16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessari till. og því sammála erindi hennar. Vitanlega skipta málefni höfuðborgarinnar alla landsbúa máli og þau náttúruverðmæti sem tekin eru á náttúruminjaskrá skipta auðvitað einnig alla landsmenn máli. Hér er um að ræða mál sem í reynd er umhverfisverndarmál. Sú mikla umferð sem líklegt er að beinist að fyrirhuguðu ráðhúsi við horn Tjarnarinnar mun hafa áhrif á lífríki hennar. Fyrirhuguð þinghúsbygging mun einnig hafa mikil áhrif á umferðarþunga og auka hann. Þess vegna er eðlilegt að minnast á þá byggingu, eins og hv. 8. þm. Reykv. gerði, því hún er hluti af þeirri heild sem er ætlað að umlykja þá náttúruperlu sem Tjörnin er.

Ég hef í höndum almenna starfsemislýsingu um fyrirhugaða þinghúsbyggingu og ég vek athygli hv. þm. á því sem hér segir — og ég bið hv. þm. að taka vel eftir. Þar er talað um aðkomu bifreiða og gönguleiðir. Og ég vitna, með leyfi forseta, blaðsíðunúmerið er S 2:

„Aðkoma bifreiða að lóð Alþingis er frá aðliggjandi götum, þ.e. Kirkjustræti, Templarasundi, Vonarstræti og Tjarnargötu. Samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir lítilli umferð en þó mögulegri aðkomu bifreiða við Kirkjustræti og þar geti verið nokkur skammtímabifreiðastæði. Gert er ráð fyrir að einstefnuakstur verði um Tjarnargötu en tvístefnuakstur með þrem akreinum við Vonarstræti.“ — Ég endurtek, „tvístefnuakstur með þrem akreinum við Vonarstræti.“

Hvar mun rými fyrir þetta verða tekið? Verður húsið Þórshamar rifið? Verður hús Oddfellow rifið eða verður tekið af Tjörninni til að koma fyrir tvístefnuakstri með þrem akreinum? Við skulum gæta að okkur því að eitt leiðir af öðru. Byggingar sem byggðar verða munu mynda nýjar þarfir og flestar stofnanir hafa tilhneigingu til að vaxa, sérstaklega opinberar stofnanir. Af því hafa margir reynslu hér inni. Ég bið menn að íhuga þetta og ég bið menn að vara sig. Þessar tillögur sem ég vitnaði til eru einmitt runnar frá borgarskipulaginu þannig að það hefur greinilega gert ráð fyrir ýmsu sem tengist þessum tveimur húsum. Það er ekki hægt annað en hafa áhyggjur af eða telja ástæðu til að gæta að þessu viðkvæma lífríki, sem marga hefur glatt. Það verður heldur ekki hægt að bæta, ef illa fer, því að enginn fer niður að Tjörn með börnin sín til að gefa gulum öndum úr plasti. Þær borða ekki brauð.