17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

106. mál, dagvistun barna á forskólaaldri

Flm. (Ásmundur Stefánsson):

Frú forseti. Ég sé á svipmóti þeirra þm. sem eftir sitja að það er ljótur leikur að ryðjast með þessum hætti fram og lengja fundardaginn. Það er reyndar til siðs að þeir sem eru gestkomandi hér í þessu þingi flytji till. til þál. og frv. til laga eða eitthvað slíkt þann tíma sem þeir sitja. Þegar það var í bígerð að ég kæmi hér inn voru auðvitað ýmis mál á döfinni eins og oftast og það sem vakti mesta athygli manna þann tíma var umræða um sláturhús á Bíldudal. Ég var þess vegna að velta því fyrir mér áður en ég kom hér inn hvort ekki væri rétt að ég flytti till. til breytinga á lögum um skoðun bifreiða þar sem ég færi fram með heimild til þess eða kvöð kannski öllu heldur gagnvart bifreiðaeftirlitsmönnum að þeim væri skylt að hleypa bifreið minni í gegnum skoðun þó svo að hemlar eða annar öryggisúfbúnaður uppfyllti ekki þeirra kröfur. Ég er viss um að ef ég hefði valið slíkan kost hefði ég fengið í fyrsta lagi mikla fjölmiðlaumfjöllun og ég er nokkuð sannfærður um að það hefðu fleiri setið í salnum en gera það núna.

Ég valdi hins vegar ekki þennan kost, kannski að hluta til vegna þess að ég hef dagfarslega nokkuð sæmilegt fjölmiðlaljós og þarf kannski ekki mest á því að halda, en líka vegna þess að mér er satt að segja nokkuð annt um líf og limi annarra og taldi því ekki rétt að standa í slíkum leik. Ég valdi í staðinn að bera fram frv. sem ég tel að skipti efnislega miklu máli.

Ég hef lengi unnið að því að leita leiða til að auka dagvistarþjónustu og það frv. sem hér er lagt fram er unnið upp úr þeim hugmyndum sem ég setti fram á fjölmennum fundi Kvenréttindafélags Íslands fyrr á þessu hausti. Ég fagna þess vegna því tækifæri sem gefst til að flytja málið hér á þingi og ég vona að alþm. sýni þessu máli sama áhuga og þeir hefðu örugglega gert ef ég hefði flutt tillögu um sérstaka meðferð við skoðun bifreiða.

Í íslensku þjóðfélagi er aðstaðan sú að flestir fullorðnir vinna utan heimilis. Sú fjölskyldugerð sem ég ólst upp við, og ég er fæddur 1945, að faðir afli tekna og móðir gæti bús og barna, er að heitið getur úr sögunni. Faðirinn vinnur að vísu enn utan heimilis. Vinnutíminn hefur væntanlega styst nokkuð frá minni barnæsku. Við höfum ekki upplýsingar um vinnutíma fyrr en upp úr 1960, en þá var hann töluvert yfir 60 stundir á viku þannig að hann hefur vissulega styst nokkuð síðan. En hann hefur ekki styst á undanförnum árum. Hann hefur haldist hjá ófaglærðum karlmönnum og faglærðum milli 52 og 54 stundir í grófum dráttum hin síðari ár og kannski að undanförnu verið vaxandi. Það sem hefur breyst er að móðirin er farin að vinna. Giftu konurnar hafa ekki haldið sig við heimilisverkin og barnagæsluna sem sitt eina starf hin síðari ár. Þær hafa sótt út á vinnumarkaðinn. Margar sóttu fyrst í hlutastarf og síðan fullt starf.

