16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu þá till. sem hér um ræðir, enda einn af flm. till. Þessi till. fjallar um að rannsókn fari fram á lífríki Tjarnarinnar áður en áformaðar byggingarframkvæmdir í og við hana hefjast, eins og 1. flm. hefur gert grein fyrir.

Nú er mest rætt um byggingu ráðhúss við norðurenda Tjarnarinnar sem áætlað er að skerði stærð hennar um tæp 2%. Þetta gæti í fljótu bragði virst óverulegt, en lítum aðeins nánar á málið.

Á fyrri hluta aldarinnar var flatarmál Tjarnarinnar skert um nær fjórðung með uppfyllingu og standa m.a. Alþingishúsið og Dómkirkjan á þeirra uppfyllingu. Skerðing nú um 2% er því áframhald af þeirri skerðingu. En það er ekki aðeins húsið sjálft sem vert er að hafa áhyggjur af. Í húsinu er áætlað að hafa bílastæði og það hlýtur að vera miðað við að fólk þurfi að komast að og frá akandi. Ég hef því ekki síður áhyggjur af áframhaldinu. Nú er miðað við að aðkoma að húsinu verði frá Tjarnargötu, en mér er til efs að hún þoli meiri bílaumferð en nú er og óttast ég að innan fárra ára verði talið óhjákvæmilegt að breikka Tjarnargötu og e.t.v. Fríkirkjuveg einnig. Er ég þá hrædd um að rýrnun á flatarmáli Tjarnarinnar verði orðin dálítið meiri en 2%.

Skerðing Tjarnarbotnsins mun hafa neikvæð áhrif á fuglalífið sem ekki síst gefur Tjörninni gildi sem útivistarsvæði. Andarungarnir lifa fyrstu vikurnar á lirfum og öðrum smádýrum úr botnleðjunni. Skerðing á botninum mun því hafa bein áhrif á lífslíkur unganna eftir að þeir klekjast. Brauðgjafir skipta litlu máli fyrir ungana sem og fuglalífið almennt þótt margir haldi að það hafi veruleg áhrif.

Það er engin bót að búa til nýja tjörn og reyna þannig að bæta fyrir það sem tekið er því að endurnar þurfa ekki bara vatn til að synda á heldur lifandi tjarnarbotn til að nærast.

Sunnan Hringbrautar eru leifar af Vatnsmýrinni sem stöðugt er verið að ganga á. Þar eru mikilvægar varpstöðvar tjarnaranda og fjölda mófugla. Frekari skerðing á mýrinni gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fuglalífið auk þess sem það hefði væntanlega varanleg áhrif á vatnsbúskap Tjarnarinnar. Ég hef því ekki síður áhyggjur af byggingarframkvæmdum í Vatnsmýrinni en Tjörninni sjálfri fyrir lífríkið.

Tjörnin skipar sérstakan sess í hugum fólks vegna lífríkisins, en ekki síður vegna menningarsögulegs gildis hennar og umhverfisins. Reykjavík er höfuðborg landsins og skipar því ákveðinn sess í hugum allra landsmanna. Þótt sumir Reykvíkingar telji sig e.t.v. geta breytt að eigin vild öllu sem er innan borgarmarkanna tel ég það vera mál landsmanna allra þegar breytingar eru gerðar sem geta valdið svo mikilli röskun sem hér hefur verið talað um. Það er því lágmarkskrafa að rannsókn fari fram á hugsanlegum áhrifum byggingarframkvæmda á lífríkið áður en framkvæmdir hefjast. Ég tel, eins og ég sagði áðan, það ekki eingöngu mál Reykvíkinga heldur landsmanna allra.