18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Fagna ber því að umræða á borð við þá sem hér fer fram um jafnrétti kvenna og karla í íslensku samfélagi er í gangi og mun án efa vekja ýmsa hlutaðeigandi til umhugsunar um að hlutur kvenna, m.a. við ýmsar stöðuveitingar, virðist fyrir borð borinn. Nægir í því efni að minna á nýlega könnun Jafnréttisráðs sem leiddi í ljós hversu lítinn hlut konur áttu í stjórn þjóðfélagsins þrátt fyrir að þær eru helmingur þegnanna og hafa menntun og starfsreynslu í ríkum mæli á flestum sviðum atvinnulífsins.

Ég verð þó að benda hv. flm. frv. á að varhugavert getur verið að binda með lögum tiltekið hlutfall kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, enda þótt með því sé fyrirhugað að raungera þá hugsun sem býr að baki jafnréttislögunum svokölluðu, sbr. 1. gr. þeirra laga, en þessi lög voru samþykkt á hinu háa Alþingi 19. júní 1985 og hlutu staðfestingu þann 28. júní sama ár. Sú tiltekna lagagrein er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.“

Um leiðir til þess að ná þessu markmiði er kveðið á í 2. gr. sömu laga:

„Konum og körlum skulu með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar.“

Í 3. gr. laganna er tekið fram að hvers kyns mismunun eftir kynferði sé óheimil og jafnframt að sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem miði að því að ná settu marki, gangi ekki gegn lögunum.

Á það er vert að minna að jafnréttislögunum, sem nú hafa verið í gildi í rúm tvö ár, var ætlaður reynslutími til fimm ára því í 23. gr. laganna er tekið fram að þau skuli endurskoða að þeim tíma liðnum. Hefur þá væntanlega verið haft í huga að þá hafi verið leitað allra tiltækra leiða innan ramma laganna til að stuðla að jöfnum rétti kvenna og karla. Lögin hafa því aðeins verið í gildi í rúm tvö ár.

Stjórnvöld hafa það í hendi sér við stöðuveitingar á þeirra vegum, ef bæði kynin sækja um stöðu og teljast jafnhæf, að veita konu frekar en karli stöðuna til að jafna metin á milli kynjanna og stuðla að því að markmið ofangreindra laga náist. Geta má hér um þá verklagsreglu sem vel hefur gefist til að ná árangri að þessu leyti hjá nágrannaþjóðum. Sú regla felst í því að þegar tilnefna skal í stjórn, nefnd eða ráð á vegum hins opinbera er tilnefnd tvöföld sú tala manna sem skipa á, jafnmargar konur og karlar, og síðan er valið úr þeim hópi. Þessi vinnuregla hefur notið vaxandi vinsælda þar sem hún hefur verið viðhöfð því jafnt og þétt eykst sá fjöldi kvenna sem fer til forustustarfa og kynin njóta þar jafnréttis á grundvelli hæfni og þekkingar.

Það getur hins vegar verið varhugavert að lögbinda tiltekinn fjölda kvenna eða karla því að sú staða getur komið upp að ekki séu fyrir hendi hæfir einstaklingar af öðru hvoru kyni þegar tilnefning fer fram. Það gildir jafnt um karla sem konur og getur m.a. ráðist af því hversu kynin hafa raðað sér ólíkt á menntunar- og starfsbrautir.

Í 2. mgr. frv. segir: „Í nefndum, stjórnum og ráðum, sem skipuð eru beint af ráðuneytum eða á vegum opinberra stofnana og fyrirtækja, skulu ekki vera færri en 40% af hvoru kyni.“

Það verður að skoðast lítillækkandi hvort sem karl eða kona á í hlut að öðlast stöðu eða annan frama á sviði þjóðfélagsins út á það eitt að vera af tilteknu kyni. En á sama hátt er það lítillækkandi að vera hafnað af þeirri ástæðu.

Til að ná sem fyllstum jöfnuði kvenna og karla og veita kynjunum tækifæri til að endurnýja og umskapa samfélagið í krafti mismunandi reynslu og stuðla að því að forustusveit þjóðfélagsins endurspegli gerð þess er auðvitað fyrsta skilyrðið til þess að svo megi verða að veita þegnunum jöfn tækifæri til athafna á grundvelli hæfni og verðleika. Áður en gripið er til þvingunaraðgerða á borð við að lögbinda tiltekinn fjölda af hvoru kyni hlýtur að vera skynsamlegt að leita leiða sem geta skilað svipuðum árangri en hlíta betur lögmálum um persónufrelsi manna. Þetta tel ég ekki fullreynt.

Á hinn bóginn má ekki gleyma því að ef ráðamenn þjóðarinnar sýna ekki vilja til að fullnusta markmið jafnréttislaganna og koma á raunverulegu jafnrétti kvenna og karla í íslensku þjóðfélagi nútímans er hugsanlegt að lagabreyting sem þessi verði talin réttlætanleg og þá sem tímabundin aðgerð til að jafna metin.

Ég legg enn á það áherslu að fagna ber því tilefni sem hér hefur gefist til að ræða jafnrétti og jafna stöðu kvenna og karla og hvað líði framkvæmd laga um þau efni. Hér er stórt mál á ferðinni sem snertir kviku þjóðlífsins. Þróun á sviði stjórnmála hér á landi undanfarin ár færir Íslendingum heim sanninn um að við svo búið má ekki standa. Það getur varla talist heppileg né eðlileg þróun þegar fólk skipar sér í stjórnmálaflokk eftir kyni.

Jafnréttisráð, sem starfar á grundvelli jafnréttislaganna, stendur að markverðum könnunum og athugasemdum í krafti þeirra laga. Því miður sýna þessar kannanir að of hægt hefur miðað í ýmsum jafnréttismálum þrátt fyrir að konur hafa sótt fram á ýmsum sviðum þjóðlífsins. M.a. hafa fleiri konur en karlar lokið stúdentsprófi á síðustu árum.

Það er nú stjórnvöldum í sjálfsvald sett að þau sýni vilja til að fara að þeim lögum sem hið háa Alþingi hefur samþykkt og viljinn má ekki einungis felast í orðum heldur einnig í athöfnum.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum minna á það, sem sagan sýnir, að þegar saman fer jafnrétti manna og umbun til þeirra sem fá notið hæfileika sinna og atorku miðar þjóðfélaginu sem heild hraðast fram á veg.