Virk atvinnuþátttaka giftra kvenna var árið 1963 nokkuð innan við 30%. Með virkri atvinnuþátttöku er þá í grófum dráttum miðað við að unnið sé sem svarar þremur mánuðum að lágmarki. Árið 1971 var talan komin aðeins yfir 40%, árið 1980 var hún í 60% og árið 1985 í 75%. Við höfum ekki upplýsingar langt aftur á bak um starfshlutfall giftra kvenna, en við vitum að frá árinu 1980 hefur starfshlutfallið vaxið samhliða því sem virkum konum á vinnumarkaði hefur fjölgað. Það liggur þannig fyrir að árið 1980 var það innan við 1/4 kvenna sem vann fjórðungsstarf eða minna. Það var innan við helmingur sem vann hálft starf eða minna, ef við leggjum það allt saman, þannig að talan var 47,8%. Það var því liðlega helmingur, 52,2%, sem vann meira en hálft starf, þar af tæplega 35% fullt starf eða a.m.k. 3/4 úr starfi. Árið 1985 höfðu þessar tölur breyst þannig að giftar konur sem unnu fjórðungsstarf og minna voru orðnar tæplega 15% og það voru samanlagt aðeins um 36% þeirra giftu kvenna sem voru úti á vinnumarkaðnum sem unnu hálft starf eða minna. 64% unnu sem sagt fullt starf eða a.m.k. 3/4 úr starfi.

Þetta eru miklar breytingar á mjög stuttum tíma og það blasir við okkur að börnunum er í dag komið fyrir með mismunandi hætti og sum þeirra eru nánast á vergangi stóran hluta sólarhringsins. Það er auðvitað gömul tugga að segja að börnin séu framtíðin, en það er engu að síður satt. Þannig er það. Og börnin bera þunga bagga vegna atvinnuþátttöku beggja foreldra. Ég óttast að þau muni ekki öll standa undir þeirri byrði. Með aðgerðarleysi, með sinnuleysi erum við að fórna börnunum. Barnanna vegna og ekki síður okkar sjálfra vegna verðum við að snúa við blaði.

Þörfin fyrir dagvistarheimili hefur aukist mjög hratt. Það sýndu þær tölur sem ég rakti áðan um aukna atvinnuþátttöku giftra kvenna, um þá grundvallarbreytingu sem orðið hefur á stuttum tíma frá því að faðirinn var fyrirvinna fjölskyldunnar og yfir í að foreldrarnir báðir eru virkir á vinnumarkaðnum. Þó það hafi orðið veruleg aukning á dagvistarþjónustu á undanförnum árum sýnist mér flest benda til þess að vandinn hafi aukist og það séu fleiri og fleiri foreldrar sem eigi í vanda með að koma börnum sínum fyrir á meðan þeir eru úti í starfi.

Nú hafa nánast aðeins svonefndir forgangshópar í Reykjavík aðstöðu til að koma börnum sínum á dagheimili og það eru innan við 20% 2–6 ára barna sem njóta slíkrar þjónustu í Reykjavík í dag. Það eru hins vegar um 40% barna í þessum aldursflokki sem njóta þjónustu leikskólanna.

Leikskólarnir gátu á vissan hátt áður þjónað miklu hlutverki í þessu, en ég held að segja megi að í dag séu þeir í vaxandi mæli hlutalausn eins og tölurnar sem ég rakti áðan um aukið starfshlutfall sýndu greinilega.

Ég vil reyndar aðeins nota tækifærið hér til að leiðrétta meinlega prentvillu, sem er hér á bls. 2 í grg., þar sem stendur á miðri síðunni: „Leikskólar eru mun dýrari en dagheimili.“ Þar hefur fallið niður eitt ó því að auðvitað á að standa þar: Leikskólar eru mun ódýrari en barnaheimili. Ég vil koma því hér á framfæri ef aðrir skyldu ekki taka eftir því.

Ég ætla ekki í rökræður um mismunandi dagvistarform. Ég ætla ekki að fara í umræður um það heldur hvers konar dagvistarheimili við viljum. Það sem ég vil hins vegar gera með þessari umræðu, með þessari tillögu er að benda á leið sem getur tryggt það fjármagn sem þarf til að rekstur dagvistarheimila geti orðið að raunveruleika.

Þær tilraunir sem hafa verið gerðar hingað til til að bæta úr brýnni og vaxandi þörf fyrir dagvistun barna hafa ekki skilað fullnægjandi árangri. Þannig samdi Alþýðusambandið 1980 við ríkisvaldið um mikið átak í þessum efnum sem aldrei var raunverulega staðið við eins og til stóð. Ríkisvaldið gæti auðvitað vísað til þess sér til afsökunar að það hafi ráðið hluta málsins, þ.e. því hefur borið samkvæmt lögum að greiða hluta byggingarkostnaðar dagheimila. En sú afsökun er í rauninni mjög lítils virði því það var af hálfu ríkisvaldsins aldrei staðið við það að sjá fyrir því fjármagni sem þar þurfti til. Þannig að það reyndi í rauninni ekki á það hvort sveitarfélögin hefðu verið reiðubúin að ganga lengra. Framlagið til byggingar dagvistarheimila á fjárlögum á síðasta ári var ef ég man rétt 43 millj. kr. Það var ekki til mikils í uppbyggingu á landinu öllu.

