nú annars á listanum í gær og þannig koll af kolli. (Dómsmrh.: Þetta hefur legið í þinginu frá 11. apríl.) Það hefur ekki legið í Ed. Alþingis nema síðan 10. maí, sem er í dag, þannig að það er allur tíminn sem við höfum haft til meðferðar málsins. Það er mánuður síðan það kom. Það fékk mánuð í hinni deildinni. Við vissum ekki og hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar vissi ekki fyrr en í kvöld að það væri ætlast til þess af ríkisstjórninni að málið yrði afgreitt. Hér er bersýnilega um að ræða að hæstv. ráðherrar fara mjög offari í að ata málum í gegn. Ég vil sem sagt biðja hæstv. forseta að gæta þess að þingmenn eiga sinn rétt og málefnið á líka sinn rétt á vandaðri meðferð.