Það kunna ýmsir að spyrja og það spyrja ýmsir: Af hverju sviku stjórnvöld það samkomulag sem gert var við verkalýðssamtökin? Ég held að svarið sé ofur einfalt. Það hefur vantað nægilegan þrýsting. Það hefur einfaldlega ekki undanfarin ár verið sú almenna umræða sem þarf að vera um málið til að stjórnvöld beri af því þann ótta að þau þori ekki annað en standa við sitt. Hér verður að verða á breyting. Fjárlögin og lánsfjárlögin eru kannski skýrasta sönnunin fyrir því að það er ekkert tryggt til frambúðar nema stöðugt sé þrýst á. Það sjáum við af þeim niðurskurði á fjárlögum á ýmsum lögbundnum framlögum til brýnna félagslegra verkefna. Það sýnir okkur að það þarf ekki bara þrýsting einu sinni heldur alltaf ef við viljum koma félagslegum málefnum af þessu tagi í höfn. Okkur er ljóst, ég held raunar að ekki sé um það deilt, að það eru börnin sem eru fórnarlömb ófullkominnar þjónustu og að við erum með því að hafa þjónustuna jafnófullkomna og raun ber vitni að láta þau axla hættulega stóran hluta af kostnaðinum við atvinnuþátttöku beggja foreldra.

Umönnun barna er enn almennt verkefni kvenna á íslenskum heimilum. Þó auðvitað séu börnin á ábyrgð beggja foreldra er því augljóst að vandinn brennur beinna og sárar á konum ef á heildina er litið. Ófullnægjandi dagvistunarþjónusta veldur ekki aðeins sálarangist og kvíða heldur truflar hún augljóslega eðlilega atvinnuþátttöku kvenna. Á tímum örra breytinga skiptir samfelld atvinnuþátttaka miklu og augljóslega hamlar það jafnstöðu karla og kvenna á vinnumarkaði ef þær eru utan vinnumarkaðarins þann tíma sem flestir karlar nota til að leita fyrir sér í starfi og ná starfsþjálfun, finna sitt spor ef það má orða það þannig. Dagvistarþjónusta er því eitt stærsta jafnréttismálið.

Það frv. sem hér er lagt fram er tillaga um átak í aukinni dagvistarþjónustu. Það er tillaga um öfluga uppbyggingu dagvistarþjónustu. Það er hins vegar ekki tillaga um byggingarframkvæmdir og það felur ekki í sér valdboð um rekstur. Þar fer hins vegar tillaga um trausta rekstrarforsendu þannig að sveitarfélögin hafi bolmagn til að halda rekstrinum úti.

Þegar kostnaðarhlutföll eru skoðuð kemur í ljós að af heildarkostnaði á barn í almennri dagvistun, sem er um 24 þús. kr. á mánuði, er rekstrarkostnaðurinn um 19 þús. kr. og fjárfestingarkostnaðurinn um 5 þús. og raunar e.t.v. heldur minni. Framlag til bygginga er því ekki varanleg lausn þó augljóst sé að byggingarframlag getur skipt minni sveitarfélögin mjög miklu máli, þar sem hugsanlega er um eitt heimili að ræða. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það sérstaklega með tilvísun til þessa að í þeim fjárlögum sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að fella niður það framlag sem hefur verið á fjárlögum undanfarinna ára til byggingar dagvistarheimila. Þar er farið út á hættulega braut og það þarf að gera ráðstafanir til þess að gefa sveitarfélögunum aðgang að langtímalánum til að dreifa byggingarkostnaði yfir lengri tíma samhliða því sem framlögin eru aukin á öðrum sviðum ef þær hugmyndir fara fram. En það sem mestu skiptir er augljóslega að rekstrarforsendan sé tryggð til frambúðar.

Kostnaður við dagvistun er mikill. Í grg. með frv. leiði ég að því líkur að hann geti verið í heild um 4 milljarðar kr. á ári ef þjónustunni er ætlað að mæta þörf. Framlag ríkissjóðs til verkefnisins var eins og áður sagði 43 millj. kr. á síðustu fjárlögum. Í dag hvílir kostnaður því nánast alfarið á sveitarfélögum og aðstandendum barnanna.

Ég vil taka sérstaklega fram að viðmiðunartalan sem ég nota í grg. um greiðslu foreldra er frá því í október. 1. nóvember hækkuðu dagvistargjöld í Reykjavík í 7 þús. kr. eða raunar nákvæmlega reiknað 7250 og tæplega 5 þús. kr. fyrir forgangshópa eða nákvæmlega reiknað 4750 kr. Kostnaður hefur hins vegar tæplega umturnast svo að sveitarfélögin bera þá í reynd heldur minni kostnað en grg. gerir ráð fyrir. Að öðru leyti standa þær tölur væntanlega fyrir sínu. Það þýðir, ef við tökum mið af hinum almennu foreldrum, þ.e. þeim sem ekki eru í forgangshópunum, og ég vil leggja áherslu á að viðbótin í þjónustunni hlýtur að snúa að þeim fyrst og fremst, að foreldrarnir borga í dag, ef við tökum mið af Reykjavíkurtölunni sem getur verið misjöfn eftir hinum ýmsu sveitarfélögum, um 7 þús. en sveitarfélagið 17 þús. ef við gerum ráð fyrir því að það greiði það sem á vantar rekstrarkostnaðar og fjárfestingarkostnaðinn allan eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ef dæmið skiptist þannig greiða foreldrarnir 29% en sveitarfélagið 71%.

Það frv. sem ég legg fram gerir ráð fyrir því að ríkisframlagið á barn nemi 1/3 af kostnaðinum, mundi sem sagt miðað við óbreytt hlutfall að öðru leyti, óbreyttar tölur, leiða til þess að foreldrar greiddu áfram 29%, sveitarfélögin 38% en ríkissjóður greiddi 33%.

Frv. gerir ráð fyrir fastri krónutölu sem tekur mið af heildarkostnaði. Ég er þeirrar skoðunar að slík aðferð sé heppilegri en styrkur sem miðist við fjárfestinguna eina þar sem fjárfestingin er eins og ég rakti áður aðeins um 20% af heildarkostnaðinum. Rekstrarkostnaðurinn er því stærsti hlutinn þó auðvitað verði að vera aðstaða til þess að dreifa fjárfestingarkostnaði yfir lengra tímabil.

Skv. því frv. sem ég legg hér fram verður sveitarfélagið að leggja að sér ef það vill fá þann styrk sem frv. gerir ráð fyrir. Það liggur líka fyrir að sveitarfélögin geta sparað sér útgjöld með hagkvæmum rekstri. Ef þau spara útgjöldin sín megin án þess að bregðast því að vera með viðunandi rekstur skerðist ríkisstyrkurinn ekki og þau ná sparnaðinum til sín. Slík aðferð hlýtur að örva frekar til hagkvæmni en sú prósenturegla sem almennt gildir í samskiptum ríkis og sveitarfélaga eða hefur gilt þar sem ríkissjóður greiðir ákveðið hlutfall af heildarkostnaði.

Það er eðlilegt að spyrja hvort rökrétt sé að verkaskiptingin sé sú að sveitarfélögin sjái um rekstur dagvistarheimila. Ég er fyrir mitt leyti þeirrar skoðunar að svo sé. En ég er ekki á þeirri skoðun að það sé rétt, eins og ýmsir virðast gera ráð fyrir, að sveitarfélögin greiði kostnaðinn en ríkið taki þar engan þátt. Til rökstuðnings því hef ég í grg. dregið fram tölur um skattgreiðslur maka sem fer út á vinnumarkaðinn. Ég hef látið vinna fyrir mig tölur um það hvað maki með 30 þús., 40 þús. og 50 þús. kr. tekjur mundi greiða mikið annars vegar til sveitarfélaga og hins vegar til ríkis. Þær tölur eru ósköp einfaldlega þannig að séu tekjurnar um 30 þús. má reikna með því að skattgreiðslan til sveitarfélaganna sé um 2 þús. kr. Óbeinir skattar til ríkisins og þær tilfærslur sem koma á móti frá ríkinu vegast hins vegar upp þannig að þar er ekki um neina beina greiðslu að ræða. Dæmið gagnvart ríkinu stendur á sléttu, og heildargreiðslan til hins opinbera verður um 2 þús. kr. Ef tekjurnar eru hins vegar 40 þús. kr. verður greiðslan til sveitarfélagsins 3 þús. og til ríkisins 8 þús. Ef tekjurnar eru 50 þús. má gera ráð fyrir 4 þús. kr. skattgreiðslu til sveitarfélags og 17 þús. kr. til ríkisins eða samanlagt 21 þús.

Það sem við sjáum á þessum tölum er að það er langt innan við 40 þús. kr. tekjur, líklega við 34 000–35 000 kr. tekjur sem greiðslan er jöfn til ríkis og sveitarfélags. Strax og tekjurnar fara upp fyrir 34 000–35 000 eru greiðslurnar til ríkisins hærri en greiðslurnar til sveitarfélagsins. Ég tel að þessar tölur sýni að það er fráleitt að sveitarfélögin axli allan kostnað af dagvistuninni því ríkið fær það stóran hlut af þeim tekjum sem sú þjónusta gefur möguleika á að aflað sé.

Ef ríkið greiðir 1/3 af heildarkostnaði við dagvistun er það um 1300 millj. kr. á ári miðað við að þörfinni sé fullnægt ef ég tek mið af þeim forsendum sem ég gef mér í grg. Það verða eflaust ýmsir til að segja að talan sé há en ég held að rétt sé að hafa í huga að afli maki 50 000 kr. tekna þá skilar hann þó meira en tvöfaldri þessari tölu í skattgreiðslu beinna og óbeinna skatta til ríkissjóðs. Hann skilar miðað við þessar forsendur 17 000 kr. á meðan kostað er til 16 000 kr. vegna gæslu tveggja barna á almennu dagvistarheimili. Krafan um 8000 kr. greiðslu vegna hvers barns mánaðarlega er því réttlát þó hún kosti töluvert. Dæmið sýnir reyndar líka að hugmyndin um að greiða fólki fyrir að halda sig utan vinnumarkaðar og gæta barna sinna heima fyrir, sú hugmynd tekur væntanlega ekki fullt tillit til þess kostnaðar sem verður með óbeinum hætti hjá því opinbera. Hún tekur væntanlega ekki tillit til þess kostnaðar sem verður vegna tekjumissis hins opinbera ef fólk víkur af vinnumarkaði til að sinna börnum sínum heima fyrir og tekur þá ekki heldur tillit til þeirra erfiðleika sem slíkt mundi valda á vinnumarkaði. Þó að heimildin til að taka greiðslu fyrir að vera heima væri opin fyrir bæði kyn mundu áhrifin koma fyrst og fremst á þeim sviðum þar sem konur eru fjölmennar vegna þess að það má með fullri vissu segja að konur mundu verða til að nýta sér þann möguleika í mun meira mæli en karlmenn.

Ég ætla ekki að fara í rökræður um það hvaða áhrif það hefði á stöðu kvenna á vinnumarkaðinum, eins og ég ýjaði að áðan, ef þær væru langdvölum frá vinnumarkaðinum einmitt á því tímaskeiði ævinnar sem karlmenn nota almennt til að koma sér fyrir í starfi.

Þegar dagheimilisþjónusta er veitt, eins og kerfið er í dag, er verið að veita tvennt í einu, þ.e. þjónustu og styrk til þess að nota sér þjónustuna. Ein af þeim spurningum sem vaknar er hvort styrkurinn eigi að vera tekjutengdur. Mér finnst það koma til greina. Ég vil þó hins vegar um leið segja að ég tel að það sé afar nauðsynlegt, ef það er gert, að sú mismunandi greiðsla sem þá yrði um að ræða kæmi ekki fram í samskiptum foreldra eða aðstandenda við dagvistarheimilin heldur væri hún afgreidd, ef svo má að orði komast, í samskiptum við skattayfirvöld eða hliðstæða aðila. En undir öllum kringumstæðum er ljóst að ef fara á einhverjar slíkar leiðir þarf að vera um samræmdar reglur að ræða.

Ég vil leggja áherslu á það að 1300 kr. framlag verður ekki nauðsynlegt á næsta ári og tæplega eftir fjögur ár þó að frv. næði fram að ganga. Það get ég sagt með tilvísun til þess að t.d. hér í Reykjavík þyrfti að fjölga almennum dagvistarheimilum tvisvar og hálfu sinni til þess að ná því marki að fullnægja því sem þar er miðað við. En það er ljóst að slíkt gerist ekki á augabragði og það segi ég ekki til hnjóðs þeim sem ráða hér í Reykjavík. Vandinn við að taka á móti breyttum reglum af þessu tagi yrði eflaust ekki minni á ýmsum öðrum stöðum á landinu.

Það er einnig ljóst að ef hrinda á í framkvæmd þeirri uppbyggingu dagvistarheimila sem ég geri ráð fyrir með þessu frv., þá þarf að grípa til aðgerða víðar og ekki aðeins til þess að koma upp nýjum húsum heldur einnig til að ná starfsfólki til að sinna þeim verkefnum sem þarna blasa við.

Ég vil líka nefna að það er augljóst að dagheimili þurfa að mæta fjölbreyttri þörf. Þörf vaktavinnufólks. Þörf fólks með mislangan vinnudag. Og ég legg áherslu á það að vandinn er ekki leystur þegar forskólaaldrinum lýkur þó að frv. miðist einvörðungu við þann hóp. Vandinn er ekki frá þegar skólaganga hefst. Það vantar mikið á að skóladagurinn sé samfelldur. Flestir foreldrar þekkja hversu erfitt það getur verið að fá miða heim með börnunum um að það sé frí í dag. Þann miða hafa börnin kannski átt að rétta foreldrunum nokkrum dögum áður. Það er ekki alltaf mikið til bjargar í þeirri aðstöðu. Og í löngu skólafríunum er ekki alltaf auðvelt að sinna skyldu sinni sem foreldri. Ekki síst af því að þau skólafrí koma stundum á tímabilum þar sem miklar athafnir eru úti í atvinnulífinu. En ég ætla ekki að fjalla um þau mál að sinni.

Ég er að tala hér fyrir átaki í dagvistarmálum, í málum barna á forskólaaldri. Ég er með tillögu um það að ríkisútgjöld til þess málaflokks verði raunhæf miðað við það verkefni sem við okkur blasir. Fyrsta árið gætu útgjöld, miðað við það sem frv. gerir ráð fyrir, orðið kannski 150–200 millj. kr. og farið síðan vaxandi í 1300 millj. á einhverju árabili.

Það verða eflaust ýmsir til að segja að svo há tala kalli á sérstakan skattstofn. Ég tel mig hins vegar hafa sýnt fram á að ríkissjóður hefur mjög miklar skatttekjur af þessari þjónustu í dag, eða öllu heldur af þeirri tekjuöflun og ráðstöfun sem dagvistunin gerir mögulega. Fyrir mér er það réttur barnsins til viðunandi uppvaxtarskilyrða sem er meginmálið. Ég vil komast hjá því að þau verði fórnarlömb og beri byrðarnar af atvinnuþátttöku beggja foreldra. Börnin eiga rétt á viðunandi þjónustu. Ef við veitum hana ekki mun framtíðin verða að gjalda það dýru verði. Í trausti þess að skilningur sé hjá hinu háa Alþingi á því að styðja málið, þá legg ég það hér fram og ég legg til að því verði vísað til menntmn. að umræðu lokinni.

Frú forseti. Ég vil reyndar gera athugasemd við þá tillögu mína. Ég leitaði við upphaf þessarar umræðu ráða hjá nokkrum þm. Þar sem málið fellur undir menntmrn. er mér sagt að það sé eðlilegt að það falli undir menntmn. og tillaga mín er í samræmi við það. Aðrir hafa hins vegar bent á að það gæti verið eðlilegra að það félli undir félmn. Í þriðja lagi hefur mér verið bent á að þar sem um verulegt fjárhagsmál sé að ræða þá kæmi til greina að vísa því til fjh.- og viðskn. Þannig að hafi forseti við það að athuga að málinu verði vísað til menntmn. þá legg ég það í hennar vald að gera þar breytingu á.